133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:22]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var mjög dökkt útlit hvað verðbólguhorfur varðaði í sumar. Hv. ríkisstjórn kom þá fram með tillögur um að senda út skilaboð um að draga úr þenslu og lækka verðbólgu.

Nú skulum við fara yfir hver stefna Samfylkingarinnar var í þeim efnum. Hún mótmælti kröftuglega því að menn mundu fresta vegaframkvæmdum, kröftuglega, (Gripið fram í.) mótmælti kröftuglega því að hámarkslán Íbúðalánasjóðs og lánshlutfall Íbúðalánasjóðs yrði lækkað. Þetta var innlegg Samfylkingarinnar í því þensluástandi sem ríkti í sumar. Nú er árangur ríkisstjórnarinnar að koma í ljós. Spennan í hagkerfinu er að minnka. Verðbólgan er að lækka vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar.

Síðan vogar hv. þm. Katrín Júlíusdóttir sér að koma hér upp og bera brigður á þær framkvæmdir og áætlanir sem ríkisstjórnin boðaði í sumar til þess að mæta þessu þensluáhrifum, sem Samfylkingin var gjörsamlega á móti. Hv. þingmaður talar hér um að verðbólga hafi aukist. Það er rétt. En hún er sem betur fer að minnka núna. Ég fór nú yfir það — hv. þingmaður hefði betur átt að hlusta á ræðu mína — að kaupmáttur almennings er að hækka um 5,7% á þessu ári, er að hækka um 5,7% á ári umfram (Gripið fram í.) verðlagsbreytingar. Hv. þingmaður verður að kynna sér þessar staðreyndir, að kjör almennings eru almennt að batna meira en gert var ráð fyrir. Hv. þingmaður kemur hér upp með staðleysur og það er undarlegt, sérstaklega í ljósi þess að það var Samfylkingin og stjórnarandstaðan sem barðist gegn því að við, ríkisstjórnarflokkarnir, gætum náð þeim stöðugleika sem við stefndum að og erum að ná núna þrátt fyrir andstöðu Samfylkingarinnar.