133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[16:10]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það verður að segjast eins og er, að það þarf ekki mikið til að vekja upp grunsemdir hjá hv. þingmanni. Mér finnst sjálfsagt að farið verði yfir orðalagið og hvað stendur á bak við hvert og eitt einasta orð og hverja einustu kommusetningu ef þarf til að hv. þingmaður hafi allar upplýsingar um hvað á að nýta fjármunina í.

Ég vildi hins vegar upplýsa hann um, af því að hann spurði um sérstaklega um ástæðuna fyrir því að það misfórst á síðasta þingi að skila lokafjárlögum, að þau koma ekki fram fyrr en eftir áramót. En það er fljótlega von á þeim í sali Alþingis. Ætlunin er að fjárlaganefnd geti fjallað um lokafjárlögin á sama tíma og fjárlagafrumvarpið og fjáraukalagafrumvarpið þannig að hún hafi þrjú ár undir. En ef hraðinn verður svo mikill á störfum nefndarinnar, þar sem ég veit að hv. þingmenn sem talað hafa í kvöld hafa sérstakan áhuga á stöðu einstakra stofnana, þá kemur fram í sérstöku yfirliti III, í ríkisreikningnum sem kom út í sumar og er auðvitað það plagg sem lokafjárlögin byggjast að miklu leyti á, staða stofnana. Því mun hægt að byrja á að fara yfir það, frú forseti.