133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[16:52]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlast til þess að hæstv. fjármálaráðherra hafi lesið skýrslu ríkisendurskoðanda um framkvæmd fjárlaga ársins 2005. Ég ætlast til þess af hæstv. fjármálaráðherra að það hafi vakið athygli hans að ríkisendurskoðandi tekur má segja eina stofnun eða embætti þarna út úr og fer yfir ástæður þess að það embætti hefur keyrt yfir fjárlög eða umframfjárlög undanfarin þrjú ár og að ríkisendurskoðandi setji þar niður niðurstöðu sína eftir að hafa skoðað málið á hlutlausan hátt.

En það er engu líkara en hæstv. ráðherra hafi ekki lesið skýrslu ríkisendurskoðanda því hann veltir því fyrir sér þegar ég les beint upp úr skýrslunni, með leyfi forseta, hvort ég sé að vitna í skýrsluna eða hvort þetta séu mínar hugrenningar.

Ég ætla láta það liggja á milli hluta, herra forseti, hvort hæstv. ráðherra hefur gefið sér tíma til að lesa skýrsluna. Ég vona það þó því full ástæða er til að fara í gegnum ábendingar ríkisendurskoðanda varðandi framkvæmd fjárlaga og full ástæða til að reyna að bæta eitthvað úr því hvernig gengið er um ríkiskassann.

Það vakti athygli mína að hæstv. ráðherra nánast sagði í andsvari sínu að það væri hættulegt að lækka matarskattinn of snemma. Það gæti valdið þenslu. Ætli þessi ríkisstjórn hafi ekki gert annað eins? En hún gerir það ekki núna þegar það kemur þeim best sem lægst hafa launin og minnst hafa. Það er hættulegt. Það gæti valdið þenslu, herra forseti. (Fjmrh.: Það heldur ASÍ alla vega.)