133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:15]
Hlusta

Árni Steinar Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem inn sem varaþingmaður, ég verð því ekki hér við átökin um samgönguáætlun. En það er náttúrlega augljóst í mínum huga eftir langar og miklar umræður sem áttu sér stað á síðasta þingi um það verkefni sem er í gangi fyrir austan og sérstaklega kaflann um samfélagsleg áhrif, að sú umræða hlýtur að leiða af sér í nýrri samgönguáætlun að þarna verði jarðgöng sett í forgang einfaldlega vegna þess að hin samfélagslegu áhrif nást ekki nema með því að tengja þessar byggðir saman. Það er þannig og ég held að allir geri sér grein fyrir því.

Í samtölum við forsvarsmenn fyrirtækisins gera þeir sér miklar vonir um að þessum málum verði flýtt vegna þess að Neskaupstaður er náttúrlega langstærsti þéttbýliskjarninn með fjórðungssjúkrahús, skóla, framhaldsskóla og menningarlíf og fleira. Þegar við ræddum um verkefnið sem slíkt á sínum tíma töluðu menn mikið um hin samfélagslegu áhrif og jarðgangatenging frá Norðfirði í Eskifjörð er lykill að því að það takist eins vel til og kostur er með þá uppbyggingu og samtengingu þessara svæða.

En það kemur í hlut annarra að ræða þau mál. Ég er hér inni í tvær vikur og bind við það miklar vonir að við gerð nýrrar samgönguáætlunar verði þetta verkefni sett á oddinn.