133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

neyslustaðall.

102. mál
[13:39]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir svör hans. Ég verð að segja að þetta lofar góðu. Ég held að þetta sé fyrsta fyrirspurn sem hæstv. ráðherra svarar en hann gefur skýr og afdráttarlaus svör við því sem um er spurt og vonandi verður framhald á því hjá hæstv. ráðherra.

Ég vil fagna því að loksins sjái til lands í þessu máli sem við höfum verið að berjast fyrir í mörg ár á Alþingi, að tekið verði upp eitt slíkt neysluviðmið. Ég fagna því sem fram kemur í orðum hæstv. ráðherra að það sé vel framkvæmanlegt að gera slíkan neyslustaðal að mati starfshópsins. Enga lagabreytingu þarf, segir hæstv. ráðherra, en ég spyr: Hvenær má vænta að þetta neysluviðmið verði tekið upp? Hvenær kemur það til framkvæmda? Nú þekki ég ekki nákvæmlega hvernig það er á Norðurlöndum en ég hygg að það neysluviðmið sem þar er sé fyrst og fremst leiðbeinandi. Kannski veit hæstv. ráðherra betur um það. Hæstv. ráðherra nefnir að ekki verði fyrirskipað eitt neysluviðmið heldur verði um að ræða almennt neysluviðmið sem verði þá leiðbeinandi, sem ég hygg þá að sé með svipuðum hætti og er á öðrum Norðurlöndum.

Ég bíð spennt eftir því að sjá hvernig þetta neysluviðmið er vegna þess að þetta verður að miða við eðlilegan framfærslugrunn fjölskyldna, mismunandi fjölskyldna, ef þetta á að koma að einhverju gagni. Ef neysluviðmið er mjög lágt gerir þetta ekkert gagn en neysluviðmið sem nú eru í gangi eru mjög mismunandi. Þau eru t.d. mjög lág hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna eðli máls samkvæmt vegna þess að þar er miðað við að viðkomandi þurfi að miða framfærslu við það í stuttan tíma, en þetta verða að vera sæmileg neysluviðmið sem taki mið af raunverulegum framfærslukostnaði heimilanna. Um þetta spyr ég hæstv. ráðherra sem væntanlega hefur séð þetta neysluviðmið.