133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

leiga aflaheimilda.

179. mál
[14:35]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Gunnar Örlygsson) (S):

Hæstv. forseti. Á síðasta fiskveiðiári, eða á fiskveiðiárinu 2005 til 2006 var flutningur aflamarks milli skipa í eigu óskyldra aðila rúm 60 þús. tonn í þorski. Rúm 45 tonn í ýsu. Rúm 30 þús. tonn í ufsa. Rúm 25 þús. tonn í karfa og rúm 10 þús. tonn í steinbít. Flutningur milli annarra botnfisktegunda var minni í tonnum talið.

Flutningur á aflamarki á milli skipa í eigu óskyldra aðila nefnist með öðrum hætti viðskipti þar sem eigendur kvóta fá greidda leigu frá öðrum útgerðarmönnum fyrir aflaheimildir sínar.

Viðskipti af þessu tagi eru gífurlega mikil og ef tekið er mið af núverandi leiguverði eru viðskiptin af kvótaleigunni þar sem eingöngu þorskur er tekinn til útreikninga rúmlega 7 milljarðar kr. á ári. Ýsan ein og sér slagar upp í tæpa 2 milljarða kr. Viðskipti með aðrar bolfisktegundir hljóða upp á lægri tölur.

Ef tekið er mið af meðalverði á þorski samkvæmt útskrift frá Íslandsmarkaði annars vegar og hins vegar meðalverði á leigu aflaheimilda fyrir sömu tegund, kemur ýmislegt einkennilegt í ljós. Í fyrsta lagi er kvótaleiguverðið frá 58% til 79% af söluverði þorsks frá janúar til september á þessu ári. Til að mynda var leiguverð á þorski 117 kr. í febrúar á þessu ári en meðalverð á þorski frá fiskmörkuðum einungis 147 kr.

Það er ómögulegt fyrir útgerðarmann að standa straum af öllum rekstri fyrir einungis 30 kr. á kíló fyrir þorskinn sinn. Með öðrum orðum, þá er leiguverðið óeðlilega hátt hlutfall af rekstri og sér það hver sem vill að þær krónur sem eftir standa hjá leigutaka eða útgerðarmanni eftir greiðslu á kvótaleigu duga skammt til að greiða annan kostnað við rekstur útgerðar, svo sem launaliði, veiðarfærakostnað, olíu og annað sem fellur til almenns útgerðarreksturs.

Í þessu ljósi er mikilvægt að benda á að óheimilt er fyrir útgerð að láta áhöfn taka þátt í kvótakaupum. Það er greinilega einnig erfiðleikum bundið fyrir nýja aðila sem hyggjast hasla sér völl á sviði útgerðar sökum verðmyndunar á leigu á aflaheimildum. Ég fæ ekki með nokkrum hætti séð hvernig viðkomandi aðili á að komast af með rekstur sinn. Ég tel því afar mikilvægt að fundin verði ný leið til að stýra fyrirkomulagi á leigu aflaheimilda og legg því fram eftirfarandi spurningar til hæstv. sjávarútvegsráðherra:

Hyggst hæstv. sjávarútvegsráðherra Einar Kristinn Guðfinnsson beita sér fyrir breytingum á framtíðarfyrirkomulagi aflaheimilda? Ef svo er, hvenær megum við vænta breytinga og með hvaða hætti?