133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

leiga aflaheimilda.

179. mál
[14:44]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það felast mikil verðmæti í að leigja frá sér kvóta og mikill kostnaður fyrir þá sem leigja hann til sín. Miðað við þær upplýsingar sem fram koma hér að leiguverð á þorski sé um 58% til 79% af söluverði, halda menn þá virkilega að ekki séu brögð að því að sjómenn á þessum skipum sem veiða þennan kvóta eftir að búið er að leigja hann taki ekki þátt í kvótakaupum? Eru menn svo bláeygir að halda að það sé hvergi svoleiðis?

Svona há leiga hlýtur að hvetja til svindls á kerfinu. Leiga eins og þessi hlýtur að virka sem hvati til þess að menn reyni að fara að landa fram hjá, skíra fisktegundir upp á nýtt og kasta fiski áður en komið er í land vegna þess að menn geta ekki komið í land nema með dýrasta fiskinn. Menn hljóta, miðað við þær upplýsingar sem hér eru, að reyna á einhvern hátt að komast hjá því að allt sé gefið upp til kvóta þegar leigt er með þessum hætti.

Er ráðherra svo bláeygur að halda að þetta sé ekki til?