133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

bann við botnvörpuveiðum.

196. mál
[14:52]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessar spurningar. Ég held að þetta sé mál sem við eigum svo sannarlega að láta okkur varða. Staða Íslands er sterk, þó að við séum smátt ríki í þeirri alþjóðlegu umræðu sem fer fram um sjávarútvegsmál og auðlindanýtingu. En hvað sem öllu líður er það svo að eftir sjónarmiðum okkar er hlustað og það skiptir þess vegna máli hver sú afstaða er þegar við mótum hana á alþjóðlegum vettvangi. Ég hygg að það sé mjög gott að þessi umræða komi fram og inn í þingsali þar sem við getum skipst á skoðunum og rætt þessi mál vegna þess að við þurfum svo sannarlega að hafa ljósa stefnu í þessum málaflokki.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði áðan að mikil og vaxandi tilhneiging er víða í alþjóðasamfélaginu til að færa stjórn á auðlindanýtingu frá þjóðríkjunum til alþjóðlegra stofnana. Við sjáum slíkrar tilhneigingar gæta víða. Í umræðu sem fer fram t.d. um ástand fiskstofna telja menn oft og tíðum að svarið við þessu sé það að færa ákvörðunarvaldið frá þjóðunum og inn í alþjóðlegar stofnanir. Umræða um botnvörpubannið er bara angi af því máli. Það er hins vegar að mínu mati mjög alvarlegt fyrir okkur vegna þess að við höfum barist fyrir því að hafa nýtingarrétt á auðlindum okkar og við verðum að verja þann nýtingarrétt. Okkur getur greint á innan lands um ýmsa þætti í þessum efnum en ég hygg að flestir séu þó sammála um að það skipti öllu máli að nýtingarrétturinn sé þjóðanna. Og í þeim tilvikum þar sem ekki er hægt að koma við stjórn á veiðum á einstökum fisktegundum sé það gert með svæðisbundnum hætti, eins og við t.d. gerum varðandi ýmsa stofna, loðnu, síld, kolmunna, úthafskarfa o.s.frv.

Það sem hér liggur til grundvallar er sú tilhneiging sem hv. þingmaður nefndi. Ég held að hugsanlegt bann við botnvörpuveiðum á úthafinu mundi geta aukið líkur á því að stjórn fiskveiða færðist til alþjóðastofnana, svo sem Sameinuðu þjóðanna, eins og hv. þingmaður nefndi. Þessi umræða er í sjálfu sér ekki ný af nálinni, hún fór fram fyrir nokkrum árum og þá samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að beina því til strandríkja að bæta stjórn fiskveiða innan eigin efnahagslögsögu, og einnig til svæðisbundinna fiskveiðistofnana að bæta stjórn slíkra veiða á úthafinu með sérstöku tillit til verndunar viðkvæmra vistkerfa. Þetta er það sjónarmið sem við höfum verið að reyna að fylgja eftir og á slíkum grundvelli eigum við auðvitað að vinna.

Við eigum mjög marga góða bandamenn í þessum efnum. Við erum ekki einangruð og mjög mörg ríki standa með okkur, Bandaríkin, Rússland, Japan, Kanada, Suður-Kórea, Namibía, Kína, Suður-Ameríkuríki o.s.frv. Við erum því út af fyrir sig ekki einangruð í þessum efnum, fiskveiðiríkin, því sjávarútvegsríkin skilja mjög vel þessa hluti. Þess vegna eigum við að reyna að vinna áfram á þessum grundvelli.

Sé það hins vegar svo að fjalla þurfi með einhverjum hætti um þessi mál á alþjóðlegum vettvangi er eðlilegast að það sé gert á vettvangi FAO. Það hefur verið stefna okkar og þar er sú þekking sem þarf að vera til staðar og er til staðar á þessu sérhæfða máli sem sjávarútvegsmálin eru.

Hv. þingmaður spyr mig líka hvort ég telji líklegt að ef botnvörpuveiðar verði bannaðar í úthafinu verði þær fljótlega bannaðar alls staðar annars staðar. Auðvitað getur maður ekki svarað því ákveðið en ég hygg að þær hugmyndir sem verið var að ræða í síðustu viku í New York gangi m.a. út á það og yfir því vakir ákveðin hugmyndafræði um það sem ég nefndi hér áðan, að reyna að koma alþjóðlegri veiðistýringu á víðar. Við þekkjum mjög gott dæmi um það hvernig alþjóðleg veiðistýring virkar. Við erum búin að berjast við það núna árum og áratugum saman að reyna að taka upp hvalveiðar. Þar er alþjóðleg veiðistýring. Hún byggir á því að einhvers staðar sé hægt að benda á að tiltekinn hvalastofn sé í hættu og þá eru bara veskú allar hvalveiðar bannaðar. Við heyrðum núna nýlega umræðu frá WWF, World Wildlife Fund, sem gengur út á það að segja að af því að þorskstofnar finnast sem eru í útrýmingarhættu eigi menn ekki að borða fisk. Þetta er stórhættuleg umræða og þess vegna skiptir svo miklu máli að við færum þessa umræðu inn á annað plan.

Það er alveg rétt að hægt er að benda á að botnvörpuveiðar geta vissulega verið hættulegar við tilteknar aðstæður. Sú umræða sem fór fram í síðustu viku miðaðist að því af okkar hálfu og það fékk tiltekinn hljómgrunn í þeirri umræðu að segja sem svo: Jú, auðvitað getur þessi veiðiskapur haft neikvæð áhrif. Þá á að mæta því með viðeigandi hætti á þeim svæðum þar sem það á við. Við höfum verið að gera þetta. Við þekkjum það hér við land að það eru stór svæði sem eru lokuð fyrir botnvörpuveiðum. Á síðasta hausti tóku t.d. sjómenn og útvegsmenn saman höndum um það að banna tiltekin svæði, kórallasvæði, að frumkvæði sjávarútvegsráðuneytisins sem gætu verið viðkvæm.

Ég vek athygli á einu: Ekkert af því, ekkert af þeim skilyrðum um viðkvæm veiðisvæði, viðkvæmt lífríki á við t.d. um botnvörpuveiðar á úthafinu. Það er ekkert slíkt þar til staðar. Þess vegna vakir yfir þessi leynda tilhneiging að reyna að koma á alþjóðlegri veiðistjórn og það eigum við að varast.