133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

Kárahnjúkavirkjun og Hálslón, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra.

[11:05]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa umræðu og þær upplýsingar sem komu fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra. Ég tek þar með undir orð hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hvað það varðar.

En ég skildi hins vegar ekki orð hennar um að hún skildi ekki tilgang umræðunnar. Mér fannst nú að hún hefði ýmislegt um málið að segja og hún notaði stóryrði eins og gjarnan eru í hennar máli. Hún talaði um yfirhylmingar, leyndar upplýsingar, að virkjunin væri of stór, að ríkisstjórnin ætti ekki að vera leyndarráð. Ég held að hv. þingmaður þurfi að skýra þessi orð sín betur.

Ég skil ekki umræðu sem á að fara fram á málefnalegum grundvelli og er með þessum hætti. Hér eru upplýsingar teknar úr samhengi og lesnar upp. Hverju á það að skila hvað varðar tilgang umræðunnar? Enn og aftur eru hugleiðingar Gríms Björnssonar teknar hér fyrir. Það er búið að fara nákvæmlega yfir það hér í þinginu, þá oftar en einu sinni. Sú skýrsla var rædd fyrir nokkrum árum í umræðum í Alþingi. Það er búið að skýra öll þau atriði sem í þeim hugleiðingum koma fram. Hver er tilgangurinn með þessu? Er enn einu sinni verið að ala á illum hug gagnvart þessum framkvæmdum og gagnvart því að verið er að nota orkuauðlindirnar í landinu.

Það vill svo til að ég held að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi samþykkt þessar framkvæmdir með einum eða öðrum hætti. Þannig að mér þótti umræðan, eins og hún birtist af hennar hendi, með ólíkindum. Það eru vissulega margir sem hafa þá skoðun að ekki eigi að nota orkuauðlindir landsins til hagsbóta fyrir samfélagið. Þá eiga menn bara að hafa þá skoðun. En menn eiga að fara með rétt mál þegar verið er að ræða þessa hluti.

Það er ekki ofsögum sagt að virkjun Jöklu við Kárahnjúka hefur verið umdeild og mjög umrædd í þjóðfélaginu. Birtingarmyndir þeirrar umræðu hafa hins vegar verið með hreinum ólíkindum. Ég fagna því sem Austfirðingur að fókusinn er á Austurlandi. Menn hafa áhuga á Austurlandi og tala um Austfirðinga og Austurland og meta landið mikils. Ég er mjög ánægð með það. En ég verð þó að viðurkenna, þrátt fyrir ánægju mína með athyglina, að það hefur farið mjög um mig yfir sleggjudómum sem eru ótrúlegir og hafa birst um austfirskt samfélag og Austfirðinga.

Ég fagna vitundarvakningu þjóðarinnar um náttúruvernd. Ég held að hún sé af hinu góða. En það er von mín að sá áhugi geti birst sem heildstæður áhugi og mönnum takist að sjá skóginn fyrir einstaka merkilegum trjám, sem draga að sér athyglina. Menn verða að sjá þetta í heild.

Við höfum t.d. verið með tillögur um að stofna Vatnajökulsþjóðgarð og ég hef tekið þátt í þeirri vinnu. Gera menn sér almennt ljóst að lónið sem Kárahnjúkastífla myndar, Hálslón, er 57 ferkílómetrar að stærð en landið sem fer undir Vatnajökulsþjóðgarð, og er eingöngu norðan Vatnajökuls, er 10.600 ferkílómetrar á móti 57 ferkílómetrum sem fara undir Hálslónið? Eru menn að tala um samhengi hlutanna þarna? (Gripið fram í.)

Ég er sammála hv. þingmanni um að Geysir tekur ekki stórt pláss en er mjög merkilegur og hefur mjög mikil áhrif á ferðaþjónustu í landinu. Og það mun Vatnajökulsþjóðgarður gera og það mun Hálslón gera, og hafa áhrif á ferðaþjónustuna. Það hafa menn orðið varir við á Austurlandi. Nú þegar er Hálslónið farið að draga að sér ferðamenn sem hlýtur náttúrlega að vera áhugavert fyrir þá sem vilja styðja ferðaþjónustu í landinu og hafa talað um hana sem framtíðaratvinnugrein, sem hún sannarlega er. Því hljótum við að fagna að svo sé komið.

Í þeirri öfgaumræðu sem átt hefur sér stað í umræðum um virkjunarframkvæmdir á Austurlandi hljóta menn að spyrja sig: Voru þeir 10.000 sem gengu niður Laugaveg að óska eftir því að framkvæmdir yrðu stoppaðar þannig að trúverðugleiki Íslands yrði núll í alþjóðaviðskiptum? Voru þeir að óska eftir því? Eru menn svo að tala um útrásarfyrirtækin, að þar eigi að vera hinn mesti vöxtur í íslensku hagkerfi, hjá útrásarfyrirtækjunum? Er eitthvert samhengi í þessu? Þegar prestur stendur vígreifur á Austurvelli í leðurjakkanum sínum og talar til Austfirðinga og talar um heilaga jörð, talar um að örfáar manneskjur hafi ákveðið að drekkja heilu landsvæði og fórna hinu heilaga fyrir græðgina. Við Austfirðingar erum auðvitað ekkert mjög heilagir, svona miðað við jörðina og landsvæðið. En ég hafna því algerlega að við séum gráðugir. Hvert er þessi umræða komin þegar prestar landsins tala með þessum hætti?

Fullyrðingar um vonda hönnun stíflunnar og undirbúningsrannsóknir, sem þó hafa staðið í áratugi, og okkar bestu vísindamenn hafa komið að þessari hönnun og þessum undirbúningi — eru menn svo í hinu orðinu að tala um þekkingarsamfélag og við séum að byggja upp vísindasamfélag á Íslandi? Þegar okkar bestu vísindamenn leggja allt sitt í að hanna þessa stíflu þá eru þeir taldir ótrúverðugir og ekki þess verðugir að hlustað sé á þá.

Nú nýlega, ég held það hafi verið í gær, komu fram fullyrðingar stjórnarmanns í Landsvirkjun um að illa sé staðið að verki við undirbúning viðbragðsáætlana. Til þess verks, og það hefur komið fram í störfum hér á Alþingi, eru fengnir hinir bestu sérfræðingar. Farið er eftir alþjóðlegum stöðlum og alþjóðlegum ferlum við að reikna út hvernig á að byggja þær viðbragðsáætlanir upp. Þessu er öllu hafnað en alið á hræðslu hjá frændum mínum á Jökuldal, sem búa nálægt þessari stíflu. Hver er meiningin hjá þessu fólki? Hvert horfum við í allri þessari dómsdagsumræðu og spádómum? Ég verð að viðurkenna að mér finnst að skáld og listamenn sem ræða þetta megi fljúga hátt og hafa skemmtilegar skoðanir á þessu sem öðrum hlutum. En þegar vísindamenn, fólk sem á að vita betur, jafnvel stjórnarmenn í Landsvirkjun, setja fram fullyrðingar af þessu tagi til þess eins að hræða fólk, þá eru menn á einhverjum villigötum. Það verð ég að segja.

Svipuð umræða átti sér stað þegar Hvalfjarðargöngin voru grafin. Hvað hefur komið fram í því? Öll sú dómsdagsumræða. Hefur hún gengið eftir? Yfir 100 sprungur og misgengi sem hafa komið fram þar. Auðvitað hefði átt að stoppa þá framkvæmd miðað við umræðuna núna um sprungur nálægt Kárahnjúkavirkjun. Það getur ekki annað verið miðað við þessa umræðu.

Hæstv. forseti. Mér finnst að hér sé um það stóra framkvæmd að ræða að menn verði að sýna fulla ábyrgð í þeirri umræðu sem þeir standa fyrir. Ég tala nú ekki um þingmenn og þá sem vilja láta taka mark á sér, að menn dragi upp þá bestu vitneskju sem völ er á til að draga af ályktanir hér í þingsölum. Við getum auðvitað spurt til hvers verið sé að ráðast í svona stóra framkvæmd. Við viljum byggja frekar undir atvinnulíf okkar. Við viljum skjóta fleiri stoðum undir útflutningstekjur okkar. Samkvæmt þjóðhagsspá mun álframleiðsla gefa okkur í útflutningstekjum 132 milljarða árið 2008. Í fyrra voru það 35 milljarðar. Sjávarafurðir gáfu okkur í fyrra 112 milljarða. Árið 2008 munu það verða 145 milljarðar. Þetta hlutfall er að breytast. Við erum að fá fleiri stoðir undir okkar útflutningsgreinar og það er vel.

Ég vil draga það fram líka að atvinnulíf á Austurlandi hefur tekið mikinn vaxtarkipp. Allt samfélagið á Austurlandi hefur tekið vaxtarkipp. Menningarlíf hefur tekið vaxtarkipp. Menntun, ferðaþjónusta, allt það sem leiðir af því þegar svona miklar framkvæmdir fara af stað og flytja aukið líf inn í fjórðunginn. Þetta skiptir okkur öll máli, allt samfélagið. Allt þjóðfélagið hefur hag af þessum framkvæmdum.

Ég ætla að vona að við megum heyra yfirvegaðri og betri umræðu og þá um staðreyndir eins og þær sem komu svo ágætlega fram í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra. Ég ætla að vona að menn byggi á upplýsingum og tölum af því tagi sem hann dró hér fram.