133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

vímuefnavandinn.

[13:54]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir að hefja þessa utandagskrárumræðu um fíkniefnavandann. Það er í sjálfu sér engin nýlunda að það komi í hlut stjórnarandstöðuþingmanna að vekja athygli á mikilvægum málum.

Á ráðstefnu um forvarnir sem forseti Íslands og íþróttahreyfingin hélt í síðasta mánuði kom fram að framleiðsla fíkniefna sé starfrækt hér á landi og að stutt sé í að sú framleiðsla fullnægi þörfinni á Íslandi. Ég velti því fyrir mér, frú forseti, hvort félagsmálaráðherra sé kunnugt um þessar staðreyndir. Gerir ráðherra sér grein fyrir því að fleiri deyja í dag af slysum, vímuefnum og sjálfsvígum en í stóru sjúkdómsfaröldrunum hér áður fyrr? Ég held jafnframt að ágangur fíkniefnasala gagnvart unglingunum okkar sé orðinn það mikill að það þurfi hreinlega að vera með fíkniefnahunda á skólaböllum. Ég ráðlegg hæstv. félagsmálaráðherra að skoða þann möguleika.

Í fjárlagafrumvarpinu sem er leiðandi fyrir ríkisstjórnina um hvað þeir ætla sér að gera á næsta ári, og jafnframt leiðandi fyrir stjórnarflokkana og þar af leiðandi alla stjórnarþingmenn, er því miður hvergi að finna vísbendingar um að ríkisstjórnin ætli sér að veita aukið fé til forvarnamála. Æskulýðsmál fá ekki stóran sess og það sem verra er, frú forseti, það er lækkun á framlögum til æskulýðsmála í frumvarpinu, framlögum til Ungmennafélags Íslands, Bandalags íslenskra skáta, Landssambands KFUM og KFUK, Æskulýðsráðs, Æskulýðsmiðstöðvar og jafnframt til íþróttahreyfingarinnar, Íþróttasambandsins, Íþróttasjóðs o.s.frv. Samkvæmt þessum fjárlögum er stefna ríkisstjórnarinnar að skera niður framlög til forvarnamála. Það dugar ekki að funda og semja stefnu ef hvorki athafnir né fjármagn fylgir, hæstv. ráðherra.