133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

vímuefnavandinn.

[13:58]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir það með öðrum hér að þessi umræða er þörf og þó lengri væri. Það er að sjálfsögðu rétt og skylt að ræða stöðu meðferðarstofnana, ræða úrræði í sambandi við afeitrunar-, meðferðar- og eftirmeðferðarmál vegna þeirra sem eru orðnir háðir fíkniefnum og þá björgun mannslífa sem þar á sér stað. Þar má búa betur að hlutunum og ekki síst flaggskipinu SÁÁ. Fíkniefnaheimurinn er greinilega orðinn harðari, veltan hefur aukist og vopn eru orðin staðreynd þar sem menn eru að passa upp á illa fenginn gróða af ólöglegri starfsemi.

Langvænlegustu aðgerðirnar og þær sem við þurfum í raun og veru að setja miklu meiri kraft í eru þær sem lúta að því að koma í veg fyrir að eftirspurnin myndist, því það verða alltaf einhverjir til þess annars vegar að búa hana til og hins vegar að fullnægja henni. Þá erum við komin að forvörnunum og því hvað verið er að gera til að reyna að hindra það að þessi markaður myndist. Þar held ég að allt samfélagið verði að taka höndum saman, fjölskyldurnar, skólarnir og sveitarfélögin, sem kannski hafa verið fullóvirk í þessu starfi á köflum hingað til, og að sjálfsögðu ríkisstjórn og Alþingi sem fjárveitingavald, og í raun og veru allir ábyrgir aðilar, þar með talið t.d. verslunin sem reynir að brjóta niður bann við áfengisauglýsingum. Það er ekki siðferðilega ábyrg afstaða og ekki mikil þátttaka í almennri baráttu þjóðfélagsins í þessum málum þegar slíkir hlutir eru að gerast.

Ég hef flutt á Alþingi endurtekið tillögu um eflingu þess sem ég kalla félagslegt forvarnastarf. Staðreyndin er sú að fyrir utan aukna samveru fjölskyldu þá er vænlegasta leiðin að ungt fólk hafi aðgang að hollu og uppbyggilegu tómstunda- og afþreyingarstarfi en slíkt starf í landinu er að mestu leyti rekið í sjálfboðavinnu og þar eru menn að kikna undan m.a. erfiðleikum við að ná endum saman í rekstri þannig að með tiltölulega litlum fjármunum mætti örva slíka starfsemi geysilega og það mundi hafa góða hluti í för með sér, frú forseti.