133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

gatnagerðargjald.

219. mál
[14:05]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um gatnagerðargjald. Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga sem ætlað er að leysa af hólmi lög nr. 17/1996, um gatnagerðargjald. Frumvarpið er lagt fram að tillögu nefndar sem þáverandi félagsmálaráðherra skipaði til að endurskoða lög nr. 17/1996, um gatnagerðargjald. Nefndin var skipuð fulltrúum félagsmálaráðuneytisins, umhverfisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga og studdist jafnframt við álit og ráðgjöf frá ýmsum sérfræðingum.

Meginmarkmið frumvarpsins er að skilgreina gatnagerðargjald sem skatt af fasteignum í þéttbýli. Í lögum nr. 17/1996, um gatnagerðargjald, og í lögskýringargögnum með þeim er gengið út frá því að gatnagerðargjald teljist til þjónustugjalda en á sl. ári komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um fjárhæð gatnagerðargjalds lyti í meginatriðum hefðbundnum skattalegum sjónarmiðum. Verði þetta frumvarp að lögum verður allri óvissu eytt um þetta grundvallaratriði.

Með frumvarpinu er jafnframt leitast við að einfalda álagningu gatnagerðargjalds. Lagt er til að eingöngu verði miðað við flatarmál bygginga við útreikning gatnagerðargjaldsins í stað þess að veita sveitarstjórnum val milli flatarmáls lóðar, rúmmáls húss og fermetrafjölda húss eða blöndu af þessum leiðum líkt og gert er í núgildandi lögum.

Gert er ráð fyrir að fjárhæð gatnagerðargjaldsins nemi 15% af byggingarkostnaði fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis sem er sama hlutfall og markar hámark gatnagerðargjaldsins í núgildandi lögum. Breytingin hefur þar af leiðandi engin áhrif á tekjumöguleika sveitarfélaganna.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sveitarfélögin hafi rúmar heimildir til reglusetningar um gatnagerðargjald og er þannig viðhaldið því svigrúmi sem þau hafa í gildandi lögum. Til að auka fyrirsjáanleika og gegnsæi gatnagerðargjalds og auðvelda um leið samanburð milli sveitarfélaga er gert ráð fyrir því að hvert sveitarfélag setji sér sérstaka samþykkt um gatnagerðargjald. Í samþykktinni skal eftir atvikum kveðið á um álagningu gjaldsins, gjalddaga, greiðslufyrirkomulag og annað er varðar innheimtu þess sem og ákvarðanir um beitingu heimilda til að lækka eða fella niður gatnagerðargjald við sérstakar aðstæður svo sem af sambýlum fatlaðra, þjónustuíbúðum fyrir aldraða eða félagslegu leiguhúsnæði.

Að öðru leyti, virðulegur forseti, vísa ég til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins og að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hæstv. félagsmálanefndar og til 2. umr.