133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[14:50]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er flutt mjög merkileg tillaga, hæstv. forseti. Við í stjórnarandstöðunni sameinumst um að takast á við að bæta stöðu eldri borgara og öryrkja til framtíðar hér á landi. Eins og allir í þessum sal og fleiri í þjóðfélaginu vita eru heildargreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins ekki nægilegar til að fólk hafi framfærslu af þeim einum. Þær eru einfaldlega of lágar miðað við þörf einstaklinga til að lifa af. Þó tekst einum og einum eldri borgara og jafnvel einum og einum öryrkja að skrimta af lágmarksbótum, hinum svokölluðu samsettu lágmarksbótum lífeyrisþega. Það er ekki sú framtíð sem við viljum sjá.

Við viljum að fólk, hvort sem það eru lífeyrisþegar eða eldri borgarar, hafi nokkurn veginn þann lífeyri sem þarf til að lifa eðlilegu lífi, til að standa undir venjulegum neysluútgjöldum einstaklings. Þess vegna er grunnhugsunin í þessu máli sú að við viljum láta fara fram sérstaka úttekt á framfærslukostnaði lífeyrisþega þar sem skoðaður sé framfærslukostnaður einstaklinga, fjölskyldna o.s.frv. og reynt að meta hver er hin raunverulega þörf fyrir tekjur ef fólk hefur engar aðrar tekjur en úr tryggingakerfinu til að lifa mannsæmandi lífi.

Hv. þingmenn sem talað hafa á undan mér, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrsti flutningsmaður og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, hafa rakið sumt af þessu máli. Ekki er víst að ég fari í öll þau atriði eða með sama hætti og þau.

Ég tel um mjög markverða tillögu að ræða og að með henni séu stigin mjög merkileg skref. Í fyrsta tölulið tillögunnar leggjum við t.d. til að hin svokallaða skerðing, sem núna er hjá Tryggingastofnun og er 45% á bætur frá Tryggingastofnun, verði lækkuð niður í 35%. Það yrði gert 1. janúar næstkomandi. Við leggjum einnig til að lágmarksbætur verði hækkaðar fyrir þá sem hafa ekkert annað, úr 126 þús. kr. í 133 þús. kr. á mánuði.

Síðan er lagt til ákveðið frítekjumark til að fólk geti aflað sér atvinnutekna án þess að verða fyrir skerðingarreglunum, strax frá fyrstu krónu. Við leggjum til að frítekjumarkið sé 75 þús. kr. á mánuði og það taki gildi 1. janúar næstkomandi.

Hvers vegna skyldu menn leggja þetta til með þessum hætti? Fyrir því eru margar ástæður, hæstv. forseti. Ein er m.a. sú að 25% lífeyrisþega í landinu sem eiga réttindi í lífeyrissjóði og fá þaðan greiðslu um hver mánaðamót fá greiðslu, hæstv. forseti, sem er undir 21 þús. kr. á mánuði. Því miður eru mörg dæmi um að fólk fái örfáa þúsundkalla út úr lífeyrissjóðum sínum.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vakti réttilega athygli á því áðan að fleiri konur eru í þeim hópi en karlar. Fyrir því eru margar ástæður sem fólk þekkir. Konur voru ekki á vinnumarkaði hér áður fyrr, voru heimavinnandi sem kallað var. Þegar þær fóru á vinnumarkað fóru þær kannski að vinna í hálfu starfi og höfðu þar af leiðandi ekki jafnhá laun og útivinnandi karlar. Þar sem lífeyriskerfið okkar er þannig uppbyggt að við söfnum réttindum miðað við það sem við greiðum inn í lífeyrissjóðinn á starfsævi okkar þá hafa konur iðulega aflað sér mun minni lífeyrisréttinda en karlar, af ýmsum ástæðum. Konur sem hafa verið heimavinnandi alla ævina eiga oft og tíðum engan lífeyrisrétt, því miður.

Fjölmargar stéttir eiga lítinn lífeyrisrétt. Við skulum ekki gleyma því að almennt fórum við ekki að greiða í lífeyrissjóði fyrr en um 1970. Réttindin sem við unnum okkur inn á fyrstu árum lífeyrissjóðakerfis hér á landi byggðust ekki einu sinni á því að við greiddum af öllum atvinnutekjum okkar, hæstv. forseti. Í upphafi greiddu menn aðeins af einum þriðja launanna í sjóð, síðan af dagvinnu, þá af yfirvinnu og loks af öllum launum.

Sjómenn greiddu t.d. af hálfri tekjutryggingu. Þeir greiddu ekki af hlut sínum, aflahlutnum sem var þó meginuppistaða kaupsins. Þeir greiddu af hálfri kauptryggingu fyrstu árin og síðan af heilli kauptryggingu háseta. Yfirmenn voru undir sömu reglu þótt skipstjórar hefðu, samkvæmt hlutaskiptareglunni, tvöföld laun á við háseta. Það tók langan tíma fyrir þessar stéttir, verkamenn og verkakonur og sjómenn, að öðlast einhver veruleg réttindi í lífeyrissjóði sem skiptu verulegu máli.

Hvaða möguleika á þetta fólk til að bæta stöðu sína eins og reglurnar eru í dag, miðað við skerðingarreglur Tryggingastofnunar? Það á þann möguleika að geta farið út á vinnumarkaðinn. Hins vegar hefur verið sýnt fram á, hæstv. forseti, að þegar fólk fer út á vinnumarkaðinn, miðað við þá skerðingarreglu sem nú er 45% og skattprósentan eins og hún hefur verið um tæp 30%, þá heldur það sáralitlu eftir af atvinnutekjum sínum sáralitlu, allt niður í 25–27% af atvinnutekjum. Menn geta fengið skerðingu upp á 60–70%.

Þetta er óviðunandi ástand, hæstv. forseti. Við horfum inn í næstu framtíð, til 20 ára, þangað til gullöldin kemur, eins og Ásmundur Stefánsson orðaði það. Gullöld eldri borgara held ég að sé nú lengra inni í framtíðinni því miður. En fram að því er nauðsynlegt að taka á þessu vandamáli. Við getum ekki verið þekktir fyrir það, þingmenn, sjálfir með ágætis lífeyrisréttindi, að lagfæra ekki stöðu eldri borgara og öryrkja í landinu. Það er hreinlega skömm að henni.