133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[15:07]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er verið að ræða tillögu stjórnarandstöðunnar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála. Hv. þingmaður spurði út í nokkur atriði sem ég ætla að reyna að gera grein fyrir í stuttu andsvari. Þar var aðallega tiltekið frítekjumark vegna atvinnutekna og svokallaðir vasapeningar. Varðandi þau atriði og reyndar önnur atriði líka þá vita hv. þingmenn að umfangsmikið nefndarstarf fór fram um málefni aldraðra. Þar var bæði þjónustuþátturinn undir og líka lífeyristekjur eða þær tekjur sem skipta máli varðandi afkomu þessara hópa. Samkomulag náðist. Þessi vinna fór fram undir forustu Ásmundar Stefánssonar og ég verð að segja að ég er mjög ánægð með að það náðist samkomulag við þennan hóp. Það sýndi mér fram á það að Landssamband eldri borgara er hæft í svona samstarf. Mjög gott samstarf átti sér stað í þessari nefnd. Það að ná niðurstöðu sýnir manni að hægt er að ræða við Landssamband eldri borgara og ná niðurstöðu í svona erfiðu máli. Þetta er mjög erfitt mál. Það má nánast líkja þessu við hálfgerða kjarasamninga, mundi ég segja.

Þetta er samkomulag sem stendur til fjögurra ára. Auðvitað er alltaf hægt að breyta því með lögum ef svo skipast veður í lofti. En þetta samkomulag ætlar ríkisstjórnin að standa við. Ég heyri að hv. þingmaður segir að stjórnarandstaðan muni breyta þessu hugsanlega ef hún fær kraft til þess. Það er þá hennar mál. En ég er ánægð með þetta samkomulag. Það eru tólf milljarðar sem komu þarna inn, bæði í þjónustuþætti og auknum lífeyrisgreiðslum, og ríkisstjórnin mun standa (Forseti hringir.) við það upplegg sem var lagt af stað með.