133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[16:27]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé vert að ræða málin af stillingu hér. Hv. þingmaður fullyrti að stjórnarflokkarnir hefðu verið að skerða kjör þessara hópa. Ég sé að hv. þingmaður tekur undir það. Allar opinberar tölur sýna að kaupmáttur allra þjóðfélagshópa hefur aukist frá árinu 1995. Hv. þingmaður getur ekki komið hér upp og sagt að kaupmáttur aldraðra hafi rýrnað frá árinu 1995. Það hefur sannarleg kaupmáttaraukning átt sér stað.

Ég legg áherslu á að við getum alltaf gert betur í þeim efnum og við þurfum að halda áfram að eiga samráð við aldraða hvað það varðar. Við náum engum árangri með því að hafa einhver hróp og köll í þessum málaflokkum. Það þarf að ræða þessi mál með rökum. Við þurfum að segja satt og rétt frá hlutunum en ekki að koma, eins og hv. þingmaður gerði hér áðan, með staðleysur. Það er rangt. Við erum að stíga mjög stór skref í því að bæta kjör aldraðra um 15 þús. kr. eins og hv. þingmaður nefndi áðan. Við erum líka að hækka skattleysismörkin um 12 þús. kr. Auðvitað eigum við að gera betur. Við ætlum líka að verja meiri fjármunum til heimaþjónustu, til uppbyggingar hjúkrunarrýma. Það eru miklir fjármunir sem fara í þetta, 12 milljarðar á næstu fjórum árum.

Ég vil bara benda á, þeim sem hlusta á það, að Samfylkingin er með yfirboð í svo mörgum málaflokkum, eins og t.d. matarskattinum, sem mundi rústa íslenskum landbúnaði, eins og í svo mörgu öðru. Samfylkingin yfirbýður einfaldlega alla flokka í hvaða umræðu sem er, hvort sem það er um umhverfismál, um matarskattinn eða hvað eina. Samfylkingin er einfaldlega ekki flokkur sem talar með ábyrgum hætti. Hún verður að leggja stefnu sína heildstætt fram. Ég lofa því að við framsóknarmenn munum standa vörð um réttindi eldri borgara og bæta kjör þeirra á næstu árum (Forseti hringir.) sama hvað hv. þingmaður segir í þeim efnum.