133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[16:29]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Er það ábyrgt af hálfu stjórnarflokkanna, sem setið hafa í nærri tólf ár, að ætla að lækka útgjöld heimilanna vegna matarkostnaðar tveimur mánuðum fyrir kosningar og ávísa því síðan á næstu ríkisstjórn að sjá um hvernig fjármagna eigi kostnaðinn við þetta? Er það ábyrgt? Þeir hafa haft nærri tólf ár til að lækka matarskattinn en koma svo tveim mánuðum fyrir kosningar og segjast ætla að lækka hann. Hver á að sjá um fjármögnun af því? Ný ríkisstjórn þegar hún tekur við. En við höfum verið að berjast fyrir þessu máli í fimm ár í þinginu að fá matarskattinn lækkaðan.

Ég spyr: Hvað hafa lífeyrisþegar gert af sér til að þurfa að búa við það að fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar 1996 var að slíta á tengsl launa og lífeyris með þeim afleiðingum að þið skuldið lífeyrisþegum (Gripið fram í: Við?) 15–17 þús. kr.? Lífeyrir þeirra væri 15–17 þús. kr. hærri ef þið hefðuð ekki gert það. Af hverju hefur kaupmáttur þeirra vaxið helmingi minna en annarra? Af hverju hafa skattleysismörkin verið skert svo mikið í tíð þessarar ríkisstjórnar að fólk með lágar tekjur, 130 þús. kr. tekjur, er farið að borga verulegan skatt sem það gerði ekki áður? Skattleysismörkin ættu að vera 130 þúsund í dag en ekki 79 þúsund eða 91 þúsund eftir breytinguna sem gerð verður í tengslum við samkomulagið við aðila vinnumarkaðarins. Þetta er nú afrekaskráin sem skilin er eftir, þetta er það sem ríkisstjórnin skilur eftir sig. Ég efa að það hafi nokkurn tíma setið nokkur ríkisstjórn sem hefur farið jafnilla með lífeyrisþega og þessi ríkisstjórn. Ríkisstjórnin hefur vaðið í peningum en samt látið sér sæma að skerða kjör lífeyrisþega, bæði lífeyrisgreiðslurnar og aukið skattbyrði þeirra, en skattbyrði fólks með 130 þús. kr. á mánuði hefur fjórfaldast í hennar tíð.

Þess vegna segi ég það, virðulegi forseti, að það er auðvitað lífeyrisþegum fyrir bestu að þegar verði skipt um (Forseti hringir.) ríkisstjórn og við taki stjórn okkar jafnaðarmanna.