133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

álit Samkeppniseftirlitsins um búvörulögin.

[15:03]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég geri hér að umtalsefni tilmæli Samkeppniseftirlitsins til landbúnaðarráðherra um að landbúnaðurinn skuli lúta samkeppnislögum. Hæstv. landbúnaðarráðherra er hins vegar samur við sig og neitar að þjóna almannahagsmunum í þessum málum. Í viðbrögðum hæstv. ráðherra kom sömuleiðis fram ein undarlegasta hagfræði sem sögur fara af þar sem hann fullyrðir að samráð og samkeppnishindranir leiði til hagkvæmni í atvinnugreininni. Fróðlegt væri að fá álit forsætisráðherra og viðskiptaráðherra á þeirri speki. Síðan ræðst hæstv. landbúnaðarráðherra á viðkomandi eftirlitsstofnun með fáheyrðum hætti og segir hana pólitíska í áliti sínu þegar hún er eingöngu að sinna lögbundnu hlutverki sínu.

Frú forseti. Hér er hreyft mikilvægu grundvallarmáli. Fólk sem vill hasla sér völl í landbúnaði er barið niður af einokunarfyrirtækjum sem starfa í skjóli Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Hin dauða hönd ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins ræður för. Hvergi er að heyra orðræður sjálfstæðismanna um hið frjálsa framtak enda túlkar hæstv. landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson stefnuna fyrir hönd þeirra.

Samfylkingin var eini flokkurinn á þingi sem kaus gegn því að mjólkuriðnaðurinn yrði undanþeginn frá samkeppnislögunum með sérstökum hætti eins og gert var árið 2004. Því boða ég hér með að Samfylkingin mun leggja fram þingmál þar sem gert verður ráð fyrir að landbúnaðurinn lúti samkeppnislögum eins og annar atvinnurekstur.

Það er bændum í hag að hafa fleiri en einn kaupanda að vöru sinni. Innkoma Mjólku á markaðinn sýndi það. Á sama tíma og ég fagna því að löggjafarvaldið sé enn hjá Alþingi langar mig að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra af hverju hann ætli ekki að verða við tilmælum Samkeppniseftirlitsins. Sé hæstv. landbúnaðarráðherra enn þeirrar skoðunar að samráð og samkeppnishindranir tryggi hagkvæmni, telur hann þá ekki að fleiri atvinnugreinar eigi að vera undanþegnar samkeppnislögum?