133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

skerðing lífeyrissjóða á lífeyrisgreiðslum til öryrkja.

[15:42]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Helga Hjörvar, fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp á Alþingi.

Í sumar bárust fréttir af því að hluti lífeyrissjóðanna væri að yfirfara gögn félagsmanna sinna langt aftur í tímann, gera könnun eins og sagt var, sem síðan leiddi í ljós að hluti öryrkja var með hærri tekjur eftir örorku en fyrir. Á sama tíma er uppi sú umræða meðal lífeyrissjóðanna að skuldbinding þeirra vegna örorkugreiðslna sé orðin meiri en gert var ráð fyrir í forsendum og að taka þurfi tillit til þeirra sem nú greiða í sjóðina og þeirra skuldbindinga sem sjóðirnir hafa nú og í framtíðinni.

Frú forseti. Við höfum borið gæfu til þess að koma á lífeyrissjóðakerfi hér á landi og hlutur þeirra í velferðarkerfi okkar er mjög mikilvægur. Lífeyrissjóðirnir eru hluti velferðarkerfisins og þurfa því að axla sína ábyrgð. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að staða þeirra er misjöfn og að þeir hafa lengi viljað að ríkið tæki við lífeyrisgreiðslum til öryrkja. Því hefur verið hafnað af ríkisstjórninni og ég tel að það sé rétt ákvörðun. Staða einstakra lífeyrissjóða er síðan sérstakt mál sem rétt væri að taka upp á Alþingi við tækifæri.

Maður hlýtur að spyrja sig nú hvort lífeyrissjóðirnir séu að lauma greiðslunum yfir til ríkisins bakdyramegin. Ég tel að þeir verði að axla sína ábyrgð. Þessar aðgerðir munu hafa mikil áhrif á þá einstaklinga sem um ræðir svo ekki sé minnst á útgjöld ríkissjóðs. Hér er um að ræða aðgerðir sem hafa áhrif á það fólk sem stendur hvað höllustum fæti í samfélaginu og það með þriggja mánaða fyrirvara. Ekkert efnislegt samráð er haft við stjórnvöld eða þeim tilkynnt um aðgerðirnar þó að vitað sé að aðgerðirnar hafi í för með sér kostnaðarauka. Mér finnst framkvæmdin ekki vera lífeyrissjóðunum til sóma. Það kemur í ljós að margir eiga rétt á leiðréttingu en frestur til að ná fram þeim leiðréttingum er ekki mikill þar sem lífeyrissjóðirnir verða að fara yfir hvert og eitt tilvik.

Virðulegur forseti. Ég hvet lífeyrissjóðina til að fara sér hægt í þessum efnum. Þeir bera mikla ábyrgð með hlutverki sínu í hinu íslenska velferðarkerfi. Framkvæmdin hefur verið gagnrýnd og þeir verða að hlusta á þá gagnrýni. Menn verða að velta fyrir sér hvort verið sé að hrinda af stað ferli sem við vitum (Forseti hringir.) ekki nákvæmlega hvert leiðir okkur.