133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:07]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tel að það sé skynsamlegt og eðlilegt að verða við þeim óskum að þessi tvö mál séu ekki rædd saman. Þetta eru í sjálfu sér alveg aðskilin mál og ég held að málefnum Sinfóníunnar séu enginn sérstakur greiði gerður með því að draga hana inn í umræður um þetta umdeilda útvarpsfrumvarp, hæstv. menntamálaráðherra.

Það sem ég ætlaði að gera hér athugasemdir við, og sé ekki betra tækifæri til þess en að gera það undir liðnum um fundarstjórn forseta, er röð mála í þessari umræðu. Það undrar mig mjög að 7. dagskrármálið, hin almenna löggjöf um málefni fjölmiðla, skuli ekki rædd fyrst. Nú er það virðulegur forseti sem setur upp dagskrá þingsins eða hún er á ábyrgð forseta og ég vil spyrja hæstv. forseta um rökin fyrir því að það skuli ekki farið þannig í hlutina að ræða fyrst almennu löggjöfina og þá Ríkisútvarpið síðan í framhaldinu. Ég vil spyrja hvort það sé að ósk hæstv. ráðherra að þessi undarlega og að mínu mati óeðlilega röð sé höfð á hlutunum. Það hlýtur að vera eðlilegra að ræða fyrst hina almennu löggjöf og snúa sér síðan að sértækari löggjöf um einn af fjölmiðlum landsins, þ.e. Ríkisútvarpinu, þó að sá fjölmiðill sé vissulega mikilvægur og stór.

Ég hlýt líka að nota tækifærið og harma að ekki skuli vera reynt að vinna að þessum málum með öðrum hætti, þ.e. í meiri sátt og meiri samstöðu og ég held að hæstv. ráðherra og meiri hlutinn hér í þinginu gerði rétt í því að hugleiða hvort lykillinn að a.m.k. eitthvað skárra andrúmslofti í kringum þessi mál gæti ekki einmitt verið fólginn í því að snúa röð þessara mála við og láta fyrst á það reyna hvort sæmilegur jarðvegur sé hér fyrir samkomulagi um hina almennu löggjöf og láta frekar málefni Ríkisútvarpsins bíða á meðan. Væru menn búnir að ná því fram, sem væru auðvitað ekki lítil tíðindi, að setja hér nýja og nútímalega almenna rammalöggjöf um fjölmiðla þá hlyti að vera tilraunarinnar virði að reyna að klára dæmið með því að ná sáttum um málefni Ríkisútvarpsins. Ég hef aldrei skilið að það geti verið nokkrum manni keppikefli að standa í illdeilum um jafnmikilvæga stofnun og Ríkisútvarpið er og að menn skuli ekki leggja meira á sig til að reyna að hafa betri vinnufrið um það mál og málefni þeirrar stofnunar. Það er mér mjög torskilið hverju menn ætla að ná fram með hinu laginu, að standa í endalausum illdeilum um þetta, það á ég mjög bágt með að skilja.

Ég óska sem sagt eftir því að forseti upplýsi og þá eftir atvikum rökstyðji hvað veldur því að þessi röð er höfð á hlutunum. Ég veit ekki betur en þeirri ósk hafi verið komið á framfæri úr okkar þingflokki að þetta yrði haft öðruvísi þannig að forseti hefur þá væntanlega ekki séð sér fært að verða við því og hefur einhver rök fyrir þeirri niðurstöðu sinni, trúi ég.