133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:11]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hér er hafin gamalkunnug stjórnmálaumræða um hvernig eigi að raða frumvörpum á dagskrá sem ber keim af því að menn eru á móti þessum frumvörpum og hafa boðað málþóf. Þetta er upphafið að því og við skulum bara taka þessa umræðu sem slíka, m.a. það að menn neita að ræða saman Sinfóníuhljómsveitina og Ríkisútvarpið, sem eru mál sem leiða hvort af öðru. Sinfóníuhljómsveitarfrumvarpið kemur fram sem afleiðing af frumvarpinu um Ríkisútvarpið og það væri fullkomlega eðlilegt að ræða þau mál saman. Við vitum það og það er alveg hægt að segja það beint út að það að menn vilja ekki ræða þessi frumvörp saman er til þess að teygja hér lopann og búa til málþóf. Það er ekki til neins annars og þau rök sem komu fram hjá hv. þingmönnum sem töluðu á undan mér um fundarstjórn forseta eru bein afleiðing af þeirri ósk manna að vilja setja þessi mál í málþóf.

Hæstv. forseti. Það er mín ósk að þessi mál séu rædd saman. Eðlilega er það umræðunnar vegna og málanna vegna að gera það. En eins og kom fram í máli hæstv. forseta er það ekki mögulegt þegar stjórnarandstaðan hefur neitað því að þessu sinni og auðvitað verður orðið við því, en ég held að eins og stjórnarandstaðan hefur boðað verði hér löng umræða og þess vegna sé mjög mikilvægt að hefja þá umræðu þannig að menn komist að með sjónarmið sín í málinu.