133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:19]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég get eiginlega ekki setið á mér að taka þátt í þessari umræðu vegna þess að ég verð að segja það að stjórnarandstaðan kemur manni sífellt meira á óvart fyrir það hversu ófyrirleitin og ósanngjörn hún er í garð okkar sem flytjum þetta mál. (Gripið fram í.)

Við höfum rætt þessi mál, málefni Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar, á tveimur þingum. Búið er að fara með þessi mál í gegnum menntamálanefnd tvisvar ef ekki þrisvar og búið er að velta við hverjum steini í málinu. Enn kemur hún hingað upp og neitar því að þessi mál, sem eru í rauninni fullrædd, séu rædd saman. Það er ekkert efnislegt í því, frú forseti. (Gripið fram í.) Það eru ekki efnislegar ástæður fyrir því að þessi beiðni er komin fram. Það er bara greinilegt að stjórnarandstaðan er enn og aftur að setja sig í stellingar varðandi það hvernig hún ætlar að halda á málinu á þinginu. Svo kalla menn eftir betra andrúmslofti, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Ég segi nú bara: Það var reynt að mynda betra andrúmsloft við stjórnarandstöðuna.

Hvað gerðist á síðasta þingi? Það sem gerðist var að meiri hluti í menntamálanefnd kom til móts við fjögur af meginsjónarmiðum stjórnarandstöðunnar varðandi frumvarpið um Ríkisútvarpið. (MÁ: Fjögur?) Fjögur atriði, hv. þm. Mörður Árnason. (MÁ: Hv. þingmaður …) Í fyrsta lagi lögðum við til að upplýsingalög mundu gilda um Ríkisútvarpið hf. Í öðru lagi lögðum við til að í frumvarpið yrði bætt ákvæði sem mælti fyrir um það að Ríkisútvarpinu væri óheimilt að eiga hlut í öðru fyrirtæki sem gefur út dagblað eða rekur útvarpsstöð. Í þriðja lagi lögðum við til að í lögunum yrði kveðið á um sérstakan þjónustusamning milli Ríkisútvarpsins og menntamálaráðherra. Í fjórða lagi er sérstaklega tekið fram í nefndaráliti meiri hlutans, sem nú liggur fyrir í þessu frumvarpi, að Ríkisútvarpinu sé óheimilt að selja frá sér verðmæti sem hafa menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina og varðveitt eru hjá félaginu.

Maður skyldi hafa ætlað að þessi atriði ættu að leiða til þess að það mundi skapast eitthvað betra andrúmsloft í þessum sal, en það er nú eitthvað annað. Sjaldan launar kálfur ofeldi. Nú eru allir risnir upp á afturfæturna, sömu menn og eru búnir að standa hér og halda mörg hundruð ræður um ekki neitt — það er búið að ræða þessi mál fram og til baka — og hóta öllu illu.

Verði þeim að góðu, verði ykkur að góðu, hv. þingmenn. Ég held að allir séu búnir að fá leiða á þessum sömu ræðum sem þið hafið haldið hérna aftur og aftur og aftur um sömu málin. Allir þeir sem fjalla um þetta mál og hafa af því hagsmuni vilja að þessari vitleysu ljúki. (Forseti hringir.) Nú held ég að við ættum að fara að ræða málið og klára afgreiðslu þessara laga. Það er kominn tími til.