133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:32]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta er í þriðja sinn, eins og hér var áður sagt, sem þetta frumvarp er flutt eða frumvarp svipað þessu. Þegar taldar eru breytingarnar sem hafa orðið á frumvarpinu, samþykktar eða til lagðar, mun þetta vera fimmta gerð frumvarpsins sem hæstv. menntamálaráðherra hefur komið með inn í þingið. Ég hef haldið nokkrar ræður um þessi frumvörp öllsömul fyrir og eftir ýmsar breytingar og ætla ekki að endurtaka þær hér heldur fjalla um nokkur lykilatriði málsins og þessa nýgamla frumvarps.

Rétt er að segja strax að þetta frumvarp er að því leyti eins — þannig að úr þeirri deilu sé skorið sem hér var áðan háð — og í fyrra, eða réttara sagt á síðasta þingi, að teknar hafa verið upp í það þær breytingar sem meiri hluti menntamálanefndar lagði til eftir nefndarstörf á milli 2. og 3. umr. um málið. Eina önnur breyting sem fram í því kemur er sú að nú heitir það ohf. en ekki hf. eins og áður og sem sé ekki sf. eins og það hét fyrst. Þessar breytingar eru mjög mismiklar og af ýmissi rót runnar. Ég skal ekki taka frá meiri hluta menntamálanefndar það afrek hennar frá því í fyrra að taka mark á okkur stjórnarandstæðingum og gagnrýnendum úti í samfélaginu um að setja inn ákvæði um að upplýsingalög gildi um þetta fyrirtæki. Ég fagnaði því þá og ég fagna því enn að það skuli gerast vegna þess að það sýnir að stjórnarliðið er ekki þorrið öllu viti. Það hefur reynt að lappa upp á þetta rekstrarform og þessa stjórnskipun með því þó að taka inn þann gagnrýnispunkt sem var einn af þeim helstu hjá okkur á síðasta þingi og þar áður og það er mikils virði. Það er mikils virði að upplýsingalögin skuli eiga að gilda um þetta fyrirbæri ef það kemst einhvern tíma á fæturna.

Aðrar breytingartillögur komu fram hjá meiri hluta menntamálanefndar á milli 2. og 3. umr. Það er reyndar mjög óvenjulegt að nefnd fundi af því harðfylgi sem raunin varð á milli 2. og 3. umr. Það skýrist af því að fram höfðu komið margvíslegir gallar og miklar ábendingar um að breyta þyrfti frumvarpinu. Meðal annars kviknuðu þær spurningar um stjórnarskrá sem enn eru í fullu gildi og hefur í raun ekki verið svarað og við eigum eftir að fara í gegnum það í menntamálanefndinni og kannski annars staðar í þinginu hvernig því beri að svara. Öfugt við það sem Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, hélt fram hér áðan og öfugt við það sem lá í orðum hæstv. menntamálaráðherra hér áðan voru þetta ekki tillögur frá minni hlutanum þótt auðvitað væru þær sprottnar af gagnrýni minni hlutans á málið. Það er rétt að fara yfir þær.

Breytingarnar þrjár í viðbót auk upplýsingalaganna koma þegar fram í 1. gr. Þar er tiltekið að Ríkisútvarpinu, sem nú heitir ohf., sé óheimilt að eiga hlut í öðru fyrirtæki sem gefur út dagblað eða rekur útvarpsstöð. Hér var ekki um að ræða neina sérstaka ósk stjórnarandstöðunnar og hér var ekki um að ræða uppfinningu meiri hluta menntamálanefndar heldur er þessi klausa orðrétt úr fjölmiðlafrumvarpinu sem menntamálaráðherra lagði fram á síðustu dögum þingsins og vakti þar með fleiru sem varðaði Ríkisútvarpið í því frumvarpi mikla athygli og meiri hluti menntamálanefndar tók hana hér upp í breytingartillögur sínar. Ég skil það vel og fannst það eðlilegt. En ekki er um það að ræða gefist hafi verið upp fyrir einu eða neinu eða menn hafi eitthvað verið að bakka.

Svo er það þriðja breytingin sem á að vera komin frá okkur. Það er rétt að ábending kom frá okkur stjórnarandstæðingum og kannski mér sérstaklega sem varð til þess að meiri hluti menntamálanefndar tók hana upp. Það er í lok 3. gr. frumvarpsins þar sem tiltekið er að menntamálaráðherra og ríkisstjórninni beri að gera sérstakan þjónustusamning. Það er að vísu ekki það orðalag sem við hefðum viljað í þessari grein. En það er rétt að þetta er vegna ábendingar frá okkur vegna þess að um þennan þjónustusamning var ekkert að finna í því frumvarpi sem við ræddum á síðasta þingi, ekki neitt, og það hafðist upp á honum með því að fara í bréfaskipti menntamálaráðuneytisins við Eftirlitsstofnun EFTA, þ.e. ESA. Þar var á einum stað fjallað um þjónustusamning sem augljóst var sem sé að átti að gera. Það er eðlilegra að hafa þetta ákvæði uppi á borðinu og eitt af því sem við þurfum að ræða hér í salnum og í nefndinni er hvernig hátti til um þennan þjónustusamning, hvaða skilyrðum hann sé háður, hver eigi að samþykkja hann og hvað eigi í honum að standa, því að þau drög sem nú eru komin fram um þjónustusamning eru umræðu virði einmitt að þessu leytinu og ætla ég að geyma mér það þangað til síðar í þessari ræðu.

Í fjórða lagi kom svo það ákvæði inn í þessa breytingartillögu meiri hlutans sem nú er síðast í 4. gr. og fjallar um að Ríkisútvarpinu sé þó óheimilt að selja frá sér menningarlegt og sögulegt verðmæti. Það er sprottið af gagnrýni mikilli á síðari stigum umræðu í þinginu um það frumvarp vegna safnefnis, sem við höfðum ekki haft tíma til eða sinnu á að ræða og sýnir auðvitað að frumvarpsflytjandinn, hæstv. menntamálaráðherra, hafði ekki einu sinni hugleitt hvað yrði um þetta safnefni sem er einhver verðmætasta menningareign Ríkisútvarpsins. Það hafði ekki verið hugleitt. Starfsmenn hennar höfðu ekki hið minnsta vit á því hvað við vorum að ræða um þegar það kom fram. Ég man — heiður þeim sem heiður ber — að Atli Gíslason var einna sneggstur í þessari umræðu um safnefnið þó að við vissum nú kannski fleiri af því. Það er til þess að svara þeirri hvössu gagnrýni sem þetta er hér sett inn í 3. gr., til þess að bjarga sér úr sjálfu klúðrinu sem hæstv. menntamálaráðherra og starfsmenn hennar höfðu komið sér í að þessu leytinu.

Fleiri eru þessar breytingar ekki þannig að við skulum fagna þeirri einu sem skiptir einhverju máli hér en láta vera að hæla okkur af þeim öðrum sem til eru komnar úr öðrum textum eða vegna klúðurs sem upp komst í umræðu um frumvarpið.

Reyndar er ein breyting í viðbót. Hún er þannig að meiri hluti menntamálanefndar var búinn að koma fyrir því atriði sem nú er í 13. lið 3. gr., að Ríkisútvarpinu væri skylt að varðveita til frambúðar frumflutt efni o.s.frv. Það var búið að koma því fyrir af einhverjum ástæðum í 13. lið 3. gr., var búið að koma fyrir í 4. gr., þannig að sú starfsemi öll var flokkuð undir aðra starfsemi, þ.e. undir samkeppnisstarfsemi. Það vakti auðvitað hugleiðingar um hvað menn ætluðust fyrir. En þó er ljóst núna, og ég þakka fyrir það, að sú varðveisla átti ekki að vera á samkeppnissviði.

Fyrir utan þetta sem ég taldi núna þá hefur ekkert gerst í sumar. Ekkert hefur gerst frá því í 3. umr. í vor. Ekkert nýtt hefur komið inn í þetta frumvarp frá því þá var nema ohf.-ið. Hæstv. menntamálaráðherra hefur frá því 30. maí og til dagsins í dag, 16. október, hvorki reynt að bjóða til gagnlegrar umræðu um þetta frumvarp né reynt að ná sáttum svo sem hægt væri milli stjórnmálaflokkanna á þinginu um frumvarpið. Það er merkilegt, því að við í stjórnarandstöðunni settum fram í fyrra sérstaka tillögu í bréfi til formanns menntamálanefndar, Sigurðar Kára Kristjánssonar — 24. apríl var það bréf skrifað — tillögu eða boð um að starfa að þessu máli. Við lögðum til verklag sem, með leyfi forseta:

„... gæti leitt til samstöðu milli stjórnmálaflokkanna og sátta í samfélaginu um framtíð Ríkisútvarpsins“.

Tilboðið var svona, með leyfi forseta:

„1. Frumvarpið verði ekki afgreitt á þessu þingi“ — þ.e. síðasta — „en strax að því loknu sett niður nefnd með fulltrúum allra flokka með það að markmiði að ljúka lagasetningu fyrir áramót.“ — Þau sem næst eru.

„2. Í störfum sínum kanni nefndin sérstaklega að Ríkisútvarpið verði gert að sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri. Í frumvarpinu verði þess gætt að halda sem allra flestum kostum hlutafélagsformsins fyrir Ríkisútvarpið sem almannaútvarp en sniðnir af helstu ókostir þess.“

Þetta boð gekk sem sé út á að menn settust niður í alvöru við þetta tiltekna verkefni og athuguðu heiðarlega og í einlægni hvort hægt væri að ná málamiðlun um sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri miðað við þær forsendur sem stjórnarliðar sjálfir hafa lýst að liggi að baki þessum tillögum þeirra um hlutafélagsform. Við höfum efast um það en við lýstum okkur þarna tilbúin til að ganga á þann lista, til þess að fá þennan lista fyrir framan okkur og ganga á hann og athuga hvað væri merkilegt við hlutafélagsformið, hvað hlutafélagsformið gæti gefið Ríkisútvarpinu, hvað Ríkisútvarpið gæti grætt á hlutafélagsforminu og hvort þar væri eitthvað þar sem í raun þyrfti hlutafélagsformið til og ekki væri hægt annaðhvort að bæta við núverandi lagaramma, sem vissulega þarfnast endurskoðunar og hefur lengi gert, eða hægt að koma fyrir í sjálfseignarstofnun sem — af því að það var nú sagt hér áðan — er sama fyrirkomulag og ríkisútvarpið í Svíþjóð hefur. Hæstv. menntamálaráðherra hélt hér áðan fram að það væri í hlutafélagsformi. Það er ekki rétt. Hæstv. ráðherra og aðrir þeir sem á mig hlýða geta sannfærst um það með því að lesa örlítinn pistil um sænska ríkisútvarpið í greinargerð menntamálaráðherra með frumvarpi sínu. Þar segir að útvarpið sé að vísu rekið í þremur hlutafélögum en yfirstjórn þess og yfirapparatið sé sem sagt sjálfseignarstofnun, sem síðan velur sér eitthvert rekstrarform til þess að reka einstaka hluta í útvarpinu.

Það er nú rétt að fara varlega, forseti, sérstaklega ef maður er menntamálaráðherra og er að tala um það sem maður á að hafa vit á. Við sögðum í þeirri tillögu okkar að nefndin ætti að ræða margvíslegar ábendingar um úrbætur á fyrirliggjandi frumvarpi, þar á meðal um 3. gr. frumvarpsins, um hlutverk og skyldur, ræða það hvort þessi skilgreining væri ekki of víð í heildina og hvort hún næði nógu langt sem leiðbeining um dagskrá almannaútvarps, m.a. í ljósi Evrópuréttar og í ljósi tilmæla Evrópuráðsins.

Það sem hefur gerst í þessu er, eins og ég sagði áðan, ekki neitt. Í þeim þjónustusamningi sem átti að fylla út í reglur í 2. gr. er ekki skýrt hlutverk Ríkisútvarpsins ohf. sem almannaútvarps umfram þau atriði vissulega sem menntamálaráðherra hæstvirtur og útvarpsstjórinn — ég er ekki lögskyldur til að nota lýsingarorð um útvarpsstjórann í þessum ræðustól — umfram það sem þau hrósuðu sér af um innlenda dagskrá á kjörtíma og aukin kaup efnis af sjálfstæðum framleiðendum.

Við töluðum líka um það í þessu bréfi okkar að við ættum að fara í gegnum stjórnarhættina samkvæmt III. kafla. Þar ættum við sérstaklega að ræða fyrirkomulag annars vegar um stjórnina og hins vegar um einhvers konar eftirlitsráð eða akademíu, þannig að ekki myndaðist sjálfkrafa ríkisstjórnarmeirihluti í þeirri stjórn eins og er í frumvarpi menntamálaráðherrans.

Sjálfstæði, kallaði menntamálaráðherra hér úr stólnum í andsvörum sínum áðan yfir salinn. Sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Það er vegna þess að það er orðið hlutafélag. Þá er það orðið sjálfstætt. Hvert er það sjálfstæði? Í staðinn fyrir útvarpsráð núna, þar sem sitja fjórir þingkjörnir meirihlutamenn og þrír þingkjörnir minnihlutamenn, kemur útvarpsstjórn þar sem sitja þrír þingkjörnir meirihlutamenn og tveir þingkjörnir minnihlutamenn. Það hefur að vísu annað hlutverk. En við vitum hvert er aðalhlutverk þeirrar stjórnar. Það er meira. Það er auknara en útvarpsráðs því það er að ráða útvarpsstjórann sjálfan og reka hann þegar ráðinu hentar. Sjálfstæðið felst í því hjá hæstv. menntamálaráðherra, að búa til apparat sem er að vísu aðeins öðruvísi en útvarpsráð er nú, sem hefur reyndar liðast í sundur, skilst mér, að mestu. Þar á að sitja meiri hluti sem er ekki bara kosinn á fjögurra ára fresti, sem gefur mönnum nú visst sjálfstæði gagnvart þeim sem þá kusu, sem ég held að sé hollt í slíkum störfum almennt, heldur á að kjósa þennan meiri hluta núna á eins árs fresti þannig að það sé nú alveg klárt að menn geri ekkert af sér á meðan í útvarpsstjórninni, í nýja útvarpsráðinu.

Við ræddum líka um það í bréfi okkar að við þyrftum að fara betur í gegnum almenna starfsemi, samkvæmt 4. gr. frumvarpsins, þ.e. samkeppnisreksturinn og skilgreina hana betur, átta okkur á til hvers þau ákvæði ná og hvað er líklegt að komi þar inn í. Sérstaklega töluðum við um að menn þyrftu að gera sér grein fyrir því hvort hér væri átt við að Ríkisútvarpið ætlaði sér í beina samkeppni við aðrar útvarpsstöðvar eða sjónvarpsstöðvar með því að reka á sínum vegum samkeppnisstöðvar útvarps eða sjónvarps. Því fulltrúar hæstv. menntamálaráðherra í nefndinni í fyrra voru ekki á einu máli um þetta, frá einum manni til annars. Ég skil það enn þá svo að í 4. gr. sé m.a. átt við að Ríkisútvarpið geti stofnað einhvers konar Sirkus-stöðvar eða einhverjar undirstöðvar sem séu reknar á samkeppnisgrunni og séu í beinni samkeppni við svipaðar stöðvar einkarekinna fyrirtækja um áhorf, auglýsingar og kostun. Það má auðvitað ræða. Það eru sjálfsagt ekki allir sammála um hvort svo eigi að vera eða ekki. En hins vegar er eðlilegt að um það séu gefin mjög skýr svör. Við sögðum líka að við þyrftum að fara í gegnum réttindi starfsmanna, bæði þau sem að lögum færu og þau sem um skyldi semja. Það er jafnmikil þörf á því núna og var þá því sá kafli hefur ekkert breyst og sú gagnrýni stendur óhögguð sem borin var fram á þann kafla á síðasta þingi.

Í e-lið var síðan fjallað um stöðu safnefnisins. Það er vissulega ástæða til að fara enn yfir þá stöðu þótt hið nýja ákvæði kunni að vernda það dýrmætasta sem nú býr í söfnum Ríkisútvarpsins. Meðal annars þarf að fara yfir þessa stöðu vegna þess að það er alls ekki sjálfsagt að það sem nú er í hirslum og vörslu Ríkisútvarpsins flytjist yfir í einhvers konar safnadeild hins nýja hlutafélags. Það er ekki sjálfsagt vegna þess að hlutafélagið hefur alls ekki aflað sér slíkrar safneignar og hún er í raun ekki í eigu Ríkisútvarpsins sem stofnunar nú, heldur er hún í eigu margra, eins og menn kannast við í kringum höfundarrétt á slíku efni. Þar að auki má deila um — ég geri ráð fyrir að þær athugasemdir komi fram núna í haust sem ekki gerðu síðast því þá voru menn ekki vakandi gagnvart þessu safnefni, — hvort safnefni Ríkisútvarpsins sem ríkisstofnunar eigi að ganga allt yfir í nýtt hlutafélag, hreinlega vegna þess að aðrar útvarpsstöðvar sem nú eru til og þær sem í framtíðinni kynnu að verða til, gætu álitið að þær hefðu jafnmikinn rétt til að sækja í þann sjóð og Ríkisútvarpið. Ég skal ekki segja um það en þetta hefur í rauninni aldrei verið rætt nema rétt tæpt á því í umræðum á miklum hraða í menntamálanefnd í vor.

Í f-lið bréfsins töluðum við um fjármögnunarleiðir, að við þyrftum að fara yfir það, forseti, hvaða fjármögnunarleiðir kæmu til greina aðrar en sú sem nú er uppi í þeirri stofnun sem enn er til og í hinu nýja hlutafélagi samkvæmt frumvarpinu, nefnilega nefskatturinn. Við höfum rakið í þingsályktunartillögu sem við fluttum á næstsíðasta þingi, við samfylkingarmenn, hvaða leiðir koma til greina. Það er alls ekki, svo ég segi það vægilega, augljóst að nefskatturinn eigi að taka við af afnotagjaldinu, að það sé heppilegasti kosturinn. Ég hef litið svo á að við ættum að íhuga blandaða leið í þessu efni. En fyrst og fremst leið sem tryggði Ríkisútvarpinu öruggar tekjur sem ekki sveifluðust mjög og tekjur sem hefðu sem minnst áhrif á valkosti í dagskrá. Ég get farið yfir þetta betur en ég held að aðrir verði til þess á eftir í þessari umræðu og ég geymi mér það þess vegna.

Þá ræddum við um að tala þyrfti um eiginfjárstöðu hins nýja fyrirtækis og æskilega upphæð stofnfjár. Þetta vandamál var til umræðu í andsvörum áðan. Það er því miður skemmst frá því að segja að hæstv. menntamálaráðherra æstist upp við spurningar um þetta. Við spurningar um einhvers konar fyrirheit sem gefin voru síðast í menntamálanefnd um að fjármálaráðherra ætlaði að koma inn með nýtt hlutafé til að hreinsa með einhverjum hætti skuldir Ríkisútvarpsins við ríkið. Það kemur hins vegar ekki fram í frumvarpinu og við höfum ekkert fyrir okkur í því nema fullyrðingu menntamálaráðherrans hæstv. sem ekki er studd neins konar yfirlýsingu frá fjármálaráðherra, að minnsta kosti ekki enn þá, og ekki á sér neina stoð í frumvarpinu. Þó hefur liðið heilt sumar frá 30. maí til 16. október til að gera grein fyrir því. Það er auðvitað skrýtið eftir þetta allt saman, sérstaklega fyrir þá sem sátu í menntamálanefnd og tóku á móti þeim gestum sem þangað komu, að sjá að þegar greinargerðin er skrifuð þá er vonast til, með leyfi forseta, „að tillaga að stofnefnahagsreikningi verði lögð fram á næstunni.“

Hvaða næstu? Hvaða næsta er það sem þarna liggur undir? Það er undarlegt að geta ekki verið búinn að því, því þetta starf átti að vera komið af stað í vor og voru nefndir til þess sérstakir heiðursmenn, valinkunnir heiðursmenn, sem áttu að klára þetta innan skamms. Þá var það líka á næstunni. Þessi næsta framlengist í frumvarpinu.

Það er beinlínis sagt, forseti, að Ríkisútvarpið eigi að endurgreiða ríkissjóði þessar 900 millj. kr. sem það skuldaði í árslok 2005. Starfsmenn fjármálaráðherra á fjárlagaskrifstofu segja, hvað sem líður yfirlýsingu hæstv. menntamálaráðherra, með leyfi forseta:

„Gera verður ráð fyrir að hlutafélagið verði krafið um vexti af skuldinni og ef miðað yrði við 9% vexti mundi það greiða ríkissjóði um 80 millj. kr. í tekjur á ári næstu árin.“

Þeir gera því ekki aðeins ráð fyrir að skuldin sé greidd til baka heldur á að vaxtareikna hana eins og auðvitað er eðlilegt að gera í sjálfu sér. En hér hefur þeim sem sé ekki verið sagt frá því, sem menntamálaráðherra upplýsti okkur um áðan og við vissum frá því í vor, að menn töluðu um 10–12% eigið fé í stofnunina, töldu það vera nóg sem aðrir töldu nú ekki. Það hefur því einhvern veginn gleymst að setja þetta inn í frumvarpið.

Að lokum töluðum við um að við þyrftum að ræða, í þeirri nefnd sem við vorum reiðubúin að setjast í til þess að starfa í sumar, um heimild til að selja eignir úr fyrirtækinu vegna þess að það var ekki fullljóst við lok 2. umr. með hvaða hætti Ríkisútvarpið sem hlutafélag hefði rétt til að selja eignir sínar og hvaða eignir væru þá undanteknar í því dæmi. Auðvitað hafa menn verið að spjalla um það sín á milli hvort eigi að leysa þessa bágu fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins í hinu nýja fyrirtæki til að koma í veg fyrir að það verði gjaldþrota á fyrsta degi, með því að selja allt húsið eða hluta af húsinu. Fyrir það fengjust nokkrar milljónir sem síðan mætti nota til að borga t.d. ríkinu aftur þessa miklu skuld vegna Sinfóníunnar.

Þetta er í rauninni allt í gildi, öll þau atriði frá a til h sem við lögðum til að rædd yrðu í sumar í þessari sérstöku nefnd. Formaður menntamálanefndar og stjórnarmeirihlutinn allur höfnuðu hins vegar þessu tilboði í fyrravor og menntamálaráðherra hefur ekki notað tímann síðan 30. maí til að íhuga þetta mál með því að hafa samband við stjórnarandstöðuna og ræða við stjórnarandstæðinga og auðvitað alla þá fjölmörgu áhugamenn og hagsmunaaðila sem er að finna utan þessa salar, um raunverulegar sættir og um raunverulega rannsókn á þeim atriðum sem við töldum upp í vor.

Þessi metnaður menntamálaráðherra, svo við notum jákvæð orð um skringilega hluti, þessi einbeitti vilji ráðherrans og Sjálfstæðisflokksins skilar okkur að lokum í sömu stöðu 16. október og við stóðum í hinn 30. maí, sama frumvarpi og í vor með örlitlum leiðréttingum og það er sama málefnalega staðan. Þetta frumvarpsmál er sem sé á þriðja ári núna og það er komin óþreyja í samfélagið og óþreyja er í Ríkisútvarpinu og í kringum það út af þessu máli. Fólk skilur ekki þetta rugl. Af hverju má ekki bara breyta því sem þarf að breyta og tiltaka þá hvað það er sem þarf að breyta? Af hverju þurfa stjórnmálaflokkarnir á Íslandi alltaf að vera að rífast um Ríkisútvarpið á sama tíma og almannaútvarp í öllum nágrannalöndum okkar styðst við samkomulag allra helstu stjórnmálaflokka, það er ekki algjört, allir helstu stjórnmálaflokkar hafa náð samkomulagi í þeim löndum um hvernig á að hafa ríkisútvarp? Það er í krafti þessa samkomulags sem speglar líka vilja þjóðanna til að hafa gott almannaútvarp sem ríkið á með einhverjum hætti eða styður við. Það er það sem samkomulag þessara flokka endurspeglar. Það tryggir auðvitað að ekki er um að ræða það vantraust sem hér ríkir gagnvart áformum t.d. um hlutafélag. Það er rétt að sum af almannaútvörpum í öðrum löndum, þótt þau séu miklu færri en hæstv. menntamálaráðherra telur upp, eru í einhvers konar hlutafélagsformi.

Það er t.d. í Noregi. En þar er sagan allt önnur. Þar eru í fyrsta lagi engar auglýsingar og hafa aldrei verið í NRK. Það er ekki að keppa með sama hætti og er hér á þessum markaði okkar. Það dettur engum í hug að nokkur ríkisstjórn, hversu slæm sem hún er, mundi misnota sér ríkisútvarpið NRK, eina af hjartfólgnustu eignum norsku þjóðarinnar, að þar sé um að ræða pólitískan undirróður, að þar séu menn með einhverjar hugmyndir um að leggja það niður eða minnka hlut þess. Þar eru allir sáttir við það, líka hægri menn — líka held ég Arbeidernes kommunistiske parti, Marxist-leninisterne, ef ég man það nafn rétt á svolitlum vinstri flokki, mjög vinstri sinnuðum, sem þar komst held ég einu sinni eða tvisvar á þing — að Noregur eigi að hafa almannaútvarp fyrir Norðmenn og það eigi að starfa samkvæmt tilteknum reglum sem flokkarnir koma sér saman um.

Nú eru menn farnir að segja að ástandið á útvarpinu sé orðið þannig að það megi ekkert gera, það megi ekkert hreyfa sig. Og þegar beðið er um skýringar inn á við, af hverju gerist ekkert, af hverju eru engar breytingar, af hverju er ekki reynt að skipuleggja hlutina eins og tíminn gerir ráð fyrir, og út á við, af hverju má ekki gera viðskiptasamninga um kaup á myndum eða útvarpsefni eða öðru því um líku? þá er alltaf svarað: Frumvarpið er ekki komið, við vitum ekki hvað verður. Auðvitað eru menn orðnir þreyttir á þessu þar, bæði innan útvarpsins og utan þess. Menn eru orðnir svo þreyttir á því að þessi mikli vilji SÍK sem hæstv. menntamálaráðherra nefnir komi ekki fram eins og maður skyldi ætla í ítarlegri áætlun byggðri á stórri og langri greinargerð um það hvers vegna Ríkisútvarpið eigi að vera í hlutafélagsformi, heldur í lok mikillar spurningahríðar sem stjórnin samþykkti vegna þjónustusamningsins sem hæstv. menntamálaráðherra gerði og þegar þær spurningar eru allar búnar kemur þessi setning, eftir minni: „Þá hvetur stjórn SÍK, Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, til þess að lög um breytingu á rekstrarformi Ríkisútvarpsins séu afgreidd hið allra fyrsta.“

Hæstv. menntamálaráðherra hefur tekist sitt pólitíska spil að því leytinu að víða eru menn orðnir svo þreyttir að þeir vilja bara einhverja breytingu, bara eitthvað, bara að eitthvað gerist, og er í raun og veru orðið sama hvað það er, bara að losna úr þessari pattstöðu, úr því hreyfingarleysi sem menntamálaráðherra og hinn nýi útvarpsstjóri hafa gert að gunnfána sínum, bara að eitthvað gerist, alveg sama hvað. Þetta er því miður ekki viðunandi og það sjá menn auðvitað ef þeir hugsa út fyrir þetta eðlilega andvarp. Við getum ekki sætt okkur við að það gerist bara eitthvað þegar um er að ræða Ríkisútvarpið sjálft. En ábyrgðin á þessari stöðu er ljós. Hæstv. menntamálaráðherra og félagar hennar halda ræður um málþóf á þinginu og skamma einstaka hv. þingmenn fyrir að vera lengi í ræðustól en ábyrgðin á þessu öllu er á einum stað. Hún er á herðum forustumannsins, hæstv. menntamálaráðherra, sem valdist til þess að hafa forustu í menningarmálum og þar með forustu í málefnum Ríkisútvarpsins.

Menntamálaráðherra hefur ekki haft auðnu til að ná samstöðu vítt um stjórnmálasviðið um þetta mál sem snertir alla Íslendinga og snertir sjálfan kjarnann í því samfélagi sem við búum í á Íslandi og höfum gert í nærfellt átta áratugi. Hæstv. menntamálaráðherra skellti frumvarpi inn í þingið án þess að íhuga hvernig við því yrði tekið og er síðan föst með þetta frumvarp með miklum og skaðlegum afleiðingum fyrir Ríkisútvarpið og miklum og skaðlegum afleiðingum fyrir íslenska menningu líka, vegna þess að Ríkisútvarpið er eitt kjarnaatriðið í íslenskri menningu.

Út á það, forseti, ganga þessi orð í ályktun SÍK. Í raun og veru ætti hæstv. menntamálaráðherra að útskýra fyrir okkur af hverju menn andvarpa þessu út úr sér á þennan hátt frekar en að hrósa sér af því að hún sé að afla stuðnings við málið.

Það hefur tvennt staðið í veginum frá upphafi í þessu máli milli menntamálaráðherra og stjórnarandstæðinga. Það er margt sem við út af fyrir sig gætum komist að samkomulagi um, gætum teygt okkur, ef menn vildu, í áttina og náð einhvers konar samstöðu um. En tvennt hefur auðvitað staðið í veginum og það er það sem kemur í veg fyrir að sáttir náist á þinginu um málið. Annars vegar er það rekstrarformsbreytingin og stjórnskipanin sem við það er miðuð, hlutafélagsvitleysan, og hins vegar er það spurningin um sjálfstæði Ríkisútvarpsins og hlutverk þess sem almannaútvarps í þágu þjóðarinnar.

Rekstrarformsbreytingarnar og stjórnskipanin sem af þeim leiðir. Við spurðum í hittiðfyrra, spurðum á síðasta þingi, spyrjum enn í andsvörum í dag og eigum eftir að spyrja í þessari umræðu og í umræðunum sem eftir koma: Af hverju hlutafélag? Af hverju þessar breytingar á rekstrarformi? Hvar eru rökin fyrir hlutafélagsforminu? Svarið er aldrei neitt. Það koma óljós svör um að hlutafélagslögin séu svo ágæt og síðan þekki menn þetta form svo vel. Já, en hvað græðir RÚV á hlutafélaginu? Það er hagræði og skilvirkni og það er svigrúm, eins og hæstv. menntamálaráðherra sagði áðan. Það er svo mikið svigrúm sem fylgir þessu, en hvar eru þau ákvæði um hlutafélög sem vísa okkur á þetta hagræði, þessa skilvirkni og þetta svigrúm? Hvað er það í núverandi lögum um Ríkisútvarpið, fyrir utan það að menntamálaráðherra eigi að ráða þrjá framkvæmdastjóra, sem ég get alveg skilið að menn vilji koma í burtu og kannski eitthvert smáræði annað, en hvað kemur í veg fyrir að þessi hagræðing og skilvirkni og svigrúm fáist núna vegna þess að hin almennu rök um hlutafélög eiga ekki við? Það hefur jafnvel hæstv. menntamálaráðherra skilið með þeim breytingum sem gerst hafa á frumvarpinu frá því það fyrst kom fram og auðvitað með þeim takmörkunum sem voru á hlutafélaginu eða sameignarfélaginu eins og það hét nú fyrst þvert á alla skynsemi. Því hefur aldrei verið svarað og hefur aldrei verið skýrt. Hlutafélag getur auðvitað verið hið besta mál eins og allir vita. Það er gott fyrir fyrirtæki sem starfar á samkeppnismarkaði. Það gerir ráð fyrir tiltekinni stjórnskipan og það gerir ráð fyrir að menn hafi ákveðnar leiðir út úr vanda sem skapast eða til að nýta tækifæri sem upp koma. En hvernig er þetta hlutafélag, forseti? Hvernig er það í laginu? Jú, það er þannig: Hlutafélagið Ríkisútvarpið ohf. hefur einn hluthafa. Það er einn maður, menntamálaráðherra, sem hefur allt hlutaféð, fer með það allt. Það er ekkert hluthafalýðræði, það er ekkert aðhald, sem menn tala um í viðskiptalífinu, frá almennu hluthöfunum, litlu hluthöfunum eða frá minni hluta hluthafa sem er þá í hálfgerðri stjórnarandstöðu við meiri hlutann. Það er ekkert slíkt, það er einn hluthafi. Þetta hlutafélag nýtur væntanlega ekki þess hagræðis sem venjuleg hlutafélög á markaði njóta, því að það getur ekki aukið hlutafé sitt sjálft með hlutafjárútboði, það getur ekki sameinast öðru hlutafélagi, og þó það nú væri með Ríkisútvarpið. Það getur ekki stofnað hlutafélag með öðrum um rekstur á sínu sviði, það er nýjasta breytingin. Ég fagna henni út af fyrir sig vegna þess að ég sé enga ástæðu til þess að ríkið sé í einhverju slagtogi við einkaaðila um rekstur útvarps og sjónvarps. En það skerðir auðvitað möguleika þess sem hlutafélags. Rökin fyrir því að það eigi að vera hlutafélag rýrna alltaf. Væntanlegt hlutafélag býr líka við upplýsingaskyldu sem við fögnum vissulega en það er óþægilegt fyrir venjulegt hlutafélag að búa við upplýsingaskyldur. Það er því ekkert orðið eftir af hinum almennu hlutafélagsrökum og önnur koma ekki fram.

Niðurstaða mín er sú að það sem RÚV á að græða á hlutafélagsforminu sé tvennt. Það sé annars vegar, og ég bið um að það sé leiðrétt ef ég fer ekki með rétt mál, það hagræði og sú skilvirkni sem menn ímynda sér að hlutafélagið hafi af því að eiga við starfsfólk sitt umfram það sem nú er, að menn álíti að núverandi starfsfólk Ríkisútvarpsins njóti of mikillar verndar í starfi, að það sé erfitt að reka menn á Ríkisútvarpinu. Ef það er málið finnst mér að hæstv. menntamálaráðherra og útvarpsstjóri eigi að segja það, eigi að ræða það hreinskilnislega. Það getur nefnilega vel verið að eitthvað í fyrirkomulagi og starfskjörum sé þannig að það hefti Ríkisútvarpið í núverandi stöðu. Þá skulum við bara ræða það og athuga hvernig hægt er að koma þeim breytingum á sem hjálpa ríkisstjórninni til að losna við slíkt með fullri virðingu þó fyrir starfsmönnum og þeim kjörum sem þeir njóta.

Ég held að hin ástæðan sé sú að með því að vitna sífellt í hlutafélagalög og skipulag hlutafélags þá er hægt að koma fyrir þessari vitleysislegu stjórnskipan sem ætlað er að framlengja ósjálfstæði Ríkisútvarpsins, sem er ætlað er að koma í veg fyrir að Ríkisútvarpið verði það sjálfstæða og öfluga almannaútvarp sem við samfylkingarmenn höfum talað um að slík stofnun ætti að vera. Að það fyrirkomulag sem varið er með hlutafélagaskipaninni, að það sé ríkisstjórnarmeirihluti á þinginu sem ræður og rekur útvarpsstjóra sem síðan gerir einn samkomulag við menntamálaráðherra um kjarnann í starfsemi Ríkisútvarpsins og menntamálaráðherra getur síðan tekið upp í því af hverju hann framkvæmi ekki þetta og framkvæmi ekki hitt, sé hin ástæðan fyrir því að menn vilji hafa þetta sem hlutafélag.

Forseti. Ég hef talað hér í 39 mínútur og nokkrar sekúndur að auki og ég harma það að margt er órætt enn, ég á að vísu aðra ræðu síðar eftir þingsköpum. Ég hef ekkert minnst á eitt mikilvægt atriði í þessu máli og það er Framsóknarflokkurinn. Ég biðst afsökunar á því, forseti, að hafa ekkert minnst á hann, af því að hans hlutur er ekki síðri en hins flokksins sem ég hef einkum beint orðum mínum að. Framsóknarflokkurinn, hinn gamli félagshyggjuflokkur, varðstöðuflokkurinn um þjóðleg gildi með hinn nýja þjóðhyggjumann af einhverju tagi sem formann, hann stendur hér og er attaníoss Sjálfstæðisflokksins og hæstv. menntamálaráðherra í því að koma Ríkisútvarpinu, einhverri dýrmætustu sameign okkar, í þann öldusjó sem bíður ef þetta frumvarp verður samþykkt.