133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:15]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sporin hræða ekki. Ég fór yfir muninn á þessum tveimur frumvörpum áðan þannig að það var ekki ástæðan fyrir því að þessi setning var sett hér inn. Hins vegar er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að okkur framsóknarmönnum þykir mjög mikilvægt að hafa þessa setningu í frumvarpinu. Við erum þannig gerð að við treystum fólki. Hv. þingmaður kom inn á það áðan að enda þótt hún treysti núverandi hæstv. menntamálaráðherra viti hún ekki hvort sá ráðherra verði í ríkisstjórn á næstunni. Ég held að hv. þingmaður sé þá með því að segja að þeir sem nú skipa stjórnarandstöðuna, þeir hafa háleit markmið um að komast í ríkisstjórn, hafi þá jafnvel hug á að selja Ríkisútvarpið, en það kæmi mér alla vega mjög á óvart miðað við þann málflutning sem hér hefur verið viðhafður.

Ég ítreka að það stendur ekki til að selja Ríkisútvarpið, það er enginn meiri hluti fyrir slíku. Þrír hv. þingmenn hafa lagt fram frumvarp þess efnis. Einn þeirra hv. þingmanna hefur sagt hér að ekki standi til að selja Ríkisútvarpið, það andrúmsloft hafi breyst. Ég er alveg sannfærð um að það er staða sem við munum horfa á til framtíðar og ekki síst í ljósi þeirrar samkeppni og aðstæðna sem nú ríkja á markaði. Ég ítreka að við framsóknarmenn treystum fólki fyllilega og við treystum þingmönnum framtíðarinnar til þess að hafa sölu Ríkisútvarpsins ekki á dagskrá.