133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:19]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Enn á ný ræðum við frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, nú að vísu í fyrsta sinn ohf. áður hafa aðrar skammstafanir verið aftan við nafnið. Þrátt fyrir að við séum að ræða þetta frumvarp í þriðja sinn, auðvitað hafa orðið breytingar á því í hvert sinn sem það hefur komið hér, þá er samt margt líkt með þessu frumvarpi og þeim sem áður hafa verið flutt. Slíkt hið sama má að sumu leyti segja um þá umræðu sem hér hefur farið fram, t.d. voru síðustu andsvörin til þess að rifja upp ýmislegt sem við höfum áður heyrt í umræðunni. Og ég verð að segja, frú forseti, að það vakti sérstaka athygli mína að hv. þm. Dagný Jónsdóttir var enn að því er mér virtist með sömu trú á setningunni miklu í 1. gr., setningunni sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess er óheimil.“

Ég man ekki betur en hv. þingmaður hafi setið með okkur í menntamálanefnd síðastliðinn vetur þegar við fórum yfir þetta frumvarp. Þá komu ýmsir í heimsókn til nefndarinnar og þessi setning var rædd við nokkra virðulega gesti nefndarinnar. Ég man ekki betur en það hafi verið samdóma álit allra sem tjáðu sig um þessa setningu að hún skipti akkúrat engu máli, væri í raun merkingarlaus sem slík. En enn á ný vekur hv. þingmaður athygli okkar annarra hv. þingmanna á því að þessi setning er ætluð Framsóknarflokknum einum og sér. Það er enginn annar sem leggur neina merkingu í þessa setningu en hún virðist hafa dugað til að róa einhverja framsóknarmenn til þess að gerast stuðningsmenn frumvarpsins. Þessi setning breytir engu um það að enda þótt hún stæði ekki þá þyrfti lagabreytingu til að selja Ríkisútvarpið, nákvæmlega eins og þarf við þetta frumvarp. Setningin sem slík breytir engu þar um en hefur augljóslega verið notuð í einhverjum hrossakaupum milli stjórnarflokkanna.

Það er rétt að rifja upp, eins og nokkrir hv. þingmenn hafa gert í þessari umræðu, að þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hvað ákafastir hafa verið í því að nauðsynlegt væri að selja Ríkisútvarpið hafa sagt að þeir gætu stutt þetta frumvarp vegna þess að það auðveldaði sölu Ríkisútvarpsins síðar. Það er auðvitað hægt að leggja ýmsa merkingu í þessi orð hv. þingmanna en það er augljóst mál að það verður einfaldara að samþykkja sölu Ríkisútvarpsins eftir þessa breytingu en áður og það er væntanlega sú merking sem þeir leggja í þetta. En það gæti líka verið önnur merking og ég leyfi mér að geta þess að það gæti líka verið að hv. þingmenn ættu við það að með því að breyta þessu og gera ekki neitt annað til að bæta stöðu Ríkisútvarpsins, eins og blasir augljóslega við núna, sé styttra í að ýmsir fari að kalla á að gera þurfi enn frekari breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins til þess að breyta megi þó einhverju og þá þurfi að stíga næsta skref vegna þess að augljóslega hafi þetta skref engu skilað.

Þegar við horfum aðeins aftur í tímann og veltum fyrir okkur hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur leikið Ríkisútvarpið, vegna þess að ég leyfi mér ekki að halda að Sjálfstæðisflokkurinn eða stjórnarflokkarnir hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera, þ.e. að það sé algjör tilviljun hvernig fjárhagur og starfsemi Ríkisútvarpsins hefur þróast. Ég leyfi mér ekki þann munað að halda að fólk hafi ekki vitað hvað það var að gera. Ég tel það augljóst og þegar maður fer yfir söguna blasir svo við hver tilgangurinn hefur verið. Þegar maður leggur síðan við rökstuðninginn sem m.a. hæstv. menntamálaráðherra notar í málflutningi sínum fyrir því að þetta frumvarp sé nauðsynlegt og það þurfi að breyta rekstrarforminu passar þetta enn betur inn í myndina, þá mynd að starfsemi Ríkisútvarpsins hafi skipulega verið veikt til þess að fá ákveðna aðila til að segja: Þetta gengur ekki lengur, við getum ekki búið við þessar aðstæður lengur, það verður að gera eitthvað. Að þá sé búið að svelta fólk svo mikið að það sé farið að segja „gera eitthvað“ og það sé alveg sama hvað gert verði, það geti aldrei orðið verra.

Hæstv. menntamálaráðherra sagði úr þessum ræðustól fyrr í dag að staða Ríkisútvarpsins verði aldrei verri en hún er nú — ég endurtek: aldrei verri en hún er nú — þegar búið er að gera hana svo slæma að það eina sem gæti gerst, ef hún yrði verri, er að starfseminni yrði hætt. Það er það eina sem gæti gerst ef hún yrði verri vegna þess að í raun og veru er staðan orðin sú að við allar eðlilegar kringumstæður væri búið að loka. (Menntmrh.: Hvenær á að vera málefnalegur?) Ef þetta er ekki málefnalegt, hæstv. ráðherra, þegar hæstv. ráðherra hefur aldrei nokkurn tíma treyst sér til að ræða málefnalega um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins, aldrei, heldur bara sagt að það verði aldrei verra þá er merkingin auðvitað þessi: Hún getur ekki orðið verri nema loka starfseminni, hætta starfseminni. Þá er hún verri. Vegna þess að ef hún verður verri er ekki hægt að gera neitt. Staðan er þannig, hæstv. ráðherra.

Og bara til að rifja upp fyrir hæstv. ráðherra hvað hefur gerst, vegna þess að hún ber að sjálfsögðu ekki ábyrgð á þessari sögu allri, þá skulum við hefja leikinn árið 1994. Hvernig var staðan þá hjá Ríkisútvarpinu? Jú, þá var fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins bara býsna góð. Eignir í fasteignum námu 2 milljörðum kr., tæki og innréttingar tæpum 300 millj. kr. Þá voru langtímaskuldir Ríkisútvarpsins engar en skammtímaskuldir námu tæpum 400 millj. kr., en Ríkisútvarpið átti fyrir skammtímaskuldum árið 1994, því að viðskiptakröfur og birgðir námu einnig 400 millj. kr. Þetta þýðir að rekstrarfjárjöfnuður stóð á núlli. Allar forsendur voru fyrir áframhaldandi góðri rekstrarafkomu Ríkisútvarpsins. Það er nauðsynlegt fyrir hæstv. ráðherra að vita eitthvað örlítið um fortíðina líka, sérstaklega þegar farið er að tala um að staða Ríkisútvarpsins verði alla vega ekki verri. En hún er miklu verri í dag en hún var 1994. Hún er gjörbreytt. Núna á Ríkisútvarpið ekki lengur fyrir skuldum. Eiginfjárstaðan var neikvæð um tæpar 200 millj. kr. um síðustu áramót og það hefur ekkert gerst í starfsemi Ríkisútvarpsins sem bendir til þess að það hafi lagast heldur hefur líklega sigið enn á ógæfuhliðina og væri ekki ólíklegt að eiginfjárstaðan væri nú neikvæð um rúmlega 200 millj. kr.

Frú forseti. Hæstv. menntamálaráðherra telur það ekki málefnalega umræðu að ræða um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins. Það skyldi þó ekki vera að það væri einmitt sú málefnalega umræða sem hæstv. ráðherra vill síst taka þátt í af þeirri einföldu ástæðu að þar er málstaður ráðherrans gjörsamlega vonlaus.

Staðan er þannig að söluhæfar eignir, þ.e. fasteignir, innréttingar og tæki, duga vart fyrir langtímaskuldum. Skammtímakröfur nema rúmum 700 millj. kr. en skammtímaskuldir nú nálgast 1,7 milljarða. Rekstrarfé er því neikvætt um tæpan milljarð króna. Í einkafyrirtæki eða hlutafélagi hjá ríkinu væri þetta kallað neyðarástand, þ.e. að staðan gæti ekki orðið verri öðruvísi en að það þýddi að það yrði að loka. Hæstv. ráðherra kemur hér og lýsir því yfir að með breytingunni verði staða Ríkisútvarpsins a.m.k. ekki verri og það á að tryggja að það verði hugsanlega hægt að skrimta eitthvað áfram. Það er þó algjörlega óvíst vegna þess að ef ekki verður brugðist við einu eða neinu í því að bæta fjárhagslega stöðu stofnunarinnar bíður ekkert annað en að hún verði svo veik að hún verði að grípa til einhverra örþrifaráða.

Af því að tími vannst til í sumar hefði hæstv. menntamálaráðherra mátt fara örlítið yfir bréf sem ég man að hæstv. útvarpsstjóri sendi menntamálanefnd með umsögn sinni um frumvarpið í fyrra þar sem útvarpsstjórinn benti m.a. á að nú væri búið að spara, búið væri að hagræða öllu sem hægt væri að hagræða og það dygði ekki að breyta bara um rekstrarform til þess að hægt væri að bæta stöðuna, það yrði að koma eitthvert fjármagn inn í stofnunina. Öðruvísi væri ekki hægt að snúa af þeirri braut sem stofnunin hefði verið á undanfarið, þ.e. að draga úr þjónustu. Þá er auðvitað spurningin sem hæstv. ráðherra hlýtur að þurfa að svara í þessari umræðu: Hvaða þjónustu á að skera niður hjá Ríkisútvarpinu?

Hæstv. ráðherra vildi ekki meina að þessi breyting auðveldaði það að segja upp fólki og það væri ekki tilgangurinn að segja upp fólki. Það ætti, eins og segir í frumvarpinu, að bjóða öllu núverandi starfsfólki vinnu, en það skyldi þó ekki vera að í því lægi einhver ósk um að ekki vildu allir vinna hjá Ríkisútvarpinu áfram og þannig væri hægt að fækka fólki?

Hvaða þjónusta er það sem skera á af? Hæstv. ráðherra verður auðvitað að gera þingheimi grein fyrir því hver tilgangurinn er með þessari breytingu. Hann er augljóslega m.a. sá að það er auðveldara að segja upp fólki. Hvaða starfsfólki á þá að segja upp, hvaða þjónustu á að skera af? Það eru engar yfirlýsingar frá hæstv. ráðherra um að bæta eigi fjárhag stofnunarinnar. Að vísu kom fram í andsvari ráðherra áðan að eiginfjárhlutfallið ætti að vera 10–12%. Ef ég man rétt fengum við í menntamálanefnd í fyrra bréf frá endurskoðanda Ríkisútvarpsins sem taldi nauðsynlegt að eiginfjárhlutfallið væri ekki lægra en 30% til að viðunandi væri. Hæstv. ráðherra segir að það verði 10–12%.

Vinnan er stutt komin þótt okkur væri sagt í fyrra að endurmat á eignum stofnunarinnar væri um það bil að koma og yrði örugglega klárt áður en við afgreiddum þetta mál úr þinginu. Gert var ráð fyrir að það yrði klárað síðasta vor, að það væri á næsta leiti. Ríkisendurskoðun hafði verið falið að vinna að endurmati á eignum stofnunarinnar og það var sagt rétt handan við hornið. Í umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur hins vegar fram að enn er verið að vinna að þessu. Þetta liggur ekki enn fyrir. Það sem skorti á í fyrra skortir enn. Ekkert virðist hafa verið gert annað en fara yfir þær tillögur sem komin var niðurstaða í hjá meiri hluta menntamálanefndar þegar málið var stoppað í nefnd í fyrravor. Ekkert annað hefur gerst í millitíðinni þrátt fyrir að endurmatið a.m.k. hefði getað legið fyrir og þar af leiðandi einhverjar tillögur um hvernig menn vildu fara í hina fjárhagslegu endurskipulagningu.

Frú forseti. Ég get auðvitað haldið áfram og trúlega er nauðsynlegt að rifja upp fyrir hæstv. menntamálaráðherra hvernig stendur á því að fjárhagsstaða stofnunarinnar hefur þróast á þennan hátt. Það er búið að éta upp allt eigið fé og það orðið neikvætt og skuldum hefur verið safnað til að reksturinn geti gengið.

Það er líklega hægt að tiltaka fjórar meginástæður fyrir þessari þróun. Í fyrsta lagi hefur tekjuþróunin ekki verið í takt við útgjaldaþróunina. Tekjurnar eru annars vegar afnotagjöldin og hins vegar auglýsingatekjur. Hvorugt hefur haldið í við útgjöldin. Það hefur dregið úr auglýsingatekjum vegna þess að á þessu tímabili hefur samkeppnin aukist verulega. Afnotagjöldin hafa ekki hækkað í takt við útgjöld og þar hefur myndast gap sem skapar stóran hluta af þeim rekstrarvanda sem við er að glíma.

Í öðru lagi má nefna lífeyrissjóðsskuldbindingar. Auðvitað var gert ráð fyrir því mjög lengi, vegna þess að annað hafði ekki verið gefið í skyn, að það væri bara tímaspursmál hvenær ríkissjóður tæki þær yfir. Árið 1995 var aftur á móti ákveðið að þær féllu af fullum þunga á stofnunina sjálfa. Lífeyrisskuldbindingarnar hafa lagst algerlega á Ríkisútvarpið og hefur þurft að borga af þeim stórar upphæðir ár hvert. Nú er reiknað með því í frumvarpinu að skuldir við ríkissjóð, sem ekki hafa verið vaxtareiknaðar, lendi á opinbera hlutafélaginu. Þær munu því skapa enn erfiðari efnahag hjá opinbera hlutafélaginu en er í dag. Þetta hefur eðlilega valdið töluvert miklum vanda.

Í þriðja lagi er það auðvitað í fersku minni flestra að árið 1999 var ákveðið að flytja starfsemi sjónvarpsins af Laugaveginum í útvarpshúsið. Sú framkvæmd ein og sér kostaði tæpan milljarð kr. Hún var að mestu leyti fjármögnuð með langtímabankalánum vegna þess að ekkert var gert í að aðstoða stofnunina við að fjármagna flutninginn.

Í fjórða og síðasta lagi hefur það verið mjög áberandi að frá árinu 2000 hafa stjórnendur Ríkisútvarpsins tekið ákvarðanir um aukningu skammtímaskulda úr 500 millj. kr. í 1,7 milljarða kr. Það blasir við að þessar auknu skammtímaskuldir hafa einvörðungu staðið undir þrálátum rekstrarhalla. Rekstrarhallinn hefur verið fjármagnaður með skammtímalánum. Það hefur væntanlega, að mati stjórnenda, engin önnur leið verið til eins og fram kemur í bréfinu sem ég vitnaði í áðan frá útvarpsstjóra, þar sem staðfest var að það væri búið að hagræða eins og hægt væri í stofnuninni og ekkert eftir annað en að skera niður þjónustu.

Síðan kemur hæstv. menntamálaráðherra og telur að með því að breyta um rekstrarform muni allt saman batna og Ríkisútvarpið, að því er mér skilst, dafna og vaxa og þjónusta þess aukast sjálfkrafa. Þetta minnir á hókus pókus aðferðina sem ríkisstjórnin notaði í sumar og ýmsir hv. þingmenn í stjórnarliðinu virðast trúa að hafi gerbreytt þróun verðbólgunnar, þ.e. þegar framkvæmdum á svæðum landsins þar sem engin þensla mældist var frestað um þriggja mánaða skeið til að draga úr þenslu. Sumir hv. þingmenn trúa því að þetta hafi öllu breytt í verðbólguþróuninni. Svo virðist sem hæstv. menntamálaráðherra trúi því sama, að með því að breyta um rekstrarform muni enginn vandi lengur til staðar í rekstri Ríkisútvarpsins. Þetta er alger misskilningur.

Forsenda þess að við færum að ræða um breytt rekstrarform og hvaða rekstrarform væri réttast fyrir Ríkisútvarpið er að farið yrði sérstaklega í að koma fjárhagnum í það horf að Ríkisútvarpið geti sinnt því hlutverki sem við verðum að telja að meiri hluti Alþingis vilji. Það er algerlega vonlaust að það gangi við núverandi aðstæður.

Frú forseti. Ég sagði áðan augljóst mál að það væri engin tilviljun að þessi staða væri komin upp. Hún er auðvitað sköpuð. Hún er skipulögð. Það má rifja upp í þessu samhengi að fyrrverandi menntamálaráðherra, núverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, sagði árið 1996 að stefna ætti að því að jafna aðstöðu ríkis- og einkastöðva. Hann sagði jafnframt að á Alþingi væri þungt fyrir fæti þegar kæmi að því að rétta hlut einkastöðva.

Frú forseti. Það skyldi þó ekki vera að í þessum orðum felist að fyrst ekki er hægt að jafna þetta með því að rétta hlut einkastöðva þá sé rétt að veikja stöðu Ríkisútvarpsins. Var það leikurinn, alla tíð frá því að þessi orð voru sögð 1996 og fram á þennan dag? Ég verð að segja að ef það hefur verið markmiðið þá hefur það tekist býsna vel. Staða Ríkisútvarpsins er í fjárhagslegu tilliti orðin þannig nú að engin einkastöð væri rekin við þær aðstæður. Þetta hefur því tekist og trúlega hafa þeir gleymt að stoppa nógu snemma. Nú er staðan orðin svo alvarleg að engin einkastöð væri rekin við slíkar aðstæður. Að sjálfsögðu væru allir aðrir búnir að loka.

Það er rétt að rifja upp það sem hæstv. ráðherra sagði fyrr í dag, að staðan hafi aldrei verið verri en nú hjá Ríkisútvarpinu eftir breytingu, aldrei verri. Skiljanlega, því að ef hún væri verri þá væri hún engin, þá væri þessu lokið. Það er allt á síðasta snúningi ef litið er til efnahagslegrar stöðu Ríkisútvarpsins, því er nú verr og miður. (Gripið fram í: Og nú er að selja …) Það skyldi þó ekki vera, hv. þingmaður, markmið sumra a.m.k.? Eins og ég sagði örlítið fyrr í ræðu minni mætti ætla það af ferlinu þegar það er skoðað aftur í tímann. Það er búið að ná því markmiði að ýmsir þeir sem vildu alls ekki breyta rekstrarforminu áður eru í dag farnir að tala um að eitthvað verði að gera til að stofnunin komist úr þeirri klemmu sem hún er í núna. Þá er það niðurstaðan að jafnvel sé betra að fara þessa leið en gera ekkert. En það er ljóst að breytingin mun engu breyta að því leyti og þá mun ekki langur tími líða þar til ýmsir rísa upp og segja: Sjáið þið, þetta dugir ekki og verður að koma þessu í annað form. Þá er ekkert eftir annað en að selja þetta apparat og koma því í hendur einkaaðila. Það skyldi þó ekki vera að þá segi þeir sem verið hafa á móti sölu hingað til: Það var ekkert annað að gera vegna þess að staðan var orðin sú að við vildum halda því gangandi og var betra að láta einhverja aðra fá það sem gætu þá rekið það. Með þessum hætti er ekki hægt að reka þetta áfram.

Þetta er auðvitað alvara málsins. Sjálfstæðisflokkurinn með Framsóknarflokkinn í eftirdragi hefur allt frá árinu 1995 verið á þessari leið. Það er auðvitað skýringin á því að Framsóknarflokkurinn ætlar vegna einnar setningar að gangast inn á þetta mál. Í þeirra huga er staðan svo erfið að það verður eitthvað að gera og bara af því þau fá þessa setningu í 1. gr., sem ég er búinn að fara nokkrum sinnum yfir í umræðum og var því ákaflega hissa á að hv. þm. Dagný Jónsdóttir skyldi einnig minnast á hana. Þessi setning í 1. gr. er gerð fyrir Framsóknarflokkinn. Ýmsir sem komu í heimsókn til menntamálanefndar í fyrra sögðu að þau orð hefðu enga merkingu. Það verður auðvitað að breyta lögum ef selja á Ríkisútvarpið hvort sem þessi setning er í 1. gr. eða ekki. Hún hefur enga merkingu í því tilliti.

En séu stjórnarherrarnir á þeirri leið að undirbúa söluna þá er þetta frumvarp, eins og nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa bent á, til að auðvelda það. Eigi ekki að gera annað en þetta þá bíður Ríkisútvarpsins ekkert annað, því miður, en að halda áfram í endalausum rekstrarvanda. Það getur ekki endað nema á einn hátt ef ekkert verður að gert. Það er auðvitað alvara málsins. Það er með ólíkindum að hæstv. menntamálaráðherra skuli í þriðja sinn koma fram með frumvarpið án þess að nefna það einu orði til hvaða aðgerða skuli grípa til að leysa stofnunina úr þeim rekstrarvanda sem hún hefur verið í til fjölda ára. Ekki nóg með það heldur gengur hæstv. ráðherra, þegar farið er að tala um þetta, um ganga og kallar fram í hvort hér eigi ekki að fara fram málefnaleg umræða. Hæstv. ráðherra telur það ekki málefnalega umræðu að tala um rekstrarvanda Ríkisútvarpsins. Það er greinilega eitthvað sem enginn má tala um. Það er eitthvað sem enginn á að vita um og nokkuð sem hæstv. ráðherra vill ekki tengja við þetta frumvarp.

Þannig er staðan, frú forseti, að ekkert í frumvarpinu bendir til þess, nema að vísu örlítil upphæð vegna þess að Ríkisútvarpið verður í öðruvísi tengslum við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það breytir örlítið í félagslegu tilliti en á móti kemur að greiða þarf vexti af lausaskuldum við ríkissjóð sem éta það upp og líklega rúmlega það, ef ég man rétt. Ljóst er að ef ekkert verður að gert hefur Ríkisútvarpið ohf. ekkert annað úrræði en að skera duglega niður í rekstri. Hvað það á að vera vitum við að sjálfsögðu ekki. En það væri auðvitað eðlilegt að hæstv. ráðherra gerði okkur grein fyrir því hvað hún telur eðlilegt að skera niður, hvað á ekki heima í Ríkisútvarpinu. Það verður vart meira en óskhyggja að innlend dagskrárgerð verði stórlega aukin. Það verður að teljast afar ólíklegt við því við þessar aðstæður. Þetta skyldi þó ekki þýða að jafnvel verði dregið enn meira úr innlendri dagskrárgerð? og má þó vart við því. Það hlýtur að vera eitt af stóru hlutverkum Ríkisútvarpsins að efla íslenska dagskrárgerð en ekki að skera hana niður. Ef við leggjum saman allar þessar upplýsingar þá blasir við að líklega þarf að skera þarna niður um 15–20%.

Frú forseti. Það er rétt að fara yfir fleiri þætti í frumvarpinu sem hér liggur fyrir. En aðeins um sjálfstæðið, sem hæstv. menntamálaráðherra fjallaði örlítið um í ræðu sinni áðan og í nokkrum andsvörum. Hún vakti athygli á því að verið væri að stórauka sjálfstæði stofnunarinnar. Því miður, frú forseti, verður að draga í efa að svo sé. Ég hef farið yfir fjárhagslega þætti og niðurstaðan af því er ekki sú að sjálfstæði stofnunarinnar muni aukast. Það felst ekkert sjálfstæði í því að stofnunin taki við miklum rekstrarvanda og haldi þannig áfram.

Til viðbótar er rétt að vekja athygli á, eins og hv. þm. Mörður Árnason gerði í ágætri framsöguræðu sinni áðan, stjórn Ríkisútvarpsins ohf. Hún verður að sjálfsögðu ekki algerlega óháð. Hún eykur ekki sjálfstæði stofnunarinnar vegna þess að hún verður kosin árlega hlutfallskosningu á Alþingi. Hún verður þar með tengd meiri hlutanum á Alþingi hverju sinni. Það er ekki einu sinni reynt að milda þetta ákvæði, t.d. með því að stjórnin verði kosin til fjögurra ára og þá ekki látin fylgja kjörtímabili heldur í fjögur ár þannig að hún geti lifað mismunandi meiri hluta á þingi. Þar með mundi sjálfstæði hennar aukast. Nei, þetta er ekki gert. Stjórnin á síðan að ráða útvarpsstjóra og leysa hann frá störfum. Stjórnin, sem er undir þessum árlega þrýstingi, hefur því í för með sér stöðugan þrýsting á útvarpsstjóra. Hann er ekki einu sinni bundinn því, eins og flestir forsvarsmenn ríkisstofnana, að vera ráðinn til ákveðins tíma. Útvarpsstjóri þarf líka að vera háður því að hægt sé að segja honum upp fyrirvaralítið. Þar með er því komin bein tenging við þennan mikla valdamann í stofnuninni, við meiri hlutann á Alþingi hverju sinni. Það er ekki einu sinni reynt að skera á þetta.

Varnaglarnir eru alls staðar hjá þeim hinum sömu og tala um að nauðsynlegt sé að auka sjálfstæði stofnunarinnar. Hvernig stendur á því að þeir ganga ekki alla leið í að auka sjálfstæði stofnunarinnar? Það eru auðvitað ýmsar leiðir til þess, innan þessa forms sem sami meiri hluti hefur ákveðið, að auka sjálfstæðið. En það er eins og það sé ekki áhugi á því, hvorki þegar litið er til fjárhagsins, kosningar stjórnar eða ráðningar útvarpsstjóra.

Frú forseti. Ég minntist á það áðan að við í menntamálanefnd hefðum í fyrra fengið ágæta umsögn frá útvarpsstjóra sjálfum. Ég held að ég hafi farið þokkalega yfir það en þó mætti rifja örlítið upp, með því að vitna orðrétt í umsögn útvarpsstjóra, það sem þar segir varðandi hallareksturinn. Þar segir, með leyfi forseta:

„Um langt árabil hefur verið verulegur halli á rekstrinum og er eigið fé stofnunarinnar neikvætt. Á þessu er nauðsynlegt að taka áður en nýtt hlutafélag verður skráð.“

Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir er ekki að sjá að á nokkurn hátt hafi verið tekið á þessu. Að vísu kom yfirlýsing frá hæstv. ráðherra um 10–12% eiginfjárhlutfall, þrátt fyrir að endurskoðendur stofnunarinnar hefðu talið að það mætti ekki vera lægra en 30%. Þar er þó gengið örlítið lengra en segir í umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem talaði um að það yrði a.m.k. 5 millj. kr. Það segir að sjálfsögðu ekkert um hve hátt það fer. En það er eiginlega með ólíkindum að þrátt fyrir alla umræðuna í menntamálanefnd og hér í þingsal í fyrra varðandi þetta atriði skuli þessu ekki hafa verið breytt, a.m.k. í þá veru sem hæstv. ráðherra sagði að tryggt yrði, að það yrði 10–12%. Það væri þó í áttina.

Mig langar að vitna aðeins meira í umsögn útvarpsstjóra þannig að hæstv. menntamálaráðherra átti sig á því að það eru ekki bara örfáir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem vakið hafa athygli á stöðu Ríkisútvarpsins. Útvarpsstjóri segir sjálfur, með leyfi forseta, aðeins aftar:

„Þessum taprekstri verður ekki mætt einvörðungu með hagræðingu.“ — Þrátt fyrir að rekstrarformi verði breytt og unnt að hagræða meira, trúlega með því að fækka fólki, segir útvarpsstjóri að það verði ekki nægjanlegt og eitthvað meira þurfi að koma til. — „Á undanförnum árum hefur Ríkisútvarpinu tekist að hagræða verulega í rekstri, enda ítrekað verið farið ofan í rekstur einstakra deilda. Ekki verður séð að hægt sé að ganga mikið lengra á því sviði án þess að skerða þjónustuna.“

Þetta segir útvarpsstjóri. Það er því eðlilegt að við spyrjum, frú forseti, hæstv. menntamálaráðherra: Hvaða þjónustu ætlar hæstv. ráðherra sér að skerða, eða á að bæta fjárhagsstöðu stofnunarinnar á einhvern hátt?

Útvarpsstjóri nefnir fleira og ég ætla að leyfa mér að vitna a.m.k. einu sinni enn í umsögn hans sem send var til menntamálanefndar. Útvarpsstjóri heldur áfram, með leyfi forseta:

„Þá er ýmis kostnaður þess eðlis að litlu verður um hnikað auk þess sem frumvarpið gerir ráð fyrir því að öllum starfsmönnum verði boðið starf hjá hinu nýja félagi. Loks ríkir mikil óvissa með ýmsa kostnaðarliði. Taprekstrinum verður því einnig að mæta með tekjuaukningu.“

Frú forseti. Útvarpsstjóri telur að mæta verði taprekstrinum með tekjuaukningu. Sú tekjuaukning er hvergi í frumvarpinu. Ekkert hefur breyst í frumvarpinu að því leyti frá því að útvarpsstjóri ritaði þetta bréf. Það hlýtur því að teljast, frú forseti, málefnaleg umræða að velta fyrir sér hvernig hæstv. ráðherra sjái fjárhagslega stöðu stofnunarinnar til framtíðar. Það er ekki nægjanlega málefnalegt, frú forseti, að hæstv. ráðherra vísi eingöngu til þess að breyta eigi rekstrarforminu. Það er ekki málefnaleg umræða um fjárhagslega stöðu stofnunarinnar. Það nægir ekki og ég hef vitnað í útvarpsstjóra sjálfan sem telur það heldur ekki nægja.

Ég hef áður minnst á eiginfjárhlutfallið, sem hæstv. ráðherra nefndi einnig. Endurskoðendur Ríkisútvarpsins telja að það þurfi að vera a.m.k. 30%. Ég er klár á því að um það má auðvitað deila en það er eðlilegt að það verði rætt betur í menntamálanefnd. Gerð var tilraun til þess í fyrri störfum en prósentutalan frá ráðuneytunum, um 10–12% eiginfjárhlutfall, kom ekki fyrr en í lok umfjöllunar nefndarinnar, jafnvel eftir að nefndin var búin að skila af sér þótt ég þori ég ekki alveg að fullyrða það. En það var rétt um það bil á síðasta fundi nefndarinnar að þær tölur voru ljósar og um þær varð engin umræða frekar en um ýmsa aðra þætti sem fengust í raun ekki ræddir. Það fékkst t.d. ekki rætt hvort hægt væri að velta fyrir sér einhverju öðru rekstrarformi, sjálfseignarstofnunarforminu sem dæmi. Um það fékkst engin umræða. Því var bara ýtt út af borðinu af meiri hluta nefndarinnar með því að segja að það kæmi bara ekki til greina og væri ekki til umræðu.

Þetta form var hið eina sem meiri hlutinn vildi tala um. Minni hlutinn mátti benda á það sem betur mætti fara og vissulega tók meiri hlutinn tillit til ýmissa slíkra þátta, sem blöstu augljóslega við þegar búið var að fara yfir málið en ég er sannfærður um að við hefðum náð fram betra frumvarpi ef því hefði verið haldið lengur í umræðunni.

Einn mjög stór þáttur í þessu máli er tekjuöflunin, þ.e. nefskatturinn. Um hann fékkst engin umræða. Ég ætla að ræða aðeins um hann í lok ræðu minnar en áður vil ég þó örlítið minnast á stærra mál en svo að ég muni gera því fyllilega skil. En það eru réttindi starfsmanna. Ég vænti þess að um það verði betur fjallað af öðrum hv. þingmönnum.

Það blasti við okkur í menntamálanefnd í fyrra þegar búið var að fara yfir réttindi starfsmanna — til þess var gefinn nokkur tími og við fengum fulltrúa á fund nefndarinnar sem fóru býsna vel yfir málið — að meiri hluti nefndarinnar hafði engan áhuga á að tryggja stöðu starfsmannanna betur en gert er í frumvarpinu, þrátt fyrir að hin stóru samtök BSRB og BHM hafi sameiginlega bent á að farið væri á svig við ákveðin lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Fulltrúar þeirra skildu í raun ekki frekar en við, og það er rétt að það komi fram, hvernig á því stæði að meiri hluti Alþingis hefði ýmislegt við þau lög að athuga en virtist ekki treysta sér til að koma hér hreint fram og leggja fram breytingartillögur við þau lög eða reyna að semja um það við starfsmenn ríkisins hvernig breyta megi þessum lögum þannig að meiri hlutinn sé sáttur við þau. Þess í stað er farin sama leið og í hvert skipti sem slík breyting er gerð á rekstrarformi, þ.e. farið á svig við lögin þótt lögin kveði alveg skýrt á um hvernig að þessu skuli staðið.

Frú forseti. Ég sagði að mikilvægt væri að tryggja tekjustofna stofnunar eins og Ríkisútvarpsins. En eins og ég hef rakið hefur þess ekki verið gætt. Það hefur ekki verið samhengi á milli þess sem ætlast hefur verið til af stofnuninni og þeirra tekna sem stofnunin hefur fengið. Þess vegna hefur þróunin verið sú sem ég benti á. Leiðin sem meiri hlutinn og hæstv. ráðherra velja í frumvarpinu, nefskatturinn, er þó að ýmissa mati, og við erum þeirrar skoðunar í stjórnarandstöðunni, afar óheppileg. Við teljum margar mun vænlegri leiðir til þess að tryggja tekjurnar. Hún er að vísu einföld, þessi nefskattsaðferð, en hún skilar sér ekki eins og eðlilegt getur talist, þ.e. jöfnuður gagnvart fólki er ekki tryggður.

Við fengum afar athyglisvert bréf frá ríkisskattstjóraembættinu varðandi þetta mál. Þar kom ýmislegt fróðlegt fram sem ég hef ekki tíma til, frú forseti, að fara yfir í ræðu minni. En ríkisskattstjóraembættið, sem auðvitað hefði verið eðlilegt að ráðgast við áður en ráðist væri í svo viðamikla breytingu, bendir á ýmsa vankanta. Ríkisskattstjóri fer síðan í skemmtilega sögulega upprifjun á nefsköttum en kemst að þeirri niðurstöðu, sem er reyndar mjög skýr og raunar afar sérstakt að slíkt komi frá orðvörum embættismönnum. Í niðurlagi umsagnar ríkisskattstjóra segir, með leyfi forseta:

„Með vísan til alls framangreinds verður ekki hjá því komist að draga í efa að sú tillaga frumvarpsins að afla Ríkisútvarpinu tekna með álagningu nefskatts sé heppileg.“

Það er eðlilegt að draga í efa að aðferðin sé heppileg. Þetta er afar embættismannslegt orðalag en með öðrum orðum eru til miklu heppilegri leiðir til að gera þetta. Hægt væri að fara fjölmargar leiðir. Afnotagjöldin hafa verið notuð en þau hafa verið óvinsæl, líklega vegna þess að þau eru mun hærri en í öðrum löndum þar sem sú aðferð hefur verið notuð. En það er þekkt aðferð sem hefur bæði kosti og galla. Bent hefur verið á að fjármagna megi stofnunina með beinum framlögum úr ríkissjóði með þjónustusamningi hennar við ríkið eins og gert er með ýmsar opinberar stofnanir. Það er líka einföld leið en hún hefur þann galla að meiri hluti á þingi, sem er viðkvæmur fyrir því sem gert er í stofnuninni, gæti minnkað fjárframlög eða sleppt því að auka þau, eins og færa má rök fyrir að hafi verið gert með afnotagjöldin. Þau hafa auðvitað verið háð því að hækkanir í samræmi við verðlagsþróun í landinu yrðu samþykktar. Þar munar vitanlega allverulegu.

Bent hefur verið á að nota mætti hluta af tekjuskattinum til að afla þessara tekna. Margt bendir til þess að það væri ein heppilegasta leiðin. Bent hefur verið á að tengja þetta við fasteignagjöld sem hefði einnig ákveðna galla eins og flest af þessu. En það er lágmarkskrafa að menntamálanefnd gefi sér tíma til að fara yfir málið að þessu leyti og kanni hvaða leið er vænlegust og réttlátust þannig að ná megi sem allra mestri sátt um tekjuöflun Ríkisútvarpsins.

Auðvitað væri nauðsynlegt að ná sem mestri sátt um frumvarpið í heild sinni (Forseti hringir.) en því miður skortir meiri hlutann áhuga á því.