133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:03]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson má eiga hrós skilið fyrir að koma þó með nýjan punkt í þessa umræðu sem ekki hefur verið gert hér í dag. Það er gaman að hér skuli vera einhver smá fjölbreytni í gangi.

Ég vil byrja á að svara því sem hann segir, að setningin sem slík skaði ekkert og honum finnist ágætt að hafa hana inni. Ég er sammála honum í því. Varðandi orð mín um það að ég treysti þingmönnum framtíðarinnar og hvort þetta mál sé ástæðan fyrir því að ég gef ekki kost á mér til áframhaldandi setu á Alþingi, þá er það stórlega ofmetið. Ég fullvissa hv. þingmann um að það er ekki ástæðan fyrir því að ég hef ekki hug á að sitja hér áfram um sinn, enda hef ég gefið það út að ég útiloki ekki endurkomu. Ég álít bara að það sé enginn pólitískur vilji fyrir því að selja Ríkisútvarpið og ég treysti þingmönnum framtíðarinnar. Ég held að þeir hv. þingmenn verði ávallt í mjög miklum minni hluta sem hafa hug á því að selja Ríkisútvarpið. Kannski svipuð tala og við sjáum í dag, tveir þingmenn. (Gripið fram í.) Einn hefur dregið sig til baka.

En ég endurtek að ég get fullvissað hv. þingmann um að það frumvarp sem við fjöllum um hér á engan þátt í ákvörðun minni og ég get staðið fyllilega við það að minn flokkur og þeir stjórnarflokkar sem nú eru við völd munu ekki standa að sölu Ríkisútvarpsins í framtíðinni.