133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:05]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að þetta frumvarp hefur ekki þær afleiðingar í för með sér að fólk hætti þingmennsku í stríðum straumi. En það væri eiginlega svolítið skemmtilegt ef einhver hv. þingmaður Framsóknarflokksins sýndi þann dug að leggja hreinlega þingsæti sitt að veði gagnvart svona máli vegna þess að svo mjög hefur afstaða flokksins breyst að full ástæða væri til þess að einhver hv. þingmaður hans gengi hreinlega svo langt.

Það má hins vegar ekki gera lítið úr því að hv. þingmaður er mjög lifandi í umræðunni og það er auðvitað fagnaðarefni því að við höfum oft saknað Framsóknarflokksins sérstaklega í þessari umræðu. Það er gleðiefni að einn hv. þingmaður flokksins skuli leggja það á sig að vera á formannsvakt í umræðunni. Það vekur sérstaka athygli, ég hafði eiginlega ekki áttað mig á því, frú forseti, að formaður nefndarinnar hefur lítið sem ekkert sést í umræðunni. Það er eitthvað öðruvísi en áður var því ef ég man rétt var hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson afskaplega lifandi í umræðum en hann hefur líklega einhverjum öðrum hnöppum að hneppa þessa dagana. Það er augljóst að það er farið að setja svip á þingstörfin, eðlilega kannski, að ýmsir eru að berjast og hafa ekki gefið svipaðar yfirlýsingar og hv. þingmaður og þurfa þess vegna að sinna slíku. Það er ekkert skrýtið með hv. þingmenn sem hafa miklar hugsjónir í þessu máli. Það vill svo til að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er einn þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem hefur viljað selja Ríkisútvarpið. Það skyldi þó ekki vera að hv. þingmaður sé að vekja athygli á því í sínum hópum að hann (Gripið fram í: Varaformaðurinn er hér.) sé þeirrar skoðunar enn? Það er rétt, hv. þingmaður, að það er hlutverk varaformanns að taka við hlutverki formanns þegar formaður getur ekki sinnt því og það er auðvitað fagnaðarefni (Forseti hringir.) að Framsóknarflokkurinn skuli enn hafa burði í sér til þess.