133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:07]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í þriðja sinn á jafnmörgum þingum frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, í þetta sinn er það frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. Ég vil fá að nota fyrstu setningar ræðu minnar til að lýsa þeirri skoðun minni að ég hefði talið, eins og ég sagði fyrr í dag þegar við ræddum fundarstjórn forseta, að það hefði verið betri svipur á því ef við hefðum tekið fyrst til umræðu frumvarpið um starfsumhverfi fjölmiðla sem dreift hefur verið í þinginu og stendur einnig til að mæla fyrir þegar þessari umræðu um Ríkisútvarpið og síðan Sinfóníuna lýkur.

Það hefði farið betur á því, virðulegi forseti, ef við hefðum gert þetta þannig því að þá hefðum við náð að ræða um framtíðarskipan í heildarumhverfi fjölmiðla á Íslandi og þar með náð að afgreiða þá umræðu og kannski að skýra línurnar í þessu öllu svolítið um leið. Við hefðum tekið hlutina í réttri röð, ef svo má segja, og hefðum þá náð að ræða m.a. þessa ágætu skýrslu, skýrslu nefndar menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla sem kom út í apríl árið 2005. Þar liggur fyrir mikið efni sem þarf að ræða, mikilvægt mál sem þarf að ræða og að sjálfsögðu heyrir Ríkisútvarpið undir þá umræðu að stórum hluta þrátt fyrir að sú nefnd sem vann þessa ágætu skýrslu hafi í raun fengið hálfgildings fyrirmæli um það frá menntamálaráðherra að hún ætti ekki að ræða málefni Ríkisútvarpsins. Ég kannast mjög vel við það því að ég var einn af þeim sem sátu í þeirri nefnd.

Gott og vel. Við erum sem sagt byrjuð að ræða í þriðja sinn um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. Einhvers staðar segir svo, nokkurn veginn a.m.k., að þegar Íslendingar deila um hluti og þeir komast að kjarna málsins setji menn yfirleitt hljóða. Það er eflaust svolítið til í þessu og ég held að þetta eigi kannski vel við hér. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson fór áðan yfir fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins eins og hún lítur út í dag. Þar komu fram upplýsingar sem ég hygg að þingheimur hafi ekki vitað um, til að mynda í fyrra þegar við ræddum málefni Ríkisútvarpsins.

Eftir að hafa litið aðeins yfir þessar tölur og skoðað hvernig fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins er núna er þá er mér verulega illa brugðið. Ég sakna þess mjög, eins og bent hefur verið á af ræðumönnum sem hafa talað á undan mér, að hvergi nokkurs staðar sjáist nein merki þess að ríkisstjórnarmeirihlutinn hafi einhverja skýra framtíðarsýn um það hvernig leysa eigi úr þeim mikla fjárhagsvanda sem stofnunin á við að glíma. Þessi stofnun er í raun og veru gjaldþrota, hún er á hausnum. Og að ætla að fara að stofna hlutafélag með 5 millj. kr. hlutafé fyrir svona stóra stofnun sem er á hvínandi kúpunni er mikið ábyrgðarmál og mjög alvarlegur hlutur.

Við getum svo sem farið aðeins yfir þetta aftur. Ég held að það sé alveg rétt að hamra svolítið á því hvernig staðan hefur hríðversnað hjá þessu fyrirtæki sem ávallt hefur verið fremsta fjölmiðlafyrirtæki þjóðarinnar og er það enn í dag, afskaplega dýrmætt þjóðardjásn, hvernig staða þessa fyrirtækis hefur hríðversnað á örfáum undanförnum árum, einmitt á þeim árum sem núverandi ríkisstjórnarflokkar, sem vilja keyra þetta frumvarp í gegn núna, hafa verið við völd.

Árið 1994 var eigið fé Ríkisútvarpsins hvorki meira né minna en 2,7 milljarðar kr. Það voru engar langtímaskuldir á fyrirtækinu. Skammtímaviðskiptaskuldir voru þá 400 milljónir, viðskiptakröfur voru einnig 400 milljónir. Með öðrum orðum, virðulegi forseti, þetta var ákaflega sterkt fyrirtæki sem stóð afskaplega vel, mjög sterk staða í blómlegum rekstri, og það var full eining og sátt um fyrirtækið eða svona nokkurn veginn. Það voru að vísu komnar upp raddir um að þjarma ætti að því. Þær raddir heyrðust úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins og eflaust kann einhver að verða hissa við að heyra það en þannig var það.

Tíu árum áður höfðu geisað verkföll, verkföll hjá Blaðamannafélaginu og Ríkisútvarpinu haustið 1984. Þá gerðist það í þessu verkfalli að menn settu á fót ólöglegar einkastöðvar, fóru að reka ólöglegar einkastöðvar. Það var bannað að reka slíkar stöðvar, Ríkisútvarpið hafði einkaleyfi á því að stunda útvarpsrekstur á Íslandi þegar þetta var. Þessar stöðvar fóru í loftið. Yfirvöld, stjórnvöld sem eiga að sjá til þess að lögum sé framfylgt í landinu, reyndu náttúrlega að bregðast við þessu og það voru ýmsar uppákomur í kringum þetta. Meðal annars sagði maður nokkur þá, sem í dag er dómsmálaráðherra, eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Við sem vildum ekki sætta okkur við að ríkið sæti eitt að útvarps- og sjónvarpsrekstri vorum hundelt af lögreglunni.“

Þetta er haft eftir Birni Bjarnasyni, núverandi dómsmálaráðherra. Þarna var hann í hlutverki lögbrjóts og viðurkennir með þessum hætti að hann hafi komið að rekstri ólöglegra útvarpsstöðva á þessum tíma.

Gott og vel. Síðan var ákveðið að aflétta þessum einkarekstri Ríkisútvarpsins á rekstri hljóðvarps og sjónvarps árið 1985 og árið 1986 fór fyrsta einkastöðin í loftið, Íslenska útvarpsfélagið hóf útsendingar. En eins og ég sagði áðan var staðan hjá Ríkisútvarpinu, þrátt fyrir að hafa fengið þessa samkeppni fyrir tíu árum, afskaplega sterk, gríðarlega sterk, eigið fé var 2,7 milljarðar.

Þarna fór að syrta í álinn. Einmitt um það leyti sem núverandi ríkisstjórnarmeirihluti tók við byrjuðu menn að þjarma að Ríkisútvarpinu. Björn Bjarnason var orðinn menntamálaráðherra í apríl árið 1995 og þá lýsti hann því yfir að stefna eigi að því að jafna aðstöðumun ríkisstöðva og einkastöðva. Þetta sagði hæstv. menntamálaráðherra fyrir ellefu árum síðan.

Árið 1995 voru lífeyrisskuldbindingar lagðar af fullum þunga á Ríkisútvarpið. Í sjálfu sér voru engin haldbær rök fyrir því að gera það. En þetta var nú samt gert. Afnotagjaldið hefur hækkað mun minna en verð og launaþróun allar götur frá þessum tíma, þ.e. Ríkisútvarpið var sett í skrúfstykki. Tekjumöguleikar þess voru skertir. Lífeyrisskuldbindingarnar sem fóru á Ríkisútvarpið árið 1995 eru nú komnar upp í 2,6 milljarða.

Eins og nefnt var áðan var farið út í miklar fjárfestingar árið 1999. Þetta voru nauðsynlegar fjárfestingar. Ég þekki það vel. Þarna var ég að vinna á fréttastofu Sjónvarps og ég vann m.a. í gamla húsnæðinu á Laugavegi. Þar var Ríkissjónvarpið orðið afskaplega aðþrengt. Það hafði verið fjársvelt í mörg ár, litlu fé varið til að mynda til endurnýjunar og tækjakaupa. Ríkissjónvarpið allt bjó við afskaplega bágan kost. Það var í rauninni löngu kominn tími til að Ríkissjónvarpið yrði flutt upp í Efstaleiti þar sem það átti að vera og þar sem það er í dag. Þar var húsnæði fyrir hendi sem stóð lengi nánast fokhelt og ekkert var gert í þeim málum. Á meðan drabbaðist tækjabúnaður og annað niður á Laugaveginum. Það kostaði því afskaplega mikið fé að flytja sjónvarpið. Því um leið og sjónvarpið var flutt þurfti að endurnýja mjög mikið af tækjabúnaði. Það var keyptur mjög góður tækjabúnaður. Það var vel staðið að þeim flutningum.

Maður skyldi nú ætla, af því að þetta var ríkisfyrirtæki, að þetta hefði verið fjármagnað úr ríkissjóði af fjárlögum. Ríkisútvarp, ríkissjónvarp allra landsmanna. Nei. Það var ekki gert. Þetta var fjármagnað með langtímalánum. Reikningurinn fór upp í 1 milljarð. Þetta leiddi náttúrlega til þess að skuldir fyrirtækisins jukust mjög mikið.

Ef við lítum á hluti eins og rekstrarkostnaðinn við Ríkisútvarpið þá hefur hann hækkað jafnt og þétt eftir því sem árin hafa liðið. En það hefur yfirleitt haldist í hendur að dagskrárgjöld og afnotagjöld hafa nokkurn veginn náð að dekka kostnaðinn, sjálfan rekstrarkostnaðinn.

Nú, árið 2006, er staðan þannig, virðulegi forseti, eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson benti á áðan, að eigið fé Ríkisútvarpsins er horfið og það er neikvætt um 200 millj. Söluhæfar eignir duga vart fyrir langtímaskuldum. Viðskiptakröfur nema 700 millj. kr. en viðskiptaskuldir eru 1,7 milljarðar. Þar af á ríkissjóður 900 millj. Rekstrarfé fyrirtækisins er neikvætt um milljarð. Þetta segir manni náttúrlega að fyrirtækið er á hausnum.

Þess vegna finnst mér það mikið ábyrgðarmál að koma með þetta frumvarp um breytingu á rekstrarformi Ríkisútvarpsins þegar það liggur hvergi fyrir á neinn hátt hvernig eigi að fara að því að koma Ríkisútvarpinu út úr þessari alvarlegu kreppu.

Mér sýnist í fljótu bragði að fyrirtækið þurfi 1–2 milljarða af beinni innspýtingu í peningum til að rétta það af. Það er hvergi hægt að heyra á málflutningi stjórnarliða að þeir hafi uppi neinar áætlanir um að gera það. Þá hlýtur maður að velta fyrir sér: Hvað gerist ef þetta frumvarp verður að lögum eins og staðan er núna? Að það hafi verið búið til hlutafélag með 5 millj. í hlutafé?

Það hlýtur að verða þannig, virðulegi forseti, að hér verði skorið alvarlega niður eða það verði reynt að selja eignir með einhverjum hætti. Þótt það standi reyndar hér að sala félagsins eða hluta þess sé óheimil. Eitthvað þarf að gera. Það væri mjög gott að fá að heyra frá stjórnarliðum og kannski frá hæstv. menntamálaráðherra hvað sé nú í hendi til þess að hægt sé að rétta af hag Ríkisútvarpsins og tryggja því góðan rekstrargrundvöll í framtíðinni. Sjá til þess að hér verði til öflugt hlutafélag, vel stætt hlutafélag með góða eiginfjárstöðu og skuldir sem hægt er að afbera. Hvað hyggjast stjórnvöld gera til að ná slíku markmiði sem hlýtur að vera eðlilegt markmið og eðlileg krafa? Ég held það hljóti að vera eðlileg krafa hjá okkur öllum sem sitjum á Alþingi og eigum að fjalla um þessi lög, eðlileg krafa hjá okkur að við heimtum það úr hendi ráðherra hæstv. að fá að vita þetta. Öðruvísi getum við alls ekki gengist undir það að samþykkja eitthvert frumvarp í þessa veru. Það verður fyrst að leysa úr þessum vanda áður en við förum að gera eitthvað annað.

Þetta er meginástæðan, virðulegi forseti, fyrir því að þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur tekið þá afstöðu að leggjast eindregið gegn þessu frumvarpi. Vegna þess, eins og ég segi, að Ríkisútvarpið er á hausnum og við förum ekki að taka þá áhættu að hreyfa við rekstrarforminu þegar staðan er jafnslæm og raun ber vitni. Það kemur ekki til mála. Fyrst verðum við að leysa úr þessum vanda. Við verðum að fá að vita hvað eigi að gera til að greiða úr honum. Því við viljum sjá hér áfram Ríkisútvarp, öflugt sterkt útvarp í almannaþágu. Það hefur ávallt verið mjög sterk krafa hjá okkur í Frjálslynda flokknum að hér yrði áfram öflugt ríkisútvarp.

Við höfum lagt fram þingmál um þetta. Síðast þingsályktunartillögu sem var lögð fram á 130. löggjafarþingi 2003–2004, þar sem við ályktuðum að kosin yrði nefnd skipuð fulltrúum allra þingflokka til að semja frumvarp um breyttan rekstur Ríkisútvarpsins. Það yrðu gerðar hér ákveðnar breytingar. En hryggjarstykkið, grundvöllurinn í því yrði samt sem áður að Ríkisútvarpið ætti að vera áfram til sem sjálfstæð og óháð stofnun í þjóðareign. Hér yrðu almannahagsmunir settir algerlega í fyrsta sæti.

Það er okkar bjargfasta trú enn þann dag í dag, virðulegi forseti, að Ríkisútvarpið sé alger hornsteinn í íslenskum fjölmiðlum. Þegar við lítum á íslenska fjölmiðla og skoðum hvernig hinir svokölluðu frjálsu fjölmiðlar hafa verið að þróast þá verð ég að segja að þar er margt sem hræðir. Ríkisútvarpið er í mínum huga eini sjálfstæði fjölmiðillinn sem er til á Íslandi í dag. Eini algerlega sjálfstæði og óháði fjölmiðillinn sem til er á Íslandi í dag. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem íslenska þjóð til framtíðar, fyrir okkur sem menningarþjóð, fyrir menningararf okkar og annað þar fram eftir götunum. Það er mjög mikilvægt að okkur takist að verja Ríkisútvarpið, að það verði áfram þjóðareign og veiti hinum fjölmiðlunum sem eru í eigu einkaaðila þannig jafnframt nokkurs konar aðhald. Það eru fjölmiðlar sem geta breyst frá degi til dags, fjölmiðlar sem oft er hægt að nota til að mynda af eigendum þeirra til að halda á lofti ákveðnum sjónarmiðum og viðhorfum, pólitískum viðhorfum ekki síst. Það er mjög mikilvægt að við höfum hér sterkan miðil í þjóðareign sem getur nokkurn veginn gætt hlutleysis. Fjölmiðil þar sem öll sjónarmið geta komist að og fengið að njóta sín. Það er mjög mikilvægt að þetta verði svona til framtíðar. Á þetta leggjum við algera ofuráherslu.

Við höfum í sjálfu sér ekki verið andvíg því í Frjálslynda flokknum að skoða breytingu á rekstrarformi Ríkisútvarpsins eins og fram kom í þingsályktunartillögunni sem ég nefndi hér áðan. En eins og ég segi, við getum ekki farið út í þetta verk núna þegar við sjáum hve Ríkisútvarpið er illa statt fjárhagslega og við fáum ekki að vita neitt um hvað hugsanlega eigi að gera til að reyna rétta af hina skelfilegu stöðu fyrirtækisins. Við fáum ekki að vita neitt hvaða hugmyndir menn hafa um að skera niður sem mér sýnist að sé alveg borðliggjandi að þurfi að gera ef það koma ekki peningar inn í þetta fyrirtæki úr ríkissjóði. Þá verður að skera mjög harkalega niður.

Það eru algerlega orðin tóm að skrifa hér upp á einhvern þjónustusamning með loforðum um að það eigi að fara út í meiri innlenda dagskrárgerð og annað þar fram eftir götunum. Mér finnst það algerlega orðin tóm þegar við sjáum hvernig staðan er á fyrirtækinu. Það er í raun og veru tómt píp. Við verðum að fá að vita hvernig eigi að koma fyrirtækinu úr þessari úlfakreppu. Mér þætti mjög vænt um að fá að heyra það frá hæstv. ráðherra í þessari umræðu nú, fyrstu umræðu þessa máls, hvað eigi að gera. Við náum ekki að tvöfalda textun sjónvarpsefnis, auka íslenskt sjónvarpsefni um 50%, sjá til að hljóðvarpsdagskrárgerð minnki ekki og gera margt annað sem er mjög dýrt. Við náum ekki að gera þetta eins og fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins er í dag. Það er ósköp einfalt. Þetta er ekkert flóknara en það.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki ómálefnaleg umræða eins og hæstv. menntamálaráðherra sagði hér áðan, alls ekki. Við erum einfaldlega að benda á staðreyndir. Séu þessar staðreyndir rangar þá hvet ég hæstv. ráðherra að leiðrétta okkur og leiðrétta þá þennan misskilning. Ef það er svo að staða Ríkisútvarpsins er miklu sterkari en hún virðist vera þá verðum við sem sitjum hér á Alþingi og erum með löggjafarvaldið í okkar höndum að fá skýlausar upplýsingar um það ekki seinna en strax.

Virðulegi forseti. Ég kom aðeins inn á það að Ríkisútvarpið í dag væri eini fjölmiðillinn á Íslandi sem í raun og veru er hlutlaus. Ég stend við það. Ríkisútvarpið hefur á margan hátt verið afskaplega góð stofnun hjá okkur Íslendingum. Við höfum borið gæfu til þess að eiga þetta fyrirtæki allar götur síðan 1930. Þetta fyrirtæki hefur skilað gríðarlega mikilvægu og merku verki í gegnum áratugina og verið mjög mikilvæg menningarstofnun, stofnun sem þjóðin hefur getað treyst á.

Ég hef alvarlegar athugasemdir við það hvernig stjórn þessa félags, ef af verður miðað við þetta frumvarp, verður skipuð. Ræðumenn sem hafa talað á undan mér hafa einnig bent á þetta. Ég tel að það sé ekki heillavænlegt að skipa fimm manna stjórn og jafnmarga til vara sem verða í raun og veru ekkert annað en pólitískir útsendarar sem eiga síðan að deila og drottna yfir Ríkisútvarpinu og það verði hægt að skipta þeim aðilum út á hverju ári ef mönnum sýnist svo. Mér finnst þetta ekki vera mjög gæfuleg stjórnarmyndun fyrir svona fyrirtæki. Að sjálfsögðu mun fyrirtækið þá um leið verða undir járnhæl ráðandi meiri hluta á Alþingi hverju sinni. Ég er ekki viss um að það sé mjög sniðugt.

Ég hefði gjarnan viljað sjá að stjórnin yrði skipuð fleiri aðilum og að sjálfsögðu að starfsmenn hefðu átt að eiga fulltrúa í þessari stjórn, þ.e. starfsmenn Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið býr yfir mjög miklum mannauð. Þar starfar margt afskaplega hæft fólk sem hefur mjög mikið vit á því sem það er að gera. Gerir sér góða grein fyrir því hvert hlutverk Ríkisútvarpsins er. Ég tel að fulltrúum þess starfsfólks sé fyllilega treystandi til að eiga aðild að stjórn stofnunarinnar í framtíðinni.

Við sjáum, virðulegi forseti, þegar við flettum þessu frumvarpi og förum að skoða hvernig þessum málum er háttað í öðrum löndum. Það er hér í fylgiskjali með frumvarpinu yfirlit yfir hvernig þessu er háttað í löndunum hér í kringum okkur. Þar sjáum við alls staðar að stjórnir ríkisútvarps- og sjónvarpsfyrirtækjanna í nágrannalöndunum eru miklu fjölmennari. Í stjórn Danmarks Radio sitja til að mynda 10 manns og þeir eru valdir til fjögurra ára í senn. Formaðurinn er tilnefndur af menntamálaráðherra, þrír eru skipaðir af menntamálaráðherra, sex eru kosnir á þinginu. Einn ráðsmaður er síðan fulltrúi starfsmanna stofnunarinnar.

NRK í Noregi, sem ég þekki nokkuð vel, er hlutafélag. Þar er útvarpsráðið skipað níu mönnum. Þar af eru þrír fulltrúar starfsmanna. Formaður, varaformaður. Fjórir ráðsmenn eru síðan valdir á aðalfundi NRK, norska ríkisútvarpsins og sjónvarpsins.

Í Svíþjóð er þetta þannig að þar skipar ríkisstjórnin 11 manna stjórn að fengnum tilnefningum frá þingflokkum. Formaður er skipaður til fjögurra ára. Aðrir eru skipaðir til átta ára. Skipuninni er háttað þannig að helmingi stjórnar er skipt út í kjölfar þingkosninga hverju sinni til að kosningaúrslitin endurspegli ekki stjórnskipunina á hverjum tíma.

Þetta tel ég að mörgu leyti ágætis útfærslu. Við sjáum svipaða hluti í Finnlandi, í Bretlandi og Hollandi. Í Hollandi eru 13 stjórnarmenn. Í Austurríki eru hvorki meira né minna en 35 stjórnarmenn. Að hluta eru þeir valdir eftir stærð flokkanna á þinginu. Sex eru valdir þannig. Níu eru síðan valdir af héraðsstjórnum. Gera mætti ráð fyrir að fulltrúar stærstu sveitarfélaganna mundu fá aðild að stjórn Ríkisútvarpsins hér á landi. Níu er valdir af ríkisstjórninni, sex af dagskrárráðinu og fimm eru starfsmenn stofnunarinnar. Í Austurríki eru sem sagt bæði fulltrúar þings, héraðsstjórna, sveitarfélaga með öðrum orðum, ríkisstjórnarinnar og einnig starfsmanna.

Ég hefði gjarnan viljað sjá slíka útfærslu á stjórn Ríkisútvarpsins í framtíðinni ef við viljum á annað borð skipta út því fyrirkomulagi sem við höfum í dag, sem er útvarpsráð.

Í þingsályktunartillögunni sem við í Frjálslynda flokknum lögðum fram á 130. löggjafarþingi höfðum við hugmynd um að sett yrði allfjölmennt útvarpsráð til að stjórna þessu fyrirtæki. Einhvers konar akademía, þ.e. 15 menn sem væru valdir af samtökum og stofnunum í samfélaginu, úr menningar- og listaheiminum, af fræðslustofnunum, úr vísinda- og rannsóknageiranum, af landsbyggðinni, frá almannasamtökum launþega og ef til vill af fleiri sviðum. Seta í útvarpsráði væri í raun mikilsverð viðurkenningar- og virðingarstaða.

Í þetta ráð mundi einungis setjast hið hæfasta fólk. Við mundum, þótt það takist náttúrulega aldrei alveg, geta kúplað frá hina pólitísku stjórn sem hefur að vissu marki verið á Ríkisútvarpinu fram til þessa. Mér sýnist sem ríkisstjórnarmeirihlutinn ætli að leggja ofuráherslu á að slík stjórn verði áfram, sem á margan hátt er mjög slæmt fyrirkomulag. Stjórnin mun á hverjum tíma ráða hver verður útvarpsstjóri og útvarpsstjóri mun síðan ráða því hverjir fá að vinna hjá fyrirtækinu og það er bara þannig í þessum pólitíska hráskinnsleik að mönnum hættir yfirleitt til að ráða einhverja sem eru þeim nálægir í skoðunum, jafnvel í pólitískum skoðunum, jafnvel flokksfélaga. Við höfum séð það, virðulegi forseti. Reynslan kennir okkur að í íslensku þjóðfélagi hefur það yfirleitt verið með þeim hætti.

Varðandi nefskattinn, sem á að fjármagna þetta fyrirtæki, þ.e. halda því gangandi með einhverjum hætti þótt ljóst sé að nefskattur muni aldrei duga til að rétta af fjárhag Ríkisútvarpsins nema þar verði skorið allheiftarlega niður. Ég held að þessi skattur eigi eftir að verða mjög umdeildur. Ég er alls ekki búinn að sannfærast, þótt ég hafi setið fjölmarga fundi í menntamálanefnd þar sem við höfum haft þetta mál til umræðu og farið yfir það frá ýmsum hliðum, um að þetta sé fyrirkomulag sem einhver friður muni skapast um í framtíðinni. Alls ekki. Þetta verður jafnumdeilt ef ekki umdeildara en afnotagjaldið sem við höfum í dag.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég skil ekki hvers vegna í ósköpunum þarf að breyta þessu. Ég botna ekki í því hvernig í ósköpunum fólki dettur í hug að fara úr skatti sem er umdeildur yfir í skatt sem verður mjög umdeildur. Það finnst mér skrýtin pólitík. En sú pólitík er náttúrlega á ábyrgð þeirra sem hafa mælt fyrir þessu frumvarpi og barist fyrir því í þrjú ár að það nái fram að ganga og verði að lögum. Ég tel afskaplega misráðið af ríkisstjórnarmeirihlutanum að koma með þetta frumvarp inn í þingið rétt fyrir kosningar. Það er afskaplega misráðið og heimskuleg ákvörðun að taka þá áhættu að leggja frumvarpið fyrir þingið rétt fyrir kosningar.

Fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins er afskaplega bágborin. Ef þetta frumvarp verður að lögum án þess að nokkuð verði gert til að rétta af stöðu Ríkisútvarpsins er ljóst að gríðarlega miklar deilur verða um Ríkisútvarpið. Það verður umdeilt ef þeir sem taka að sér stjórn Ríkisútvarpsins munu frá fyrsta degi þurfa að skera heiftarlega niður, það er ljóst, segja upp starfsfólki, leggja niður deildir og annað þar fram eftir götunum. Það mun ekki ganga hljóðalaust fyrir sig.

Það mun heldur ekki ganga hljóðalaust fyrir sig ef hið nýja opinbera hlutafélag mun leggjast í að selja frá sér eignir, selja til að mynda útvarpshúsið, landið umhverfis útvarpshúsið. Ef það selur frá sér þessar eignir þá mun það ekki gerast án þess að miklar deilur verði um þær ráðstafanir.

Ég held, virðulegi forseti, að Ríkisútvarpið skipi það ríkan sess í þjóðarsálinni að fólki sé ekki sama. Ég hef heyrt þær raddir, sérstaklega hjá stjórnarliðum, að þetta sé ekki mikið mál og öllum sé nokkurn veginn sama um þetta Ríkisútvarp. Þetta frumvarp, hvers vegna í ósköpunum nennið þið að tuða um þetta ár eftir ár? Fólk hefur engan áhuga á þessu. Ég held að ríkisstjórnarmeirihlutinn vanmeti þjóðarsálina allhrikalega og hafi feilreiknað sig illa og misstigið sig. Ég held að það skipti í raun engu máli hvernig þetta mál fer núna. Segjum að það fari í gegnum 1. umr., fari inn í menntamálanefnd, komi aftur til 2. umr. og verði rætt aftur í þaula, fari aftur inn í menntamálanefnd og rætt þar í þaula, komi til 3. umr. og verði rætt í þaula og verði kannski að lögum í vetur eða á vordögum — það er eiginlega alveg sama hvernig þetta fer. Þetta mál verður kosningamál í vor. Framtíð Ríkisútvarpsins verður kosningamál í vor. Það verður eitt af stóru málunum í vor.

Ríkisstjórnin er búin að leggja málið upp með þeim hætti. Hún hefur haldið þannig á spilunum í þessu máli að ég tel óhjákvæmilegt, fari þetta frumvarp í gegn, að það verði að kosningamáli. Þjóðin mun ekki sitja þegjandi og hljóðalaust og horfa á það gerast að þetta fyrirtæki verði eyðilagt umfram það sem ríkisstjórnarmeirihlutanum hefur tekist nú á 10 árum eins og ég fór yfir áðan.

Að rústa fjárhag þessa fyrirtækis, sem var afskaplega sterkur, svona svakalega á ekki lengri tíma er í raun með ólíkindum. Ég verð að segja, virðulegi forseti, þegar maður lítur um öxl og hugsar sig svolítið um eins og ég hef verið að gera í sumar, ég hef verið að velta þessu fyrir mér, þá verður þetta augljóst. Það eru öfl í þjóðfélaginu sem ætla sér að eyðileggja þetta fyrirtæki. Þau ætla sér að koma því fyrir kattarnef með einum eða öðrum hætti.

Það má vel vera að margir núverandi stjórnarliðar, m.a. hv. þm. Dagný Jónsdóttir sem kemur hér upp og segir að hún treysti þingmönnum framtíðarinnar fyrir því að Ríkisútvarpið verði ekki selt, tali í einlægni. Hún trúir því að það verði ekki gert. En ég treysti því ekki þegar ég skoða hvernig þetta fyrirtæki hefur verið látið gossa fram af hengifluginu með fullum vilja og vitund þeirra sem hafa ráðið, þeirra sem hafa haldið um stjórnartaumana. Þegar maður sér það og setur það allt saman í samhengi þá læðist að manni mjög heiftarlegur grunur um að eitthvað meira liggi þar á bak við.

Ég held að það sem vakir fyrir þeim sem virkilega halda um þræðina sé að gera þetta núna að hlutafélagi, mjög veiku hlutafélagi sem standi frá fyrsta degi afskaplega veikt, standi frammi fyrir því að það verði að gera eitthvað til að reyna að rétta það af. Það mun á mjög skömmum tíma leiða til þess, að ég tali ekki um ef sá stjórnarmeirihluti sem nú er heldur áfram, sem maður vonar náttúrulega að verði ekki, að fyrirtækinu verði slátrað á tiltölulega skömmum tíma. Hvort sem það verður selt eða bútað niður, selt burtu í hlutum og stórlega dregið úr starfseminni og skorið niður, til að mynda í dagskrárgerð og öðru. Það er sama hvernig menn fara að þessu, staða þess verður mjög veik innan örfárra ára vegna þess, eins og tölurnar segja okkur, að staða fyrirtækisins er ofboðslega slæm í dag.

Ég held, virðulegi forseti, að mjög margir hafi ekki gert sér grein fyrir því hve veik staða fyrirtækisins er í raun og veru einmitt núna þegar á að breyta því í hlutafélag. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar held ég að það væri miklu nær að rétta af rekstur fyrirtækisins og koma með fjármagn inn í það. Setja í það það fjármagn sem þarf til að það verði aftur að öflugu og heilbrigðu fyrirtæki. Síðan getum við gert upp við okkur, t.d. með þjónustusamningnum sem var gerður, hvernig skapa má skilyrði til að hægt verði að standa við hann. Síðan verðum við að gera upp við okkur með öðrum hætti hvernig við viljum að þetta fyrirtæki sinni hlutverki sínu í framtíðinni. En fyrst og fremst þarf að leggja áherslu á að fyrirtækið verði eflt og gert sterkt þannig að utanaðkomandi aðilar geti ekki, við tilteknar aðstæður, hirt það fyrir slikk, lítinn pening.

Þannig lítur málið a.m.k. út í mínum huga núna. Þess vegna munum við í Frjálslynda flokknum leggjast gegn því að þetta frumvarp nái fram að ganga í þessari mynd, á meðan staða fyrirtækisins er jafnhörmuleg og raun ber vitni. Það verður okkar afstaða í þessari þriðju tilraun til að koma málinu í gegn. Hún mun ekkert breytast nema þá að við sjáum að ríkisstjórnin, sem ég á ekki von á, sé reiðubúin að leggja fram það fjármagn sem þarf til að rétta við fyrirtækið. Þar erum við ekki að tala um neina smápeninga, virðulegi forseti. Þar erum við sennilega að tala um fjárhæð sem hleypur eitthvað á bilinu 1–2 milljarðar íslenskra króna.