133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:43]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur verið farið vel og vandlega yfir stöðu Ríkisútvarpsins í dag á þeim tímamótum þegar þriðja atlagan er gerð að því að breyta rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar og ýmsu öðru um leið. Hinar atlögurnar tvær misheppnuðust mjög herfilega og er nokkuð dæmalaust að lesa sig í gegnum þær umræður sem fram fóru á þeim tíma um Ríkisútvarpið.

Í fyrstu atrennu þegar lagt var til að um sameignarfélag yrði að ræða sóru framsóknarmenn það og sárt við lögðu hér úr ræðustólnum, og beið ég spenntur eftir því fyrr í kvöld að heyra ræðu þingflokksformanns Framsóknar þar sem hann útskýrði í þriðja sinn afstöðu flokksins til rekstrarformsins. En í fyrstu umferð var Framsóknarflokkurinn algjörlega og eindregið á móti því að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi í nokkurri mynd. Það kæmi aldrei til greina af þeirra hálfu. Það var frágangssök af hálfu Framsóknarflokksins.

Sinnaskipti og sveiflur Framsóknarflokksins í afstöðu sinni til framtíðar Ríkisútvarpsins er því sérstakt rannsóknarefni. Kannski er það besta dæmið um það pólitíska öngþveiti sem ríkir innan Framsóknarflokksins og má að sjálfsögðu að hluta til rekja til þeirra nokkuð dæmalausu ófara sem ríkisstjórnin hefur lent í aftur og aftur á síðustu missirum með fjölmiðlamálin. Fyrst að sjálfsögðu með hið makalausa fjölmiðlafrumvarp sem er einhver sérkennilegasta og þekktasta stjórnmálaorrusta síðari tíma á Alþingi Íslendinga og lyktaði með þeim ósköpum sem alkunna er. Síðan hefur Framsóknarflokkurinn í raun ekki borið sitt barr og staða flokksins verið afleit og farið snöggtum versnandi á milli missira.

Meginuppistaðan í því að það kom ekki til greina af hálfu Framsóknarflokksins, frekar en það kemur til greina að mínu áliti að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag, var sú að Framsóknarflokkurinn taldi það merki um að það væri fyrsta skrefið á vegferð hægri aflanna í Sjálfstæðisflokknum. Hægri mannanna í Sjálfstæðisflokknum sem eru komnir til mun meiri áhrifa og metorða en áður með formannsskiptunum í fyrra í Sjálfstæðisflokknum. Nú eru hægri sjónarmiðin þar mjög uppi og hægri mennirnir sem fluttu þingmálið, frumvarp til laga um Ríkisútvarp, fyrir tveimur árum, hv. þm. Pétur H. Blöndal, Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson, eru miklir og eindregnir baráttumenn fyrir því að Ríkisútvarpið verði selt.

Ég er algjörlega sannfærður um að það er skoðun meirihlutans í Sjálfstæðisflokknum að einkavæða og selja Ríkisútvarpið þó sjálfsagt séu ýmsir þar sem hafa aðra skoðun. Það er ekki hægt annað en að vera þeirrar skoðunar þegar maður fylgist með og fer í gegnum stjórnmálaumræður sjálfstæðismanna síðustu missira, sérstaklega þeirra sem yngri eru, að einhvers konar andúðar gæti á ríkisrekstri á fjölmiðlamarkaði.

Ég lít svo á að þessi þriðja atlaga að breytingu á rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins sé skref hægri aflanna í Sjálfstæðisflokknum í að einkavæða stofnunina. Ég velkist ekki í nokkrum einasta vafa um það. En að sjálfsögðu er það samkomulag á milli stjórnarflokkanna að það sé ekki á stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar. Það er ég einnig sannfærður um enda er það tekið fram í upphafi málsins. Hins vegar þarf sérstaklega að taka það fram því það er sáttin á milli stjórnarflokkanna. Framsóknarflokkurinn má þó eiga það að hann er trúr þeirri sannfæringu sinni að það eigi ekki að einkavæða eða selja Ríkisútvarpið þó hann hafi gefið eftir og kúvent í afstöðu sinni í þessu prinsippmáli aftur og aftur með svo vandræðalegum hætti að framsóknarmenn sjást ekkert við þessa umræðu frekar en þeir sáust við hana síðast.

Nú eru þær skýringar fram komnar að þetta rekstrarform henti núna utan um þessa ríkisstofnun. Þó hef ég aldrei heyrt hvorki hæstv. menntamálaráðherra né aðra málsvara málsins útskýra það með neinum boðlegum hætti af hverju breyta þarf Ríkisútvarpinu í hlutafélag ef það er ekki ætlunin að selja það í framtíðinni. Það er auðveldara að ráða og reka fólk og það breytir stjórnsýslunni en ég hef ekki séð að það náist nein markmið fram sem ekki er hægt að ná með öðrum hætti ef það er pólitískt markmið stjórnmálaflokkanna í landinu, Sjálfstæðisflokksins einnig, eins og hæstv. menntamálaráðherra heldur fram í þessari umræðu, að stofnunin eigi að vera í ríkiseigu um ókomna tíð. Þá eru til miklu hentugri leiðir eins og t.d. þær sem hafa verið notaðar utan um almannaþjónustu hvers kyns sem er ekki rekin í ágóðaskyni eins og sjálfseignarstofnunarformið, það hefur gefist mjög vel. Saga sjálfseignarstofnana í íslenskri almannaþjónustu er mjög farsæl. Það er nokkur sátt um að ýmiss konar stofnanir á sviði menntunar, heilsugæslu, heilbrigðisþjónustu, almannaþjónustu hvers konar, sjálfstætt reknar, séu sjálfseignarstofnanir þegar þær eru ekki reknar í ágóðaskyni. Það hefði því verið miklu boðlegri leið fyrst stjórnvöld telja svo brýnt að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins.

Það er margt annað sem er óásættanlegt í málinu af minni hálfu við fyrstu sýn. Að sjálfsögðu á málið eftir að fara í gegnum 1. umr. og í menntamálanefnd þar sem það tekur vonandi breytingum. Það er löng leið eftir.

Á þeim 40 mínútum sem ég hef í fyrri umferð í kvöld gefst ekki færi nema rétt að tæpa á þessum atriðum. Svo ég stikli á stóru áður en ég fer í einstaka þætti er eitt af þeim um hlutdeild Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Þar hef ég um árabil verið talsmaður þess að hlutdeild þessa auglýsingamarkaðar verði takmörkuð. Ég er á þeirri skoðun að Ríkisútvarpið eigi að vera á auglýsingamarkaði. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir stofnunina að hafa þar einhver umsvif, fyrir almenning að hafa aðgang að þeim upplýsingum sem mjög oft koma fram í auglýsingum og eins fyrir auglýsendur að geta auglýst vöru sína og þjónustu í þessum öfluga og mikla miðli.

Til að koma til móts við einkareknu ljósvakamiðlana á Íslandi á þeim litla og þrönga fjölmiðlamarkaði sem við erum með þá hefði ég talið það sanngirnismál að takmarka hlutdeild Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og gefa þannig einkareknum fjölmiðlum, ljósvakamiðlum, aukið svigrúm. Aukið vægi, aukið lífsrými og aukna möguleika á því að skjóta hér rótum og að undir þeim væru styrkar stoðir.

Á þeim 20 árum sem frjáls og einkarekin fjölmiðlun hefur verið á Íslandi í ljósvakamiðlun hefur að sjálfsögðu gengið á ýmsu. Við höfum horft upp á voldug fyrirtæki í öðrum greinum koma að rekstri fjölmiðlanna og þá fyrst taka þeir nokkrum stakkaskiptum og fyrirtækin virðast fara að bera sig að einhverju leyti eða fá alla vega fjármagn til að athafna sig tímabundið. Til að mæta því og bæta stöðu einkarekinna fjölmiðla með sanngjörnum hætti af hálfu ríkisvaldsins tel ég að að takmarka eigi umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði en ekki að auka forskot þess enn frekar eins og forustumenn frjálsu fjölmiðlanna halda fram með því að gera það annars vegar að hlutafélagi og hins vegar að gefa því óheft og ótakmarkað svigrúm á auglýsingamarkaði. Ég tel mjög fjandsamlega fram gengið gegn einkareknu fjölmiðlunum og mjög ósanngjarnt að öllu leyti. Þetta á að sjálfsögðu að skoða og vera til grundvallar nú þegar þriðja atrennan er gerð að því að setja Ríkisútvarpinu nýjan ramma.

Það er dapurlegt að Ríkisútvarpið skuli lenda í því aftur og aftur að tilstuðlan Sjálfstæðisflokksins að verða það pólitíska bitbein í íslenskri stjórnmálaumræðu eftir að um það og rekstur þess hefur ríkt nokkur sátt í þess glæstu og löngu sögu þangað til á síðustu missirum þegar fjölmiðlamálin fóru að vera einhver stærstu og mestu átakamál á íslenskum stjórnmálavettvangi. Það er ekkert undarlegt við það að mikil tortryggni sé ríkjandi í garð Sjálfstæðisflokksins og þeirra fyrirætlana sem ríkisstjórnin hefur uppi með Ríkisútvarpið þegar engin rök koma fyrir því að breyta eigi rekstrarforminu með þessum hætti önnur en nánast ,,af því bara“, ef ekki á að selja útvarpið eða búa í haginn fyrir einkavæðingu þess síðar.

Að sjálfsögðu eru einnig mörg önnur atriði mjög vafasöm, sérstaklega í pólitísku ljósi. Til dæmis, eins og hér hefur verið nefnt, hvernig standa eigi að kjöri í stjórn Ríkisútvarpsins og sá pólitíski járnhæll sem þannig er verið að setja yfir stofnunina. Kosið er í hana árlega og þessi beina tenging með sitjandi meiri hluta á Alþingi hverju sinni, árlegt kverkatak Alþingis á stofnuninni, er algerlega óþolandi.

Bent hefur verið á ýmsar skynsamlegri leiðir til að auka sjálfstæði stofnunar af þessu tagi frá Alþingi og sitjandi meiri hluta hverju sinni. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson gat um þær áðan af skandinavískum vettvangi. Það hlýtur því að verða skoðað mjög vandlega. Málið var rætt ítarlega í menntamálanefnd í fyrra og það kom mér mjög spánskt fyrir sjónir að sjá að því var ekki búið að breyta núna. Eins hélt ég að það væri til þess nokkur vilji í Sjálfstæðisflokknum að gefa einkareknu miðlunum aukið svigrúm á markaði með því að þrengja að Ríkisútvarpinu, takmarka umsvif þess á auglýsingamarkaði. Ég tek það fram aftur vegna misskilnings sem stundum gætir þar um, að það á ekki að mínu mati að taka útvarpið út af auglýsingamarkaði, heldur að sníða því þrengri stakk.

Þá kemur það mér einnig á óvart að enn skuli vera lagt til að fjármagna eigi Ríkisútvarpið með nefskatti. Ég held að það sé versta mögulega leiðin til að fjármagna Ríkisútvarpið. Ég held að óbreytt afnotagjöld hefðu verið mun farsælli leið. Enn þá betra hefði verið að setja það á fjárlög og semja um framlög til þess til einhverra ára í senn til að koma þannig einnig í veg fyrir pólitískt kverkatak á stofnuninni. En nefskattur er klárlega versta leiðin og líklegust til að verða mjög óvinsæl hjá almenningi og ala enn frekar á andúð í garð ríkisrekstrar á fjölmiðlamarkaði miðað við reynslu annarra ríkja.

Komum við þá að meginmálinu sem er inntak almannamiðilsins nýja, nýrra tíma, þar sem hlýtur að felast réttlætingin á rekstri ríkissjónvarps og útvarps af einhverju tagi. Að mínu mati er ekkert sjálfsagt mál að ríkið standi í fjölmiðlarekstri. Fyrir því þurfa að vera mjög brýnar forsendur og þær felast að sjálfsögðu í því hlutverki sem ríkismiðillinn innir af hendi. Það hefur Ríkisútvarpið gert vel eins og það hefur haft umsvif til í gegnum tíðina. Menningartengt efni og fréttastofur Ríkisútvarpsins hafa í gegnum tíðina staðið nokkuð upp úr og verið mjög kraftmiklar og góðar. Til þeirra getum við gert þá skýlausu kröfu að þær séu hlutlausar, að þar sé enginn vafi á því að eigendur miðlanna séu ekki að eiga við ritstjórnarstefnuna. Á móti kemur að þess vegna þarf að tryggja svo óyggjandi sé að pólitískur járnhæll, eins og núna Sjálfstæðisflokksins, troði ekki ofan á stofnunina. Þess er ekki gætt í þeim frumvarpsdrögum sem við ræðum.

Það veldur vonbrigðum þegar rýnt er ofan í það sem segja má að verði inntak hins nýja ríkissjónvarps, að þar eru mjög yfirborðskennd markmið um útvarpsþjónustu í almannaþágu. Tilverurétt þeirrar stofnunar. Það er ekki tekið á því með neinum boðlegum hætti að mínu mati í frumvarpinu og þarf að færa miklu öflugri rök fyrir því hvernig stofnunin undir hinu nýja rekstrarformi eigi að starfa í framtíðinni og hvers konar efni hún eigi að miðla. Þó þar séu ágæt markmið sett fram um aukna hluta af innlendu efni, aukna textun o.s.frv. er það allt mjög losaralega framsett og mjög ósannfærandi í ljósi þeirrar fjárhagslegu stöðu sem Ríkisútvarpið býr við þessi missirin.

Þá vekur það sérstaka athygli að í þriðja sinn kemur fram í hlutverkakaflanum í frumvarpinu, 2. lið, með leyfi forseta:

,,Að senda út til alls landsins og næstu miða a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá árið um kring.“

Við ræddum það ítarlega við hæstv. menntamálaráðherra og formann menntamálanefndar í fyrra hvort í þessu fælist einhvers konar viljayfirlýsing um að selja ætti Rás 2. Um það spunnust talsverðar umræður á síðasta vetri sem mátti túlka sem svo að það væri ekki almennur vilji þingmanna að leggja niður eða selja Rás 2. Skorað var á hæstv. ráðherra að þessu ætti að breyta og kveðið væri skýrt á um að það væri hlutverk Ríkisútvarpsins að reka tvær hljóðvarpsrásir því Rás 2 gegnir að mínu mati ekki síður menningarlegu hlutverki en Rás 1. Hún miðlar af miklu kappi íslenskri dægurtónlist sem engin önnur útvarpsstöð gerir af neinum sérstökum metnaði nú um stundir. Hún hefur staðið sig frábærlega í því að miðla því sem er að gerast í íslenskri tónlist og að bera okkur Íslendingum nýja strauma úr tónlist hvers konar erlendis frá.

Þegar farið er í gegnum frumvarpið kemur í ljós að engar boðlegar skýringar eru gefnar í frumvarpinu á því af hverju lagt er til að Ríkisútvarpinu eigi að breyta í hlutafélag í eigu íslenska ríkisins sem áður. Ekkert er tekið á hlutdeild Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Nefskattur er valinn en það er versta mögulega leiðin til að fjármagna Ríkisútvarpið. Þegar rýnt er í málið kemur í ljós að það er meira og minna sama klastrið og málið sem kom fram í fyrra. Enda byrjar umræðan um það eins og henni lauk síðast, í ófriði. Ekki er farin sú leið að móta þetta frumvarp til að mynda eftir að fram hefur farið umræða um almenna löggjöf um fjölmiðla eins og á að ræða hér síðar í vikunni. Ekkert í þessu máli bendir til þess að ná eigi friði og sátt um stofnunina.

Að mínu mati á það að vera meginhlutverk sjónvarpsins að standa í einhverri mynd að framleiðslu og miðlun á íslensku efni sem er t.d. forsenda þess að Rás 2, eins og ég nefndi áðan, eigi að vera til. Þessi rúmlega tvítuga útvarpsstöð stendur vel undir nafni og hefur þróast þannig að hún ein útvarpsstöðva á landinu miðlar í einhverjum mæli íslenskri poppmúsík. Þannig hefur hún unnið sér sess og tilverurétt og því ætti að koma fram skýr pólitískur vilji um það hvernig henni eigi að reiða af í framtíðinni. Það er því óheppilegt að hér standi að miðla eigi að minnsta kosti einni hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá. Kveða ætti skýrt á um að áfram ætti að reka Rás 2.

Það vekur sérstaka athygli að núna án nokkurra skýringa, eins og ég gat um áðan, hefur Framsóknarflokkurinn hvikað í því grundvallaratriði sem flokkurinn setti hér fram, þ.e. að aldrei kæmi til greina að hvika að þessu leyti. Ríkisútvarpið ætti aldrei að gera að hlutafélagi. Það var algert grundvallaratriði að félagið yrði sameignarfélag eða sjálfseignarstofnun en alls ekki hlutafélag. Síðan þá hefur ekki margt annað gerst en að Framsóknarflokkurinn hefur, að því er virðist, gefið fullkomlega eftir gagnvart Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Hann hefur ekki komið með nein sérstök eða boðleg svör um það hverju sætir og af hverju flokkurinn hefur ekki staðið fastar í fæturna hvað það varðar að ekki komi til greina að stofnunin verði gerð að hlutafélagi og af hverju ekki er frekar farin sú leið að hún verði sjálfseignarstofnun.

Ítrekað var það nefnt við umræðuna í fyrra að fram hefði komið mjög föst röksemdafærsla fyrir því frá ýmsum af hægri væng Sjálfstæðisflokksins að selja Ríkisútvarpið. Héldu þeir því fram að engin sérstök rök væru fyrir því að ríkið ætti að reka sjónvarps- eða útvarpsstöðvar frekar en ríkisdagblað eða ríkistímarit, eins og kom fram í tilvitnaðri athugasemd í því máli. Þar var því fundið allt til foráttu að ríkið stæði í útvarps- eða sjónvarpsrekstri af einhverju tagi. Það þætti mjög fráleitt. Því hljóta að vakna þær spurningar sem ég gat um hér í upphafi, þ.e. hvort hlutafélagavæðing Ríkisútvarpsins sé ekki fyrsta skref þess hluta ríkisstjórnarinnar sem Sjálfstæðisflokkurinn myndar í því að selja stofnunina eða koma henni einhvern veginn í hendur einkaaðila. Ég tel svo vera og er sannfærður um að ekkert annað hangir á spýtunni enda hafa engin önnur rök komið fram fyrir því af hverju verið er að fara þessa leið.

Ég vonaðist einnig eftir að sjá nokkur atriði betur útfærð í nýja frumvarpinu, atriði sem ekki var að finna í þeim tveimur frumvörpum sem mælt var fyrir á síðustu tveimur þingum, atriði sem þarf að skoða sérstaklega. Þar er eins og ég gat um, það á að takmarka hlutdeild og umfang útvarpsins á auglýsingamarkaði, sem er í kringum 30% í dag, líklega á bilinu 50–60% á auglýsingamarkaði á ljósvakamiðluninni einni og er að sjálfsögðu mjög umfangsmikil þar. Má færa rök fyrir því að Ríkisútvarpið þurfi og eigi að vera á auglýsingamarkaði eins og ég gat um áðan? Ég held að svo eigi að vera. Það væri ósanngjarnt að ætlast til að stofnunin væri tekin algjörlega út af markaði. En þá hefði átt að reyna að takmarka hlutdeildina hvort sem hún yrði helmingur niður á við eða fundin einhver ásættanleg markmið sem hægt væri að sameinast um.

En auðvitað er meginmálið, ásamt fjármögnun og rekstrarformi sem er hlutverk Ríkisútvarpsins til framtíðar, endurskilgreining á almannaútvarpi og þá pólitísk tilraun til að endurmóta og endurskilgreina hlutverk og markmið Ríkisútvarpsins þannig að það standi undir nafni sem almannaútvarp og sé ekki meira og minna notað til að dreifa og miðla til okkar erlendu og oft ódýru afþreyingarefni, skemmtiþáttum og þeirri sjónvarpsdagskrá sem er að finna á hinum íslensku sjónvarpsstöðvunum í mjög miklum mæli.

Ríkisútvarpið hefur gert það að sérstöku metnaðarmáli sínu á síðustu árum og áratugum að keppa um það við einkareknu sjónvarpsstöðvarnar hver þeirra nái í vinsælustu sjónvarpsþættina að utan og hefur barist á þeim markaði við þær stöðvar í staðinn fyrir að einbeita sér að því að framleiða og miðla íslensku efni. Auðvitað þarf líka að skoða sérstaklega menntunarhlutverk Ríkisútvarpsins. Það þarf að efla það verulega og skilgreina það og skoða sérstaklega í þessu ljósi.

Að mínu mati á meginhlutverk sjónvarpsins að vera að standa í einhverri mynd eða stuðla að framleiðslu og miðlun á íslensku efni sem er t.d. grundvöllur þess að Rás 2 eigi að vera til, eins og ég gat um áðan. Að mínu mati á að lögbinda það með einhverjum hætti eða setja skorður eða skilyrði um hlutfall af innlendu efni í sjónvarpinu þannig að það liggi alveg fyrir hvert það eigi að vera. Það er stefnt að því hér í samningnum en er ósannfærandi í ljósi fjárhagsstöðu stofnunarinnar eins og hún er nú, og var rakið mjög ítarlega áðan.

Grundvöllurinn að tilveru og tilverurétti Ríkisútvarpsins er að miðla og stuðla að dreifingu á íslensku sjónvarpsefni, framleiðslu þess og miðlun og að sjálfsögðu á kostnað þess erlenda efnis sem hefur verið miðlað af miklum móði í sjónvarpi á síðustu missirum. Þó þarf að sjálfsögðu að blanda því inn í dagskrána við vandaða innlenda dagskrárgerð. Allir vita að ekki skortir vilja innan stofnunarinnar til að rækja það hlutverk vel af hendi. Að sjálfsögðu ekki. En stofnunin þarf að hafa fjárhagslega burði til að standa að framleiðslu á slíku efni. Það svigrúm hefur Ríkisútvarpið ekki haft á síðustu árum. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða.

Þegar litið er yfir stöðuna eins og hún er og hefur verið, dagskrá sjónvarpsstöðvar sem sendir út á landsvísu eftir meginflokkum árið 2003, kemur í ljós að sjónvarpið stendur hinum stöðvunum ekkert framar í miðlun á t.d. upplýsingum og menningu. Er þar svona nokkuð á pari við Stöð 2 eða heldur að baki. Sjónvarpið þarf virkilega að fá svigrúm til að bæta sig í því. Það á að sjálfsögðu að vera markmið hins nýja almannaútvarps nú þegar verið er að sníða stofnuninni nýjan stakk til framtíðar.

Það eru mikil vonbrigði að í frumvarpinu er ekki tekið á skilgreiningum á inntaki útvarpsins. Ekkert mið er tekið af því að Ríkisútvarpið stígi skref frá því að vera sá blendingur í dagskrárgerð og miðlun sem það er núna yfir í að vera fyrsta flokks almannamiðill í framtíðinni. Kaflinn Skilgreining á hlutverki útvarpsstjórans í almannaþágu, eins og kaflinn heitir, er mjög almennur þó hann hafi tekið miklum breytingum frá því sem fyrst var þegar hann kom hér fram hátt í 30 liðum minnir mig. Það eru orðnir 13 liðir núna.

Eitt af því sem þarf að ræða sérstaklega, og ekki hafa komið fram sannfærandi rök um, er hvað varðar fjármögnun á stofnuninni. Töluvert hefur verið rætt um algjöran skort á jöfnunaráhrifum inni í nefskattinum. Það hefur ekki verið rætt eða útskýrt neitt sérstaklega af hverju nefskattsleiðin er farin, t.d. frekar en sú að setja stofnunina á fjárlög, fjárlög sem yrðu þá gerð fimm eða tíu ár fram í tímann þannig að Alþingi hefði ekki pólitískt tak á stofnuninni við fjárlagagerð á hverju ári og væri ekkert frekar en með hækkun eða lækkun á nefskattinum í því máli. Það vantar að mínu mati sannfærandi rök fyrir því af hverju sú leið er farin frekar en einhver önnur. Það er einhver undarleg niðurstaða án þess að færð séu pólitísk rök fyrir því af hverju verið er að leggja t.d. afnotagjöldin til hliðar. Afnotagjöldin eru vissulega óvinsæl og þau eru há.

Um afnotagjöldin t.d. í Bretlandi ríkir nokkur sátt þar sem þau eru svo miklu lægri. En hér eru þau há. Það þarf að endurskoða fjármögnunarleiðina. Það liggur algerlega fyrir. Það er engin niðurstaða úr neinni pólitískri umræðu að fara nefskattsleiðina í staðinn. Ég er sannfærður um að nefskattsleiðin er versta hugsanlega leiðin til að fjármagna Ríkisútvarpið. Ég er algerlega sannfærður um það. Það hefði verið miklu farsælla annaðhvort að halda sig við afnotagjöldin eða setja stofnunina á fjárlög, sem hefði kannski verið sú leið sem mest sátt hefði náðst um á meðal almennings, en ekkert einboðið samt að þá leið eigi að fara. Hægt er að fara margar leiðir en það hefur ekkert verið rætt. Boðaðar eru í frumvarpi eftir frumvarpi um Ríkisútvarpið, ár eftir ár, sömu hrakfarirnar í málinu en alltaf stendur þetta eftir. Enda hefur umræðan kannski snúist um önnur og enn veigameiri atriði en það.

Hér hefur verið vakin sérstök athygli á því að sú pólitíska stjórn sem lagt er upp með í útvarpinu, með árlegri kosningu á stjórn stofnunarinnar, er algjörlega fráleit. Það er algjörlega fráleitt að sitjandi meiri hluti hverju sinni, og Sjálfstæðisflokkurinn nú, hafi pólitískt tak á útvarpinu þar sem svo bein tenging liggur á milli stjórnarinnar, ráðherrans og þess útvarpsstjóra sem situr hverju sinni. Það kemur að sjálfsögðu ekki til greina. Það er algjörlega fráleitt. Það er augljóst að umboð hinnar nýju stjórnar sem Alþingi þarf að kjósa árlega er mjög skert. Það er mjög undarleg ráðstöfun í jafnviðkvæmum rekstri og fjölmiðlarekstur er að hlutirnir séu lagðir upp með þeim hætti sem hér er gert. Í fjölmiðlarekstri er mikilvægt að það sé almennt viðhorf að þar sé gætt hlutleysis og pólitísk tök séu þar sem allra minnst þó svo að hin pólitíska ábyrgð liggi hjá Alþingi hverju sinni.

Komið hafa fram margar og mjög vel rökstuddar athugasemdir við þetta fyrirkomulag og ástæða er til að skora á hæstv. menntamálaráðherra að losa nú um það pólitíska kverkatak sem hún er að setja á Ríkisútvarpið með þessum hætti með því að breyta þessu gagngert í meðförum málsins á næstu vikum. Það er algjörlega tilgangslaust að búa svo um hnúta eins og hér er gert því hægt er að fara miklu farsælli leiðir en lagt er upp með. Það hlýtur að verða skoðað mjög vandlega í menntamálanefnd að breyta þessu ákvæði sérstaklega. Þetta er eitt af meginatriðunum í málinu sem er hvað mikilvægast að girða fyrir, þ.e. pólitísk íhlutun sitjandi meiri hluta hverju sinni við rekstur og stjórn á stofnuninni. Þetta er mjög mikilvægt atriði.

Margir hafa gert það að umræðuefni síðustu missiri þegar þetta mál hefur verið hérna í þinginu hvernig viðsnúningur Framsóknarflokksins átti sér stað í þessum málum og hvað olli því að flokkurinn gaf eftir í málinu af því að það hefur aldrei komið fram nein boðleg skýring á því. Hv. þingflokksformaður Framsóknar er sagður hafa skroppið á fund austur fyrir fjall og sé þá væntanlegur hingað í umræðuna síðar. Bíður maður að sjálfsögðu spenntur eftir að heyra sjónarmið og útskýringar hans sem talsmanns flokksins í þessum málaflokki á því hvað átti sér stað, sérstaklega í ljósi þeirra stóru orða sem framsóknarmenn höfðu uppi við umræðuna um Ríkisútvarpið fyrir tveimur árum þegar þeir hreyktu sér mjög af því að hafa náð að beygja Sjálfstæðisflokkinn og þvingað hann til að sættast á að um einhvers konar sameignarstofnun, sameignarfélag, yrði að ræða og það kæmi aldrei til greina af þeirra hálfu að samþykkja að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi, enda væri það þáttur í vegferð Sjálfstæðisflokksins til að einkavæða Ríkisútvarpið. Fyrir það mundi flokkurinn leggja sitt pólitíska líf að veði og láta brjóta á í stjórnarsamstarfinu ef á reyndi. Þeir fóru í málið af miklu kappi og mikilli hörku, framsóknarmennirnir á því tímabili, en allir vita hvernig fór og árið var ekki liðið þegar þeir voru reknir hérna inn í þingið af Sjálfstæðisflokknum með þau skilaboð að nú væri allt í lagi að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi, þeir væru búnir að fá tryggingu fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði ekki að selja Ríkisútvarpið.

Það sem veldur því að ég hef jafnmikinn fyrirvara á því og ég geri grein fyrir nú, að rekstrarformi Ríkisútvarpsins verði breytt á þann hátt sem lagt er til, er að ég tortryggi fyrirætlanir Sjálfstæðisflokksins í málinu fullkomlega. Ég treysti Sjálfstæðisflokknum ekki. Þar hafa verið uppi háværar og sterkar raddir um að ríkið eigi að draga sig algjörlega út úr rekstri fjölmiðla. Þar hafa þeir þingmenn flokksins sem eru hvað háværastir talsmenn hans í mennta- og menningarmálum flutt um það þingmál að selja eigi Ríkisútvarpið. Þetta eru ráðandi aðilar í Sjálfstæðisflokknum, menn sem hafa þar gífurleg áhrif og ítök. Í ljósi þess hvernig flokkurinn hefur gengið fram á síðustu missirum og talað um Ríkisútvarpið, talað af mikilli andúð um ríkisrekstur hvers konar á fjölmiðlum, þá treysti ég Sjálfstæðisflokknum ekki í þessu máli og mun aldrei gera. Ég mun aldrei treysta því að Sjálfstæðisflokkurinn muni ekki einhvern tíma freista þess að selja Ríkisútvarpið og breyta því í hlutafélag. Hvort sem það er sjálfstætt, ohf. eða hvað, þá er Sjálfstæðisflokkurinn að sjálfsögðu að undirbúa það að þegar færi gefst, þegar pólitískt svigrúm gefst til, hvort sem það er í upphafi kjörtímabils eða að flokkurinn hafi fundið sér þann samstarfsflokk í ríkisstjórn sem hann geti fengið til að fallast á einkavæðingu, sem ég er reyndar farinn að hallast að að Framsóknarflokkurinn mundi í sjálfu sér á einhverjum tímapunkti gefa eftir og standa að.

Hann er hins vegar rúinn pólitísku trausti almennings og er ekki í neinni stöðu til að standa að slíku. Það yrði líklega enn eitt áfallið fyrir flokkinn og þess vegna er ekki lengra gengið en raun ber vitni. En hér er verið að búa í haginn fyrir einkavæðingu Ríkisútvarpsins síðar meir og ég tortryggi Sjálfstæðisflokkinn fullkomlega í þessu öllu. Það hafa verið allt of háværar raddir um annað innan þess flokks þannig að hægt sé að taka það trúanlegt þó að örfáir einstaklingar innan flokksins haldi því nú fram að það sé að sjálfsögðu ekki í fyrirætlunum flokksins að selja Ríkisútvarpið, enda eru ekki margir sjálfstæðismenn sem taka þátt í umræðunni. Hérna er alveg æpandi tómur stólinn hans Péturs Blöndals, hv. þingmanns, sem er einn helsti baráttumaður flokksins fyrir því að einkavæða og selja Ríkisútvarpið. Þeir pólitísku baráttumenn yst af hægri væng Sjálfstæðisflokksins, hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson og Guðlaugur Þór Þórðarson, eru allir fjarverandi þessa umræðu, því miður, af því að sjónarmið þeirra hljóta að skipta miklu máli í þessu. Þetta eru mennirnir sem fluttu frumvarp til laga um að selja ætti Ríkisútvarpið á þessu sama kjörtímabili og Sjálfstæðisflokkurinn reynir að telja okkur trú um að hlutafélagavæðing Ríkisútvarpsins sé ekki áfangi á leið ríkisstjórnarinnar til að einkavæða og selja Ríkisútvarpið.

Að mínu mati á ríkið að reka öflugan almannamiðil eins og Ríkisútvarpið er, á að vera og getur orðið enn þá betri og öflugri fái hann til þess frið frá Sjálfstæðisflokknum sérstaklega til að vaxa og dafna og ekki sé gerð atlaga að stofnuninni ár eftir ár af Sjálfstæðisflokknum með það augljósa pólitíska markmið að síðar meir verði Ríkisútvarpið selt. Um það blandast mér enginn hugur, ég er algjörlega sannfærður um að það er sú pólitíska vegferð sem Sjálfstæðisflokkurinn er á í þessu máli og hlýtur að vera okkur leiðarljós við umræðuna.