133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:26]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Merði Árnasyni að gott hefði verið að fá það algjörlega á klárt hvenær hæstv. forseti hyggst ljúka þessari umræðu í kvöld. Það væri líka viðkunnanlegra undir þessari umræðu að hæstv. menntamálaráðherra væri í salnum við 1. umr. — Já, ágætu þingmenn, ég hef góða hliðarsjón og út undan mér sé ég hæstv. menntamálaráðherra, ég hef lítið séð til hennar í salnum í kvöld. Mér finnst það lágmarks … (Gripið fram í.) Það er nú einfaldlega þannig að ég hef verið hér í allt kvöld meira og minna. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra sé einhvers staðar hulin sjónum venjulegra manna í hliðarsölum. En það eru almennir mannasiðir í þessum sölum að hæstv. ráðherrar séu viðstaddir umræður á meðan þær er á framfæri þeirra. Fyrsta umræða er þannig.

Ég kem þó ekki hér til að kvarta undan hæstv. ráðherra því ég er löngu hættur því. Hins vegar vil ég að það komi alveg skýrt fram að þessi kvöldfundur er ekki haldinn með samþykki formanns þingflokks Samfylkingarinnar. Það er vel hugsanlegt að það hafi verið misskilningur milli mín og hæstv. forseta og annarra þingflokksformanna um hversu langt skyldi haldið á þessu kvöldi en ég hafði tekið það svo að ekki væri efnt til slíkrar umræðu. Ég er ekki að halda því fram að hæstv. forseti hafi blekkt mig eða neitt slíkt en ég skildi þetta svona. Ég vil að það komi alveg skýrt fram gagnvart þingmönnum að þessi fundur er ekki með samþykki þingflokks Samfylkingarinnar. Ég tel að það sé í þágu góðs samstarfs í þessu erfiða máli að menn reyni að komast að samkomulagi við stærsta stjórnarandstöðuflokkinn í málinu.

Ég vil líka segja, frú forseti, að það mundi henta þeim þingmönnum sem eru í salnum og eiga eftir að tala að vita nákvæmlega hvernig á að fylgja þessari umræðu fram. Ég vil líka að það komi alveg skýrt fram að ég tel að það sé ekki í þágu góðs friðar á þinginu ef það á síðan, til að klára þetta mál að kröfu hæstv. menntamálaráðherra, að halda hér kvöldfundi dag eftir dag. Ég tel, eins og fram hefur komið, að það mál sem er til umræðu væri betur geymt utan sala þingsins. Hins vegar er það svo að ég virði rétt meiri hlutans til að ná vilja sínum fram.

Við alþingismenn höfum hins vegar líka okkar rétt og alveg sama hverjar þarfir hæstv. menntamálaráðherra eru þá er það svo að í þessum sölum vinnur fjölskyldufólk og hefur líka sinn rétt til að lifa eðlilegu fjölskyldulífi en þurfi ekki að vera hér kvöld eftir kvöld í upphafi þings bara til þess að þjóna dyntum hæstv. ráðherra.