133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:33]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég bað nú um orðið áður en hæstv. forseti veitti hér örlitlar skýringar á því hvernig á því stæði að hér er kvöldfundur nú á þriðju viku þings þetta haustið. Helstu skýringar virðulegs forseta eru þær að hæstv. menntamálaráðherra hafi sýnt sérstaka lipurð hér gagnvart málum hv. þingmanna og meðal annars að vegna þess að þetta mikilvæga mál komst hér seint á dagskrá í dag þá sé eðlilegt að halda áfram.

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir að það hefði verið, vegna þess hversu seint þetta mál komst á dagskrá, allt í lagi að fara hér örlítið inn í kvöldið til þess að vinna upp þann tíma sem fór framan af fundi ef það hefði verið ætlunin að skipuleggja hér dagskrá þannig að við yrðum hér kannski fram að kvöldmat ef til þess hefði ekki komið. En ég sé ekki betur, virðulegi forseti, en að liðið sé nokkuð fram yfir þann tíma sem fór í þau mál sem hér voru fyrr rædd í dag. Klukkan tíu hefði ég haldið að væri vel rúmlega orðinn tíminn sem fór í hin málin þannig að það hefði nú verið í lagi að ljúka hér störfum um tíuleytið. En svo virðist ekki vera og virðulegur forseti gaf engar vísbendingar um það hversu lengi væri ætlunin að halda hér áfram í kvöld. Það er bagalegt.

Virðulegur forseti gaf heldur ekki vísbendingar um það hvort gert væri ráð fyrir því að haldið yrði áfram strax í byrjun fundar á morgun ef umræðu lyki ekki í kvöld og hversu lengi yrði þá fram haldið. Það vekur sérstaka athygli að þetta mál skuli keyrt svo hratt fram því að við þingmenn höfum ekki orðið varir við að slík ósköp af stjórnarfrumvörpum að minnsta kosti lægju fyrir að það þyrfti að flýta svo mjög umræðu um þetta mál. Ég geri ekki ráð fyrir því til dæmis að við þurfum allan veturinn í nefndarstörf þó að við þurfum trúlega nokkuð drjúgan tíma í nefndarstörf í menntamálanefnd. En því er ekki að neita að við höfum nokkuð fjallað um þetta mál áður þar þannig að ég get ekki ímyndað mér að við eigum ekki að minnsta kosti að ráða við það að ljúka nefndarstörfum þannig að vel fyrir vorið verðum við búin með þau störf. Ég sé því ekki að það sé heldur ástæða fyrir því að svo mikið þurfi að hraða störfum.

Ég tek eftir því að það er áberandi miklum mun minni mæting hér til dæmis af hálfu stjórnarliða úr menntamálanefnd en við höfum átt að venjast þannig að það er augljóst mál að þessi kvöldfundur kemur líka illa við ýmsa stjórnarliða sem ég trúi að hafi mikinn áhuga á því að vera hér. Ég vænti þess því að virðulegur forseti sýni þessu máli þann skilning og átti sig á því að það er ekki mjög sniðugt að egna þingheim með kvöldfundum að minnsta kosti kvöld eftir kvöld svona rétt í byrjun þings. Ég vænti þess að virðulegur forseti gefi okkur skilmerkileg svör um að þessu verði ekki miklu lengur fram haldið og þá hvenær virðulegur forseti gerir ráð fyrir að ljúka kvöldfundi.