133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:37]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nú hefur það verið rifjað upp að við höfum staðið hér í pontu allmarga klukkutíma í dag og rætt þetta mál. En ég vil minna á hvernig þessi umræða hófst hér í dag. Hún hófst á ósamkomulagi um fyrirkomulag þessarar mikilvægu umræðu.

Á dagskrá þingsins eru þrjú þingmál, í fyrsta lagi frumvarp um Ríkisútvarpið, frumvarp um Sinfóníuna og frumvarp um sjálfan grundvöll fjölmiðlalöggjafar í landinu. Stjórnarandstaðan hafði sett fram þá ósk að við hæfum umræðuna á því máli sem sett hefur verið aftast, þ.e. sem varðar sjálfan grundvöllinn, og síðan tækjum við til við að ræða hin sértæku mál, Ríkisútvarpið og Sinfóníuna.

Ég hef síðan aldrei fyrir mitt leyti fengið svör við því hvernig á því standi að stjórn þingsins og hæstv. menntmálaráðherra stendur gegn því að mál sem varða Ríkisútvarpið verði tekin til umfjöllunar samhliða umræðu um Ríkisútvarpið. Þetta skiptir mjög miklu máli þegar kemur til afgreiðslu málsins. Þegar það kemur til nefndar, þegar það er sent út til umsagnar hjá hagsmunaaðilum og þeim sem til þekkja er eðlilegt að menn hafi alla þá valkosti sem bjóðast á löggjafarsamkomunni. Þess vegna er eðlilegt að frumvörp og þingmál sem tengjast Ríkisútvarpinu í þessu tilviki verði rædd samhliða. Ég hef ekki fengið svör við því, hvorki frá hæstv. forseta þingsins né hæstv. menntamálaráðherra sem ég hef ítrekað beint spurningu til, hvort fallist yrði á þetta fyrirkomulag. Ég hef ekki fengið einu sinni svör við þessari spurningu.

Hæstv. forseti. Þetta er ástæða þess að þessi umræða hefur dregist á langinn. Við erum að sjálfsögðu ósátt við þetta frumvarp í heild sinni, frumvarpið um Ríkisútvarpið. En við höfum einnig verið að mótmæla fyrirkomulaginu á þessari umræðu og getum ekki sætt okkur við það.