133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:46]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni. Það er eðlilegt að fá skýr svör um það hvenær ráðgert er að ljúka þingfundinum. Hins vegar, svo að allir séu látnir njóta sannmælis, er í rauninni ekki við hæstv. forseta Alþingis að sakast í þessu efni. Hæstv. forseti boðaði okkur til samráðsfundar fyrir stundu og vildi leita fyrir sér um hvort unnt væri að ná einhvers konar samkomulagi. Ég sé hins vegar ekki að það sé neinn samkomulagsvilji frá hendi ríkisstjórnarinnar og frá hendi hæstv. menntamálaráðherra.

Við skulum ekki gleyma því að í þessu máli og í þessum vinnubrögðum erum við að kynnast pólitískri forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Það eru ýmis mál sem brenna á þjóðinni. Hér í dag í utandagskrárumræðum og utan dagskrár hefur verið rætt um málefni öryrkja, fátækasta hlutans í íslensku samfélagi sem er að verða fyrir kjaraskerðingu þessa dagana, nokkuð sem ríkisstjórnin gæti leyst eða bætt úr með því að flýta starfi sem fram fer um endurskoðun á samspili lífeyrissjóða og almannatrygginga. Því er öllu vikið til hliðar.

Landbúnaðarmál brenna á þjóðinni. Allt leikur á reiðiskjálfi í samfélaginu vegna hlerunarmála. Því er öllu vikið til hliðar vegna þess að ríkisstjórnin verður að ná því fram að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi. Nú er það að endurtaka sig sem gerðist í vor að öllu var sópað út af borðinu til þess að þetta pólitíska áhugamál ríkisstjórnarinnar yrði látið hafa allan forgang. Þetta erum við að upplifa núna.

Það er þess vegna sem verið er að boða til kvöldfunda og setja allt annað þingstarf úr skorðum, vegna þess að ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja þetta pólitíska gæluverkefni frjálshyggjunnar í Sjálfstæðisflokknum á oddinn. Framsóknarflokkurinn dansar að sjálfsögðu með. Margir höfðu bundið vonir við að Framsóknarflokkurinn mundi standa í fæturna í þessu máli. Nei, hann lyppast niður eina ferðina enn. Eina ferðina enn lyppast Framsóknarflokkurinn niður, leggst undir Sjálfstæðisflokkinn og gerir allt það sem honum er skipað. Það er afskaplega dapurlegt hlutskipti.