133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:53]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég hef beðið eftir því um stund að hefja ræðu mína. Ég skorast svo sem ekkert undan því að tala eitthvað inn undir miðnættið úr því að sú hefur orðið niðurstaðan að hafa kvöldfund eins og það mun hafa verið orðað. Í sjálfu sér er ég ekki alveg óvanur því að hér sé fundað á kvöldin eða þess vegna fram á nótt, en það er þá eðlileg og sjálfsögð kurteisi að slíkt sé skipulagt með sæmilegum fyrirvara og menn viti að hverju þeir gangi í þeim efnum. Ég skil kvöldfund þannig að hann standi ekki lengur en fram undir miðnættið, það er ómögulegt að líta á það öðruvísi en svo að þá sé það næturfundur ef farið er þar fram yfir. Það er engin sérstök ástæða til þess að halda kvöldfundi nema þegar þannig háttar til að orðið er knappt um tíma þingsins. Ég verð að segja eins og er að ég man ekki eftir því að gripið sé til kvöldfunda strax á fyrstu eða annarri eða þó að það sé í byrjun þriðju viku þings. Mér er nær að halda að oft hafi 2. umr. fjárlaga undir lok nóvember eða í byrjun desember verið fyrsta meiri háttar kvöld- eða næturumræða sem farið hefur fram á hverju þingi, þannig að hér er eitthvað brotið í blað. Ekki eru nú mörg frumvörp komin frá hæstv. ríkisstjórn þannig að hún ætti ekki að þurfa að fara á taugum þess vegna. Það hefði ekki átt að vera neitt vandamál að koma þessu máli og þessum frumvörpum til nefndar með eðlilegum hætti á virkum dögum.

Það sem vekur sérstaka athygli og er umhugsunarefni í þessu sambandi er sú staðreynd að hæstv. ríkisstjórn, hæstv. menntamálaráðherra, skuli nú bera þetta frumvarp um Ríkisútvarpið eina ferðina enn á borð, þriðju útgáfu þess frá því að lagt var upp, og að ekki skuli enn takast betur til en svo að um málið er bullandi ágreiningur. Það er mjög ógæfulegt að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki hafa náð landi í málinu með einhverjum hætti og náð að vinna þannig úr því að um það skapist einhver friður.

Það er óhjákvæmilegt að rifja aðeins upp samhengi þessara mála, þ.e. hvernig til tókst allt frá því að hér skall á fárviðri má segja með fjölmiðlaupphlaupinu mikla á sínum tíma undir forustu þáv. forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, Davíðs Oddssonar, sem leiddi síðan til logandi átaka hér á aukaþingi að sumri um málefni fjölmiðla og sögulegra atburða í íslenskum stjórnmálum, hrikti í innviðum ríkisstjórnarsamstarfs og stór orð féllu um samskipti þings, forsetaembættis, ríkisstjórnar og þjóðar.

Því máli lauk með algjörum ósigri ríkisstjórnarinnar. Því lauk með mjög magnaðri niðurlægingu ríkisstjórnar sem átti að heita að styddist við meiri hluta á Alþingi. Á endanum valdi ríkisstjórnin það sér til lífs — ætli megi ekki orða það þannig — að fella það mál allt saman niður. Hún þorði ekki með það í kosningar eins og stjórnarskráin þó mælir fyrir um.

Þá vöknuðu vonir um að menn hefðu svolítið lært og til stæði að vinna öðruvísi að þessum málum. Sett var á laggirnar fjölmiðlanefnd, það var strax í áttina að vinna þó að málinu með einhverjum þeim hætti að það væri vandaður faglegur undirbúningur. Síðan kom önnur nefnd, sú sem skilaði af sér mikilli skýrslu og þann afrakstur er að uppistöðu til að finna í frumvarpi til laga um breytingu á útvarpslögum sem hér liggur líka fyrir og er 58. mál þessa þings. Leit nú bara heldur betur út með að hugsanlega væri aftur hægt að ná þjóðinni saman og þingi og helstu aðilum þessa máls.

Þá kemur ríkisstjórnin undir forustu hæstv. menntamálaráðherra enn með sín frumvörp um Ríkisútvarpið og sundrar þessu öllu á nýjan leik. Og það sem alvarlegra er, það er valið að láta hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins hafa forgang fremur en að fylgja nú samstöðunni eftir úr fjölmiðlanefnd og klára það mál. Ég verð að segja eins og er að ég undrast eiginlega gæfuleysi eða lánleysi hæstv. menntamálaráðherra í þessum efnum. Það má alveg koma fram hér að ég hef líka í einkasamtölum við hæstv. ráðherra lagt að henni að velja frekar þá leið að ljúka fyrst setningu eða umfjöllun um rammalöggjöf um fjölmiðla og reyna að ná því máli í höfn. Ég tel að það hefði verið skrautfjöður í hatt hæstv. menntamálaráðherra ef hún hefði borið gæfu til að fara þá leið. Það hefði í sjálfu sér ekkert verið lítið á spýtunni ef, eftir öll ósköpin sem búin voru að ganga á í fjölmiðlamálunum, hæstv. ráðherra hefði náð að hafa síðan forgöngu um að ná mönnum saman á nýjan leik og afgreiða nýja rammalöggjöf um fjölmiðla í sæmilegri sátt. Ég sé ekki annað en að hæstv. ráðherra sé að stofna því öllu í uppnám enn á ný með þessari framgöngu. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi mögulega glutrað niður tækifæri til þess að ná þessu í land í fyrravor. Ef Ríkisútvarpsmálið hefði verið látið bíða en fjölmiðlafrumvarpið lagt fram og áhersla lögð á afgreiðslu þess hefði verið fróðlegt að sjá hvað hefði getað komið út úr því — ef ríkisstjórnin hefði ekki lagt niður skottið hér í byrjun júnímánaðar sl. og sent þingið heim, sem til stóð að yrði hér við störf í einhverjar vikur eftir sveitarstjórnarkosningar.

En hvað um það. Allur sá tími sem menn hafa haft til að reyna að sjá að sér í þessum efnum og vinna öðruvísi að málum hefur farið fyrir lítið. Þá veltir maður því fyrir sér: Hvernig stendur á því? Af hverju eru málin föst í þessum farvegi? Ég kem eiginlega ekki auga á neina nothæfa skýringu aðra en þá að Sjálfstæðisflokkurinn er með einhverja meinloku í þessu máli. Það er bara einhver meinloka í ráðandi sveit Sjálfstæðisflokksins, að það skuli breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag.

Þó að engin sérstök rök standi til þess og auðvitað minni en ekki nein og þó það sé pólitískt greinilega og bersýnilega mjög óskynsamlegt. Þó að ríkisstjórnin eða hæstv. ráðherra stofni mögulega í hættu og geri út um árangur sem gæti náðst á öðrum sviðum og í þessum málefnum í heild sinni, þ.e. með setningu almennrar fjölmiðlalöggjafar, þá er samt valið að þrjóskast áfram með hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Það hlýtur því að vera einhver algjör meinloka sem þar er á ferðum.

Ekki trúi ég að þetta sé sérstakt keppikefli hins stjórnarflokksins. Það er þá að minnsta kosti nýtt ef svo er komið að það sé orðið að hugsjónamáli hjá Framsóknarflokknum að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Það var nú eitthvað annað hér áður. Það er að vísu dapurlegt, og ég mun koma aðeins að því síðar í ræðu minni, hvert andstaðan sem framsóknarmenn einu sinni hugðust halda uppi í þessu máli hefur farið. En við skulum nú samt ætla að það sé nú ekki orðið þannig að það sé orðið sérstakt keppikefli og stefnumál hjá Framsókn að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag og undirbúa mögulega alls kyns markaðsvæðingu ef ekki einkavæðingu þess.

Nei. Þá hlýtur þetta að vera eitthvert algerlega kvikusárt meinlokumál hjá Sjálfstæðisflokknum. Það er auðvitað hægt að velta vöngum yfir því hvernig sambúð Sjálfstæðisflokksins og menningarstofnana Ríkisútvarpsins hefur verið gegnum tíðina. Það er auðvitað orðin mjög skrautleg saga sú 15 ára saga sem Ríkisútvarpið hefur verið í klóm Sjálfstæðisflokksins. Ég hef einhvern tímann orðað það þannig úr þessum ræðustóli, virðulegi forseti, án þess að vera neitt áminntur, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt Ríkisútvarpið í einelti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ástundað mjög sérkennilega húsbóndamennsku í Ríkisútvarpinu í tíð sinna menntamálaráðherra hvað varðar mannaráðningar og fleira á þeim bæ. Það er almennt viðurkennt.

Nú er það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafði lengi þá stefnu, a.m.k. harðlínumenn á þeim bæ, að í raun og veru ætti ekki að vera neitt ríkisútvarp. Það var sáluhjálparatriði t.d. hjá ungum sjálfstæðismönnum um árabil að leggja niður eða selja Rás 2. Sjálfstæðismenn hafa í raun og veru iðulega afhjúpað efasemdir sínar um þetta skipulag mála að hér sé rekið opinbert menningar-almenningsútvarp. Það hefur oft mátt ætla af framgöngu sjálfstæðismanna að þeir teldu í raun og veru að Ríkisútvarpið væri ekkert öðruvísi en hver önnur afþreyingarstarfsemi í einkafjölmiðlum og þar af leiðandi gæti þetta einfaldlega verið verkefni hjá markaðnum.

Nú er það að vísu svo að það eru ákaflega falleg orð um annað hér í frumvarpinu. Ég held að sjálfstæðismenn hafi áttað sig á því og kannski gert það upp við sig á einhverju stigi málsins að ekki væri hyggilegt, ekki pólitískt skynsamlegt að hjóla beint í Ríkisútvarpið, bara ganga beint framan að því og koma sem sagt þannig til dyranna. Og þá eru farnar einhverjar svona leiðir. En að láta það vera, láta það í friði og leyfa því að dafna sem eiginlegu ríkisútvarpi, eiginlegri sameign þjóðarinnar í einhverju því rekstrarformi eða þannig sé um það búið sem eðlilegt getur talist með hliðsjón af viðfangsefnunum, það ræður Sjálfstæðisflokkurinn ekki við. Þar kemur einhver meinloka til sögunnar. Niðurstaðan er þessi dapurlega þráhyggja með að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið.

Það er svo undarlegt að í raun og veru koma röksemdirnar gegn því að það sé heppilegt form fyrir Ríkisútvarpið úr báðum áttum, ef svo má að orði komast. Það eru ýmsir góðir og gegnir markaðssinnar og samkeppnisrekstrarsinnar á hægri væng stjórnmálanna sem hafa bent á það með mjög sannfærandi rökum að frá þeirra bæjardyrum séð, út frá þeirra hugmyndafræði sé einmitt vitlaust að þvæla menningarstofnun og almannaþjónustustofnun, eins og Ríkisútvarpið er, inn í samkeppnis- og rekstrarumhverfi. Þetta sé alls ekki svoleiðis viðfangsefni. Það spilli bara fyrir að reyna að troða viðfangsefni af þessu tagi inn í hlutafélagalöggjöfina af því að hér sé augljóslega ekki um eiginlegan og venjulegan samkeppnisrekstur að ræða og alls ekki í ábataskyni. Ríkisútvarpið er ekki rekið til að græða á því. Enda hefði það haft lítið haft upp á sig undanfarin ár. Svoleiðis hefur nú afkoman verið á þeim bænum. Ríkisútvarpið er starfrækt í allt öðrum tilgangi og það má bókstaflega ekki rugla því saman við hefðbundinn atvinnurekstur sem hefur það að meginmarkmiði, stundum kannski eina takmarkinu, að skila eigendum sínum gróða.

Arðurinn af Ríkisútvarpinu er fólginn í blómlegri og þróttmikilli starfsemi þess og að það sinni hlutverki sínu vel. Sá arður er fólginn í því að menningararfur þjóðarinnar sé þar fóstraður og nærður. Almenningur á að geta gengið að traustum, heiðarlegum, hlutlægum fjölmiðli, bæði fréttamiðli og miðli sem miðlar menningarefni og stendur fyrir dagskrárgerð. Styður við bakið á hvers kyns menningarstarfsemi og listsköpun og þar fram eftir götunum, fyrir utan auðvitað ýmis önnur hlutverk sem óumdeilt er að Ríkisútvarpið skuli hafa eins og að dreifa efni til allra landsmanna, sinna því öryggishlutverki sem Ríkisútvarpinu er uppálagt og þar fram eftir götunum.

Nú er það auðvitað ekkert nýtt að málefni Ríkisútvarpsins beri á góma og menn hafi haft hugmyndir um breytingar á starfsemi þess og löggjöf og stjórnsýslu lengi. Það er þó tiltölulega nýtt, og í raun og veru alveg nýtt, að menn ræddu þau mál og að drifkraftur þeirra hugmynda væri að viðskiptavæða eða markaðsvæða starfsemina. Í raun man ég satt að segja ekki eftir því að menn hafi talið að það væri eitthvað sem þyrfti að fást við eða væri tilefni til að gera skipulagsbreytingar gagnvart. Nei, það hafa verið hlutir eins og þeir að Ríkisútvarpið þyrfti að verða sjálfstæðara. Það þyrfti að verða öflugra. Það þyrfti að vera betur hafið yfir mögulega pólitíska íhlutun og pólitíska valdbeitingu, svo maður segi nú ekki pólitíska misnotkun. Menn hafa velt vöngum yfir því, hvernig við getum varið Ríkisútvarpið, slegið skjaldborg um það. Er það það sem er verið að gera hér með þessu frumvarpi? Nei, það er aldeilis ekki. Á margan hátt er verið að fara úr öskunni í eldinn ef þetta nýja stjórnfyrirkomulag Ríkisútvarpsins verður lögtekið.

Það liggur hér annað frumvarp fyrir þinginu, virðulegi forseti, þótt það sé nú ekki á dagskrá, sem er að mínu mati mikil yfirsjón hjá forseta að leyfa ekki öðrum þeim þingmálum sem þegar eru komin fram og meira segja með lægra þingskjalsnúmer, að vera hér að minnsta kosti inni á dagskránni. Ég á hér við 24. mál þessa þings, frumvarp sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytjum um málefni Ríkisútvarpsins. Frumvarp til breytinga á gildandi lögum nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið. Þar er lögð til allt önnur nálgun hvað varðar stjórnsýslu eða fyrirkomulag í málefnum, bæði rekstrarlegri stjórn og dagskrárstjórn Ríkisútvarpsins. Þar er verið að reyna að búa um þessa hugsun að mikilvægt sé að Ríkisútvarpið sé hvort tveggja í senn, öflug stjórnsýslueining, þ.e. hvað varðar rekstur og framkvæmdastjórn þar sem helstu yfirmenn koma að málum. Þar sem starfsmenn eiga aðild, þar sem starfsmannalýðræði er í heiðri haft og svo hins vegar mjög öflugt dagskrárráð og að þessum hlutum sé haldið aðskildum. Af hverju er það gert? Vegna þess að sú leið hefur verið farin mjög víða og hún hefur gefist vel, þ.e. að um hina menningarlegu og faglegu ákvörðunarþætti sé búið sérstaklega. Þá er hugsunin slík að þetta er að því leyti eins og fyrirtæki að það þarf að sjálfsögðu að stjórna því, starfsmannahaldi og daglegum rekstri. Það þarf að gera fjárhagsáætlun. Það þarf að starfa samkvæmt henni.

En svo koma aðilar sem spila úr þeim ramma sem til ráðstöfunar er og þar á að vera faglegt sjálfstæði. Þar þarf að geta verið menningarlegur metnaður. Hann má ekki að vera mældur einungis í krónum og aurum rekstrarmanna, peningamanna. Það fylgir því líka heilmikil dínamík, ef svo má að orði komast, heilmikill sköpunarkraftur ef vel tekst til. Að láta þannig kallast á, annars vegar rekstrarlega stjórnun og utanumhald og hins vegar skapandi og frjóa hugsun í sambandi við dagskrárgerð og framleiðslu menningarefnis. Fyrir nú utan að það er langur vegur frá slíku þar sem mikill fjöldi manna, sérfróðra aðila annars vegar á sviði rekstrar og stjórnunar og hins vegar á sviði dagskrárgerðar og menningar koma að málum og hinu að fara þá ótrúlegu leið sem hér er lögð til í frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Og hver er hún?

Hún er sú, virðulegi forseti, að í raun og veru á að fela einum manni alræðisvald í þessu fyrirtæki. Þessari stofnun sem auðvitað er rangt að kalla fyrirtæki. Ríkisútvarpið er ekkert fyrirtæki í hefðbundnum skilningi þess orðs. Það er nú einn grundvallarfeillinn að nálgast viðfangsefnið þannig. Þetta er í raun og veru menningarstofnun. Þetta er þjóðareign. Þetta er fyrirbæri sem varðar alla, sem allir vilja láta sig varða. Það er angi af mikilli ranghugsun í þessum efnum að reyna að þvinga það inn í ramma venjulegrar hugsunar um einn forstjóra sem síðan ræður og rekur og drottnar og deilir eftir eigin geðþótta.

Ég verð að segja alveg eins og er. Ég er búinn að lesa þetta aftur til að rifja upp hvort þetta væri virkilega svona með stjórnskipulag Ríkisútvarpsins ohf. Það er nú eins gott að hafa þetta rétt. Þetta er svona. Þetta er í alvöru þannig. Eftir allt talið um nauðsyn þess að gera Ríkisútvarpið sjálfstætt og óháð, eftir allt talið um — skyldu það nú ekki stundum hafa verið sjálfstæðismenn sem hafa sett á ræðurnar um hina pólitísku drottnun yfir Ríkisútvarpinu og pólitískt útvarpsráð sem lengi var mikið skammaryrði? En hvað á að gera? Á aldeilis að fjarlægja þetta? Nei. Það á að kjósa fimm manna pólitíska stjórn hér á Alþingi þannig að það verða þá þrír frá meiri hlutanum sem ráða. Þessir þrír erindrekar stjórnarflokkanna eða meiri hlutans á hverjum tíma eiga að ráða eitt stykki útvarpsstjóra sem fær nánast alræðisvald í stofnuninni. Hann, eins og segir í 10. gr., er framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins ohf. og skal uppfylla skilyrði 2. mgr. Hann er jafnframt æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar. Útvarpsstjóri ræður aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf. Það þarf ekki frekar vitnanna við. Einn maður ræður allri dagskrárgerð og ræður eða rekur alla starfsmenn.

Þetta er því eins langt frá öllu sem talist getur dreifræði, talist getur lýðræði, svo maður tali nú ekki um starfsmannalýðræði, og nokkuð getur verið. Það er eiginlega dálítið merkilegt ef ekki er hrollur í einhverjum fleirum en okkur stjórnarandstæðingum yfir því sem þarna á að fara að gera. Finnst mönnum það notaleg tilhugsun að þetta verði svona í þessari mikilvægu opinberu stofnun? Þar sem jafngríðarlega mikilvægt er að menn geti t.d. treyst því að ekki sé blandað pólitík inn í mannaráðningar. Er þá notalegt að það sé einn pólitískt ráðinn útvarpsstjóri? Því það verður hann augljóslega þegar þrír eða þess vegna fleiri mynda meiri hluta í hinu kjörna útvarpsráði, eða hinni kjörnu stjórn Ríkisútvarpsins ohf., og ráða síðan útvarpsstjórann sem fær slíkt alræðisvald.

Nei. Ætli væri þá ekki þess virði að minnsta kosti að velta því fyrir sér hvort ekki væri gott fyrir Ríkisútvarpið að einhvern veginn öðruvísi væri að þessu staðið? Gæti nú ekki verið gott fyrir Ríkisútvarpið að það væri betur varið fyrir þó ekki væri nema tortryggni og ásökunum sem líklegt er að þetta fyrirkomulag bjóði upp á. Menn gleyma því oft að þegar menn eru að velta fyrir sér umbúnaði um hluti af þessu tagi er það ekki endilega vegna þess að menn gefi sér að vald af þessu tagi verði misnotað. Það þarf ekki endilega til. Það getur verið meira en nógu skaðlegt ef tortryggni ríkir um að svo sé. Þess vegna þarf fyrirkomulagið helst að vera hafið yfir vafa í þeim efnum. Ég held að það verði seint hafið yfir vafa ef staðið verður svona að málum ef það liggur nú í loftinu, ef menn hafa það á tilfinningunni að ráðningin sé pólitísk. Það sé fyrir fram ákveðið jafnvel. Þannig að auglýsingar, ef þær verða nú viðhafðar, eða hvað það nú er, séu til málamynda o.s.frv.

Það hefur ekki verið svo lítið af stórbrotnum pólitískum ráðningum hér að undanförnu eða embættaveitingum hjá ríkisstjórn. Það yrði ekkert skrýtið þó þjóðinni dytti það í hug að að minnsta kosti í höndum sömu valdhafa, ef þeim endist aldur til, yrði þetta með svipuðum hætti. Fara menn ekki létt með að ráða rammpólitískt í embætti útvarpsstjóra þegar þannig er ráðið í embætti t.d. seðlabankastjóra? Þó þar standi í lögum að það sé ákaflega mikilvægt að Seðlabankinn sé óháður stjórnvöldum og hann hafi á grundvelli núgildandi laga algerlega sérstaklega valdaða sjálfstæða stöðu gagnvart ríkisstjórn? Það var hugsun allra að það þyrfti að segja skilið við þá tíma að stjórnvöld gátu beinlínis verið með puttana í hagstjórn Seðlabankans. En við vitum nú hvernig ráðið var þar síðast þegar embætti losnaði.

Þannig að þetta fyrirkomulag, herra forseti, er ekki gæfulegt. Ég held að öll rök skorti til að hafa þetta svona. Ef þetta væri fyrirtæki í grimmri samkeppni við að framleiða einhverja staðlaða vöru og það þyrfti að mati manna að geta gripið til harkalegra ráðstafana í starfsmannahaldi sínu, rekið og ráðið á víxl eftir því hvernig sveiflur væru á samkeppnismarkaði með einhvern varning eða einhverja þjónustu, gætu menn sjálfsagt trúað á þannig fyrirkomulag, sótt sér einhver rök í að þar yrði að vera valdamikill forstjóri sem gæti dregið starfsemina sundur og saman og haft hlutina eins og honum hentaði — ráðið og rekið á víxl, deilt og drottnað. Það er að mínu mati ekkert sérstaklega gæfuleg aðferðafræði en sumir trúa á hana.

En þetta er bara ekki svoleiðis starfsemi. Við ætlum Ríkisútvarpinu ekki að vera undirorpið einhverjum átökum og sviptingum dag frá degi og ár frá ári. Það á þvert á móti að vera algjörlega öruggt. Það er mjög mikilvægt að þar ríki stöðugleiki og festa. Þar sé atvinnuöryggi og fólk sé sæmilega tryggt með störf sín. Það verður alltaf þannig að fréttamenn, jafnvel þótt vandaðir og hlutlægir séu fram í fingurgóma, komast ekki hjá því — sérstaklega ef þeir standa fyrir gagnrýnni fréttamennsku sem er jú eitt aðalsmerki góðrar fréttamennsku — að fréttir þeirra séu í bland hæfilega gagnrýnar. Það verður aldrei hjá því komist að um þá blási einhverjir vindar. Þá er mjög mikilvægt að þeir séu vel varðir, að þeir séu öruggir og það sé ekki bara hægt að taka þá úr sambandi.

Hvernig ætla menn að tryggja, ef svona geðþóttafyrirkomulag er orðið innbyggt í lögunum hvað varðar mannahald, að ekki verði meiri hætta á árekstrum af því tagi eða að minnsta kosti tortryggni? Nú tek ég það skýrt fram að að sjálfsögðu er engin ástæða til — og ég er ekki að ræða þetta hér út frá einhverjum einstökum starfsmönnum, hvorki yfirmönnum né fréttamönnum — að lesa út úr þessu einhver skilaboð um þá menn sem þarna eru við störf núna eða þá sem kunna að verða það á næstu missirum. Þetta snýst ekki um persónur eða einstaklinga. Þetta snýst um fyrirkomulag. Þetta snýst um að menn reyni að hafa hlutina þannig að það fyrirbyggi árekstra, fyrirbyggi vandræði og að þeir búi vel um hnútana.

Ríkisstjórnin er með þetta mál sitt þannig úr garði gert að við erum hér í október að ræða um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið og að stofna skuli Ríkisútvarpið ohf. og það taki til starfa 1. janúar nk. Ég verð nú að segja eins og er að mér finnst menn ætla að vera býsna snöggir að drífa í að stofna þetta hlutafélag. Ef við segjum nú kannski að þingið teldi sig geta afgreitt þetta mál í desember, sem mér finnst nú reyndar ólíklegt, ætla menn þá virkilega að hafa það þannig að skella þessu í gang strax um áramótin? Að útvarpsstjóri verði bara rétt að byrja áramótaávarpið þegar hann breytist allt í einu í hlutafélag, og allt sem undir honum er? Nei. Ég hefði talið að það væri þá ástæða til að leggja ferlið eitthvað öðruvísi og betur yfirvegað upp. Og aðra grundvallarbreytingu á að gera. Það eru kannski fyrst og fremst þrír hlutir sem eru langstærstir og veigamestir í þessu máli. Það er formbreytingin yfir í hlutafélag, það er stjórnarfyrirkomulagið og það er tekjustofninn, það er nefskatturinn.

Það mál er svo illa unnið eða umdeilt eða heitt, eða hvað við eigum að kalla það, að það á ekki að reyna að koma því til framkvæmda fyrr en tveimur árum síðar. Nú eru ýmis rök fyrir því að það þurfi að undirbúa. En ríkisstjórnin ætlar ekki að fara í þann storm. En hún telur sig geta dengt Ríkisútvarpinu yfir í hlutafélag kannski bara á nokkrum dögum á jólaföstunni.

Ekki á nú heimanmundurinn að vera glæsilegur satt best að segja. Nú er það svo að Ríkisútvarpið hefur búið við miklar þrengingar í afkomu sinni um langt árabil. Það er í raun sorgarsaga hversu illa hefur verið búið að því. Það hefur alls ekki haft fjármuni handa á milli til að bæta dreifikerfi sitt og byggja sig upp þannig, þjónusta landsmenn betur hvað það varðar. Það eru allt of léleg hlustunarskilyrði víða um landið og sendar lélegir. Þetta þekkja menn. Svo hefur afl Ríkisútvarpsins til metnaðarfullrar innlendrar dagskrárgerðar verið allt of lítið.

Er þá verið að veifa einhverri myndarlegri gulrót í þessu frumvarpi um bætta tíma í þessum efnum? Ekki sé ég það nú. Ég sé ekki betur en að til standi að stofna þetta hlutafélag með 5 millj. kr. í hlutafé. Það eigi að leggja Ríkisútvarpinu til, væntanlega úr ríkissjóði, 5 millj. kr. Afganginn á þá bara að taka úr útvarpinu sjálfu, þ.e. breyta eftir atvikum í hlutafé eða hafa sem dulda eign inni í fyrirtækinu þau verðmæti sem þar eru.

Þó þau séu vissulega mikil í vissum skilningi, þ.e. byggingar, lóðir og annað sem er nauðsynlegt fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins, eru þau í raun og veru óeiginleg verðmæti, þ.e. ef menn ætla ekki að selja þau. Reksturinn og afkoman og það fé sem þar er og þær skuldir sem þar er að finna eru veruleikinn sem menn standa frammi fyrir í hinum daglega rekstri. Nema að ætlunin sé að selja þá eignir og ná upp fé í fyrirtækinu þannig, ná upp haldbæru fé þannig. Þá er náttúrlega heiðarlegra að segja það. Ég held að aðstandendur frumvarpsins verði að skýra betur hvernig þetta á að ganga upp ef þeir ætla að telja einhverjum einasta manni trú um að það verði til góðs fyrir stofnunina að breyta þessu á þennan hátt. Og einhver lítils háttar tekjuauki, sem reiknaður er út í forsendum frumvarpsins hvað varðar álagningu nefskatts frá og með 2009, er nú sýnd veiði en ekki gefin, enda stendur beinlínis í frumvarpinu, eða fylgiskjali með því, að það verði nú að endurreikna það þegar nær dragi.

Ég hef heyrt að sú gulrót sem helst sé veifað framan í einn og einn mann, þegar menn eru teknir undir fjögur augu og rætt við þá um þessa breytingu, sé sú að Ríkisútvarpið fái svigrúm til að hækka kaupið hjá sumum starfsmönnum sínum. En hvar á þá að taka það? Með því að segja öðrum upp? Ekki vaxa peningarnir við að velja út einhverja tiltekna gæðinga og hækka hjá þeim laun? Það er það sem hefur gerst þegar ríkisfyrirtækjunum hefur verið breytt í hlutafélag. Hvað gerðist hjá Pósti og síma? Það var nákvæmlega það sem gerðist. Það rokhækkaði kaupið hjá æðstu yfirstjórn. Þeir fengu fín farartæki og hvað það nú var. En það var þá frekar á kostnað hins að lágtekjufólki var sagt upp á hinum endanum. Er það þannig framfaraþróun sem menn sjá fyrir sér í Ríkisútvarpinu? Halda menn að það verði gott fyrir starfsmannamóralinn? Nei. Ég held að menn þyrftu að gá betur að sér í þeim efnum.

Ég minntist á það fyrr í ræðu minni, virðulegi forseti, að það hefði verið dapurt að sjá Framsóknarflokkinn kokgleypa þessa hlutafélagavæðingu eins og svo margar aðrar. Það þarf nú bráðum að fara að skrifa þessa sögu, áður en Framsóknarflokkurinn er horfinn í meira mæli en orðið er héðan af vettvangi, sá sem ber á þessu ábyrgð. Ég er að tala um þá sem hafa staðið hér fyrir stefnumálum hans undanfarin ár. Þeir hafa verið að týna tölunni hér í þingsölum eins og kunnugt er að undanförnu sumir. Að rifja þetta nú upp hvernig Framsókn hefur staðið eða öllu heldur ekki staðið við stóru orðin í hverju málinu á fætur öðru. Þar sem framsóknarmenn hafa iðulega fyrir kosningar lofað að ekki kæmi til greina að einkavæða þetta eða selja hitt. Ég man í fljótu bragði ekki eftir einu einasta atriði sem hefur staðist, ekki einu einasta atriði.

Það stóðst ekkert af því sem sett var inn í forsendur t.d. frumvarpa um breytingar á fjárfestingalánasjóðum atvinnuveganna sem síðan runnu inn í bankana. Það stóðst ekkert af því. Það stóðust meira að segja ekki greinargerðir stjórnarfrumvarpa þar sem voru gefin, að því er virtist, bindandi loforð um að t.d. yrði eignarhlutur ekki seldur fyrstu fjögur árin. Það stóðst ekki. Hvernig var þetta með Símann? Það var lengi stefna Framsóknarflokksins að ekki kæmi til greina að einkavæða hann. Svo kom millileikurinn. Í ein tvö, þrjú ár var Framsókn með þá stefnu að það kæmi út af fyrir sig til greina að selja Símann en ekki grunnnetið. Það hélt kannski í tvö ár. Gott ef Framsókn fór ekki í gegnum einar kosningar á því varadekki að þeir mundu ekki láta selja grunnnetið. Þið megið treysta okkur með það, sögðu framsóknarmenn kjósendum og margir glöptust. Svo var það auðvitað gefið eftir. Það var kokgleypt.

Hvað er Framsókn búin að segja um Ríkisútvarpið? Það eru ekki nema einhver missiri síðan, ekki mörg, mánuður jafnvel, framsóknarmenn sögðu að það kæmi aldrei til greina að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Þeir töluðu um sjálfseignarstofnun held ég mjög mikið. Svo töldu þeir sig hafa gefið eftir og samþykktu að þetta yrði sameignarfélag. Gott ef þeir hrósuðu sér ekki af því að þeir hefðu náð þeim mikla árangri að koma í veg fyrir að Ríkisútvarpið yrði að hlutafélagi. Það yrði sameignarfélag. Ég held að ég muni eftir svoleiðis ræðu.

En nú er svo komið að Framsóknarflokkurinn er ábyrgur fyrir stjórnarfrumvarpi um að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag, (Gripið fram í.) opinbert, sem breytir nú ósköp litlu, hv. þingmaður. Því satt best að segja var sú löggjöf, ef löggjöf skyldi kalla, óskaplegt yfirklór. Það hefði vissulega getað skipt máli ef hér hefði verið sett öflug löggjöf sem hefði slegið skjaldborg um opinber fyrirtæki og þá auðvitað fyrst og fremst hugsuð til að búa um fyrirtæki sem eru eiginleg fyrirtæki í venjulegum rekstri en eru í eigu opinberra aðila. Hefði slík löggjöf virkilega skipt máli hefði mátt athuga það. En Ríkisútvarpið hefði eftir sem áður ekkert erindi átt inn í það umhverfi.

Það er ekki einu sinni svo því hún var óskaplega loppin sú löggjöf sem kunnugt er. Snýst aðallega um að menn megi mæta á aðalfundi og bera þar upp spurningar og hvað það nú er.

Þannig er þetta nú því miður að Framsókn er að leka niður í þessum efnum. Er það þá nokkuð skrýtið þó menn séu tortryggnir í ljósi þess hvernig sporin hræða? Í ljósi þess að það hefur aldrei verið neitt að marka svardaga og fyrirheit um að t.d. breytingar í hlutafélög af þessu tagi væru ekki undanfari einkavæðingar. Hér stóð samgönguráðherra í ræðustóli á tíunda áratugnum, hv. þm. Halldór Blöndal, og sór og sárt við lagði að aldrei kæmi til greina að einkavæða Póst og síma. Póstur og sími yrði að vísu gerður að hlutafélagi en það yrði bara eitt hlutabréf í því. Eins og allir sæju þá væri ekki hægt að skipta því. Maður fékk það eiginlega á tilfinninguna að hlutabréfið ætti að vera úr ryðfríu stáli til að ekki yrði hægt að skipta því. En hvað gerðist? Það stóð nú ekki lengi sá svardaginn að ekki yrði hróflað við Pósti og síma. Honum var skipt upp og síðan einkavæddur eins og kunnugt er, þ.e. símahlutinn.

Herra forseti. Það er mjög dapurlegt að svona skuli vera komið með málefni Ríkisútvarpsins. Þetta er stofnun sem er býsna djúpt í þjóðarsál Íslendinga, alla vegana eldra fólks. Því er almennt mjög annt um Ríkisútvarpið enda ólst það upp við að tilkoma þess og uppbygging var stór hluti af menningarlegri og efnahagslegri endurreisn þjóðarinnar. Gamalt fólk eins og móðir mín rifjar upp sögur af því þegar það reið milli bæja með rafhlöður til að hlaða þær þar sem voru rafstöðvar svo hægt væri að hlusta á útvarpið. Menn lögðu mikið á sig og það voru hátíðisstundir þegar vissir dagskrárliðir voru í útvarpinu.

Ég kynntist líka mörgum góðum starfsmönnum og hef gegnum tíðina kynnst mörgum góðum starfsmönnum af Ríkisútvarpinu og vann þar reyndar sjálfur um skeið. Ég á marga vini sem þar unnu eða átti. Ég held að ég hafi varla í annan tíma upplifað jafnmikla væntumþykju gagnvart sínum vinnustað eins og mjög margir af mætum starfsmönnum Ríkisútvarpsins sýndu. Þeim var Ríkisútvarpið ákaflega hjartfólgið og þeir lögðu mikið á sig fyrir það. Margir þjóðþekktir menn sem unnu þar um áratugaskeið og voru sumir áberandi og fyrirferðarmiklir í þjóðlífinu af ýmsum ástæðum, en áttu það sameiginlegt, þrátt fyrir gjörólíkar skoðanir á mönnum og málefnum og pólitík, að þeir voru allir miklir útvarpsmenn og unnu þeirri stofnun. Þeir hefðu viljað og vilja hafa um hana frið, að hún sé hafin yfir deilur.

Þess vegna verð ég að segja alveg eins og er, með fullri virðingu fyrir okkar ágæta menntamálaráðherra hæstv., að mér finnst ekki nógu gott að hún skuli lenda í þessu og ekki finna sér einhverja leið í land með málefni Ríkisútvarpsins og hafa það í svona illdeilnafarvegi.

Er það mjög gæfulegt núna rétt fyrir kosningar, herra forseti, að hæstv. menntamálaráðherra skuli hafa þetta þannig? Eigum við þá ekki bara frekar að láta málið liggja og leyfa nýjum þingmeirihluta og nýjum stjórnvöldum að gera aðra tilraun? Að láta á það reyna hvort hægt er að fara leiðir sem tryggja meiri sátt um málefni Ríkisútvarpsins. Það er engum til góðs að hafa þau í bullandi ágreiningi.

Segjum nú að það verði, sem maður sannarlega vonar, stjórnarskipti í landinu næsta vor. Hvað hefur þá hæstv. menntamálaráðherra unnið með því að þræla hér á allra síðustu metrum sínum í embætti og þessarar ríkisstjórnar deilumáli af þessu tagi um Ríkisútvarpið í gegnum þingið? Ég sé það ekki. Ég sé ekki að það geti verið til nokkurs gagns og fyrst og fremst málefnum þessarar stofnunar til ógagns. Menn bera ríkar skyldur hvað það varðar að skapa þessari stofnun starfsfrið og búa sæmilega að henni.