133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:38]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins fá að svara þessu þar sem umræða okkar er farin að snúast um Símann. Það er nú ekki alveg rétt sem hv. þingmaður segir um að ekkert hafi gerst í því að byggja frekar upp dreifikerfið vegna þess að við vitum að það eru nokkur svæði, t.d. í okkar ágæta kjördæmi, þar sem dreifikerfið hefur verið bætt aðeins, ég get til að mynda minnst á Jökuldalinn og uppi á Háreksstaðaleið. En ég ætla ekki að fara nánar út í það vegna þess að ég ætla ekki að fara að verja allt sem Síminn hefur verið að gera upp á síðkastið, en það má líka minna á það sem hann var alls ekki að gera áður en hann var seldur.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að fyrir liggi fyrir hver vilji stjórnmálamanna er varðandi Ríkisútvarpið þegar farið er með það í gegnum svona ferli. Ég vil meina að fyrir liggi skýr vilji stjórnvalda um að ekki standi til að selja Ríkisútvarpið. Það er enginn pólitískur vilji fyrir því að selja það. Örfáir þingmenn hafa talað fyrir því á hinu háa Alþingi og þeir eru í miklum minni hluta, til að mynda vill enginn í mínum þingflokki selja Ríkisútvarpið. Það eru örfáir aðilar innan Sjálfstæðisflokksins og ég veit ekki um neinn innan stjórnarandstöðunnar.

Ég held að þessi skýri vilji liggi fyrir: Ríkisútvarpið er ekki til sölu og verður ekki. Ég sagði það í fyrri andsvörum mínum í dag að eins og markaðurinn hefur verið að þróast og umhverfið á fjölmiðlamarkaði þá er ríkisrekinn fjölmiðill að styrkja sig og það mun verða svo í framtíðinni, ég er alveg handviss um það. Ég ítreka því að það er enginn pólitískur vilji fyrir sölu á Ríkisútvarpinu.