133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

rannsóknir á meintum hlerunum – áhrif Kárahnjúkavirkjunar á efnahagslífið.

[13:46]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Fyrst um málsmeðferð. Þetta er liðurinn um störf þingsins. Ég sé ekki að menn hafi hingað til verið að ræða um störf þingsins. Þetta er fyrirspurn til ráðherra og menn eru að ræða hleranir úti í bæ, ég vissi ekki að það tilheyrði liðnum um störf þingsins.

Ég ætla hins vegar að tala um störf þingsins og ræddi það í morgun við þingflokksformann minn. Ég ætla að ræða um störf efnahags- og viðskiptanefndar sem hélt fund í morgun að beiðni hv. fulltrúa Vinstri grænna í nefndinni um efnahagsleg áhrif Kárahnjúkavirkjunar og álversframkvæmda á Austurlandi sem ég sem formaður nefndarinnar féllst á að ræða. Við fengum til okkar gesti frá greiningardeildum bankanna þriggja, Seðlabanka Íslands og kennara frá Háskóla Íslands. Niðurstaðan varð sú að áhrif þessara virkjana á þenslu og verðbólgu eru miklu minni en menn höfðu búist við, jafnvel minni en helmingur, og að óskyld atriði eins og vaxtalækkun á lánamarkaði í íbúðalánum, sem er að sjálfsögðu mjög jákvætt fyrir landsmenn, hafi ekki síður áhrif á þenslu og verðbólgu.

Þá kom einnig fram á fundinum að innflutningur á erlendu vinnuafli hefði breytt þessari þenslu í þjóðarframleiðslu, sem er líka mjög jákvætt. Ég vildi því upplýsa þingheim um niðurstöðuna af starfi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun, sem er um störf þingsins. (Gripið fram í: Er hægt að sækja um að vera gestur nefndarinnar?)