133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

rannsóknir á meintum hlerunum – áhrif Kárahnjúkavirkjunar á efnahagslífið.

[13:53]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil andmæla því að ríkisstjórnin hafi staðið gegn því að þessi mál verði upplýst. Ríkisstjórnin flutti tillögu á sl. vori til þingsályktunar um að skipuð yrði sérstök nefnd. Síðan hefur ríkisstjórnin líka beitt sér fyrir því að hér hefur verið samþykkt frumvarp sem veitir þessari nefnd aukið umboð til þess að ljúka störfum sínum á þann veg sem viðunandi er talið. Einnig hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir því að menn fái aðgang að skjölum í Þjóðskjalasafninu og úrskurður menntamálaráðherra um það svarar kröfu einstaklings að því leyti. Síðan hefur ríkissaksóknari ákveðið að rannsaka sérstaklega þá þætti sem síðast hafa verið til umræðu í þessu máli.

Það er því algjörlega röng mynd dregin upp ef menn tala um að ríkisvaldið standi í vegi fyrir því að þessi mál séu rannsökuð. Það er algerlega á valdi Alþingis, þegar niðurstöður í þessum rannsóknum liggja fyrir, að taka ákvarðanir um það og þar getur ríkisstjórnin haft frumkvæði eins og aðrir ef menn telja að stíga þurfi einhver frekari skref.

Ræða hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar sannaði enn betur fyrir mér að það er ekki sambærilegt sem gerðist í Noregi og hér á landi. Að lesa bækur um Noreg og ætla að heimfæra það yfir á Ísland í þessu tilliti sýnir bara að menn hafa gott hugmyndaflug, en þeir líta þá ekki til þess sem fram hefur komið hér á landi varðandi þessa þætti og liggur nú þegar fyrir. Það að ætla að flytja vandamál Norðmanna hingað inn í þingsalinn er alveg fráleitt þegar er verið að ræða þessi mál og gefur algerlega ranga mynd af því sem gerðist í Noregi. (Gripið fram í.)