133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

framtíð hvalveiða við Ísland.

[14:05]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Meiri hluti Alþingis ákvað árið 1983 að mótmæla ekki samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um bann við hvalveiðum. Þetta bann stendur sem kunnugt er enn þá. Íslensk stjórnvöld ákváðu árið 1992 að ganga úr ráðinu og svo í það aftur árið 2002 með yfirlýsingu um að ríkið hygðist virða bannið til sumars 2006 að minnsta kosti. Á grunni þeirrar yfirlýsingar ræðum við nú um leyfi til hvalveiða.

Rétt er að muna að þessi yfirlýsing var og er einstæð. Líklegt er að réttur til hvalveiða í krafti yfirlýsingarinnar verði vefengdur jafnskjótt og slíkar veiðar hefjast. Við getum ekki vænst þess að alþjóðasamfélagið telji yfirlýsinguna gefa okkur skýlausan rétt til að rjúfa bannið sem samþykkt var eða ekki var mótmælt hér árið 1983.

Ekki þarf að rekja hér þann vanda sem nú getur komið upp, margvíslegan skaða fyrir ímynd lands og þjóðar, álitshnekki og mótbyr fyrir Íslendinga í alþjóðastarfi, vandræði á helstu fiskmörkuðum, tjón í ferðaþjónustu, að ógleymdum erfiðleikum eða uppgjöf við hvalaskoðun sem víða um landið hefur auðgað atvinnulíf á síðari árum.

Við eigum að standa á rétti okkar til að nytja allar auðlindir lands og sjávar án rányrkju með virðingu fyrir móður náttúru og í samstarfi við aðrar þjóðir þegar um far- eða flökkustofna er að ræða. Er slíkt samstarf hafið nú?

Okkur er líka lífsnauðsyn, fámennri þjóð, að bera virðingu fyrir alþjóðlegu samkomulagi. Það eina sem getur réttlætt að brjótast út úr ramma alþjóðareglna er að um lífsgrundvöllinn sjálfan sé að tefla. Það var málstaður okkar í landhelgismálinu forðum. Er svo komið nú?

Forseti. Ég tel að ríkisstjórnin hafi ekki sýnt skynsemi í þessu máli. Ég gagnrýni skort á samráði við alla nema einn tiltekinn hagsmunaaðila og ég óttast afleiðingarnar fyrir atvinnulíf okkar og þjóðlíf.