133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:08]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason segir það óheiðarlegt af hálfu stjórnarandstöðunnar að gefa í skyn að verið sé að leggja drög að sölu Ríkisútvarpsins með frumvarpinu. Það sem við höfum sagt er að með frumvarpinu er verið að stíga skref í þá átt þótt það vaki ekki fyrir núverandi meiri hluta að selja Ríkisútvarpið á þessu stigi. Það eru hins vegar ýmsir aðrir, sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins, sem eru áhugasamir um slíkt.

Hv. þm. Hjálmar Árnason vísaði í hæstv. menntamálaráðherra sem sagði í framsöguræðu sinni að frumvarpið væri sett fram til að styrkja Ríkisútvarpið og hv. þingmaður sagði að það þjónaði öðrum hvötum að halda öðru fram. Þetta er náttúrlega ekki gott innlegg í málefnalega umræðu. Við höfum reynt að færa rök fyrir okkar máli, að þetta frumvarp sé ekki til þess fallið að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins.

Telur hv. þm. Hjálmar Árnason að fjárhagsleg staða Ríkisútvarpsins verði betri með þessu frumvarpi? Munu meiri peningar koma inn til stofnunarinnar eða verður fjárhagur hennar rýmri á einhvern hátt? Er það í samræmi, vil ég enn fremur spyrja, við hugmyndir Framsóknarflokksins um lýðræði að fela einum kapteini, eins og hv. þingmaður komst að orði, yfirstjórn yfir öllu mannahaldi og allri dagskrárgerð og hafa þann sama kaptein síðan háðan flokkspólitísku útvarpsráði sem ræður hann og rekur, getur rekið hann? Er það lýðræðislegt að það flokkspólitíska ráð endurspegli stjórnarmeirihlutann á hverjum tíma? Er þetta í samræmi við hugmyndir Framsóknarflokksins um lýðræði?

Er Framsóknarflokkurinn einhuga um nefskattinn? Er það áhugamál Framsóknarflokksins að leggja nefskatt á alla Íslendinga til að fjármagna þessa stofnun? Að lokum vil ég spyrja: Telur hv. þingmaður að um það muni ríkja þjóðarsátt að greiða slíkan skatt í stofnun sem hefur verið fjarlægð almannavaldinu eins og gert er með þessu frumvarpi?