133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:17]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Til að svara fyrst hvernig framsóknarmenn breyttu um skoðun, eins og hv. þingmaður nefndi, þá er þetta að verða 90 ára gamall flokkur og til allrar hamingju hefur flokkurinn reynt að laga sig að breyttum tímum í samfélaginu.

Ég nefndi áðan að á síðustu a.m.k. þremur flokksþingum hafa vinnuhópar unnið saman, en eins og gengur og gerist á flokksþingum skiptast flokksþingsfulltrúar í hópa. Sérstakur vinnuhópur fjallaði um Ríkisútvarpið og á síðasta flokksþingi varð það niðurstaða þess vinnuhóps að breyta afstöðu flokksins m.a. á grundvelli þeirrar reynslu sem hefur fengist af hlutafélögum. Þá svara ég næstu spurningu þegar hv. þingmaður spyr: Hvar hefur það gefist vel að vera með hlutafélög? Ég held að nægjanlegt sé að vísa hv. þingmanni á umhverfi okkar, að í öllu okkar umhverfi hafa einmitt hlutafélög verið að ryðja sér til rúms vegna þess að þeir sem standa í rekstri telja að það form sé heppilegast, það sé sveigjanlegast og fljótast að bregðast við í hörðu samkeppnisumhverfi. Og ef einhvers staðar ríkir hörð, miskunnarlaus og grimm samkeppni þá er það í fjölmiðlaheiminum. Ríkisútvarpið, þessi þjóðargersemi, þarf auðvitað að geta brugðist við í hinni hörðu samkeppni um hlustendur og áhorfendur. (Gripið fram í: Þetta eru klisjur.) Það eru engar klisjur. Það er samkeppni.