133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:21]
Hlusta

Árni Steinar Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason talar mikið um gæði hlutafélagaformsins. Ég held að á hinu háa Alþingi séu menn yfir höfuð ekki ósammála um að gæði hlutafélagaformsins eru mikil. En hér erum við að tala um almannaþjónustu og almannarekstur sem allt önnur lögmál eiga og skulu gilda um.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Hann segir að hægt sé að fara með sölu á fyrirtæki eins og Ríkisútvarpinu beint í gegnum fjárlög. Hvers vegna er það þá að í máli eftir mál styður Framsóknarflokkurinn aðför að sölu með því að hlutafélagavæða fyrst, og tökum við nú fyrirtækin eitt af öðru?

Það stóð upp úr framsóknarmönnum í umræðu um Landssíma Íslands að hann ætti ekki að hlutafélagavæða og að minnsta kosti ætti að skilja grunnnetið eftir í almannarekstri. En Framsóknarflokkurinn hefur í þessu máli eins og öðrum skipt um skoðun á ótrúlega stuttum tíma, og þá spyr maður: Ef það er svona auðvelt að fara með þetta í gegnum fjárlögin, af hverju er það ekki gert? Og ég vil svara án þess kannski að hafa heyrt svar hv. þingmanns, að Framsóknarflokkurinn treystir sér ekki með þessi fyrirtæki í beina sölu. Það þarf að vera aðlögun. Það þarf að vera ráðrúm til að segja: Við ætluðum ekki að gera þetta. En gerðu það samt, nokkrum mánuðum seinna. Og þá helst eftir nýafstaðnar kosningar.

Ég spyr því hv. þingmann: Er Framsóknarflokkurinn orðinn afhuga t.d. því rekstrarformi sem var flaggskip hreyfingarinnar á sínum tíma, samvinnuforminu?