133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:45]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú farið að kólna í neðra þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson er farinn að gera Þorstein Pálsson, fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins, að talsmanni sínum. En öðruvísi mér áður brá. Það er ágætt.

Mig langar að víkja áfram að hinni pólitísku stjórn. Eins og ég sagði áðan er gert ráð fyrir að ríkið eigi þetta fyrirtæki. Það er eðlilegt að stjórn félagsins sé skipuð fulltrúum frá eigandanum. Ég geri engar athugasemdir við það.

En við erum hins vegar að fjalla um hvað þessi stjórn á að gera. Hún á að ráða útvarpsstjóra og leysa hann frá störfum, ákveða laun hans og önnur starfskjör og taka síðan ákvarðanir um rekstur, lántöku o.s.frv., sinna störfum sem stjórnir í venjulegum hlutafélögum gera. Ekkert umfram það. Ég geri engar athugasemdir við það, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson, að stjórn fyrirtækis hafi heimildir (Forseti hringir.) til að ráða og reka stjórnendur í félagi, hvort (Forseti hringir.) sem það er í Ríkisútvarpi eða annars staðar. (Forseti hringir.) Mér finnst óeðlilegt að starfsmenn hjá Ríkisútvarpinu, (Forseti hringir.) eins og framkvæmdastjóri þess, sé æviráðinn.