133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:49]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að í fyrirkomulagi og skipan stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. felist enginn alvarlegur ágalli í þessu frumvarpi, eins og hv. þingmaður hélt fram. Ég var að reyna að skýra það út í fyrra andsvari í þessari umræðu að auðvitað er eðlilegt að það sé fulltrúi hluthafans, sem í þessu tilfelli er einn, sem skipi þá aðila sem sitja í stjórninni. Þannig er það í öllum hlutafélögum.

Í hlutafélögum eru það fulltrúar hluthafanna sem skipa menn í stjórnir. Það sama gildir hér. Það vill hins vegar þannig til að hluthafarnir eru býsna margir og hluthafinn að mörgu leyti dálítið óskilgreindur. Hann er ríkið.

Hverjir eru það sem fara með hagsmuni ríkisins og hagsmuni almennings í þessu máli? Það er Alþingi og ríkisstjórn. Því er eðlilegt að Alþingi sem fulltrúi almennings, fulltrúi ríkisins, skipi fulltrúa í stjórnina. Mér finnst það liggja í augum uppi og vera eðli málsins samkvæmt.

Hér var vikið að hlutdeild þessa félags á auglýsingamarkaði og kallað eftir pólitískri réttlætingu. Ég get ekki séð að neitt í þessu frumvarpi leiði til þess að verið sé að veita einkareknu fyrirtækjunum þyngra högg en þeim er veitt nú. Ég hef alltaf verið opinn fyrir því að skoða þann möguleika að takmarka hlutdeild Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Eins og hv. þingmaður veit hefur ekki skapast um það (Forseti hringir.) pólitísk sátt.