133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:56]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki alveg hverju ég á að svara. Ég vil frekar eiga orðastað við forseta. Hingað upp í ræðustól kemur hv. þm. Mörður Árnason og lýsir málflutningi mínum í þessu máli þannig að ég hafi komið hingað upp eins og hver annar aumingi. Við erum að ræða um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. og þingmenn þurfa að sæta því að vera kallaðir aumingjar. Í mínum bókum og samkvæmt mínum skilningi á þeim þingskapalögum sem eru í gildi í landinu eru þessi ummæli vítaverð.

Ég óska eftir því að hæstv. forseti taki þau til gagngerrar skoðunar og taki ákvörðun um hvort víta beri þingmanninn fyrir slík ummæli. Að ganga svona upp í ræðustól Alþingis og kalla menn aumingja er fyrir neðan allar hellur og fyrir neðan virðingu hv. þingmanns og fyrir neðan virðingu þessarar stofnunar, hins háa Alþingis.

Ég vildi koma þessari athugasemd minni á framfæri. Ég mun ekki svara neinum spurningum sem frá þessum hv. þingmanni hafa komið í þessari umræðu. Þær eru kannski til marks um það á hvaða grundvelli og á hvaða nótum stjórnarandstaðan ætlar að fjalla um þessi mál. Þar með er það komið í ljós að enginn sáttargrundvöllur er í málinu. Ég hef að minnsta kosti fyrir mína parta enga ánægju eða vilja til að eiga samstarf við menn og gera einhverja sátt, eða reyna að lægja öldur, við hv. þingmenn sem kalla mig aumingja.

En verði honum að því að gera það með þessum hætti. Það er ekki honum til stækkunar heldur til verulegrar minnkunar. Ég ítreka það sem ég sagði, hæstv. forseti, að þessi ummæli verði tekin til gagngerrar skoðunar í forsætisnefnd.