133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:59]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er önnur ræðan mín um þetta þingmál. Fyrri ræðu mína flutti ég í gær. En ég vil rifja það upp í upphafi og árétta þá afstöðu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að við gerðum kröfu til þess að frumvarp þingflokksins til laga um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið verði rætt samhliða stjórnarfrumvarpinu sem hér er á dagskrá. Það er ófært að þessi mál séu aðskilin þannig að þeir sem fá þessi þingmál til umfjöllunar sjái ekki þá valkosti sem í boði eru á löggjafarsamkundunni. Ríkisstjórnin, eins og fram hefur komið, féllst ekki á þessa málaleitan okkar.

Við höfum heyrt ýmsar röksemdir gegn hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins en einnig hefur stjórnarmeirihlutinn hamrað á málstað sínum. Hefur þar verið sýnu stórfenglegastur í málflutningi sínum hv. þm. Hjálmar Árnason, fulltrúi Framsóknarflokksins, við umræðuna í dag. Hann hélt því fram að ástæðan fyrir því að menn væru að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi væri sú að menn vildu styrkja Ríkisútvarpið sem ríkisstofnun eða öllu heldur sem stofnun í eigu ríkisins. Þess vegna væri brugðið á það ráð að gera stofnunina að hlutafélagi.

Slíkar röksemdir gætu framsóknarmenn einir held ég sett fram því svo mikils hugarflugs krefst þetta og sveigjanleika í skoðunum og afstöðu. Það sem menn söknuðu í afstöðu Framsóknarflokksins til þessa máls var að hann stæði ekki við heitstrengingar sem gefnar voru á fyrri þingum um að Ríkisútvarpið yrði ekki fært í markaðsbúning eins og verið er að gera með frumvarpinu. Það er nefnilega mikill misskilningur hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni að með þessu sé verið að styrkja Ríkisútvarpið sem stofnun í eigu ríkisins.

Við ræddum um réttmæti gagnrýni Samkeppnisstofnunar á verðlagningu búvara, sérstaklega mjólkurafurða, á Alþingi fyrir fáeinum dögum. Gagnrýnin gekk út á að öll markaðsvara ætti í reynd að heyra undir samkeppnislög. Á það var bent að innlendar landbúnaðarafurðir sættu verðlagsákvörðunum og heyrðu undir búnaðarlög á sama hátt og Ríkisútvarpið heyrir undir sértæk lög. Þessi umræða var þegar til staðar hvort ætti að vera ráðandi þáttur, samkeppnislöggjöfin eða hin sértæku lög.

Þetta er umræða sem ég tel að við þurfum að fara mjög rækilega í saumana á. Það er þetta sem við vörum við sem teljum að með þessari breytingu á forminu sé verið að gera Ríkisútvarpið að markaðsvöru. Að færa það út á markaðstorgið og gera það að markaðsvöru. Sami þingmaður sagði okkur eina ferðina enn að hlutafélagaformið væri svo gott form, margreynt og hefði gefið svo góða raun. Þess vegna hlytum við að vera því fylgjandi að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni að hlutafélagaformið er prýðisform á fyrirtækjum. Það hefur gefið ágæta raun þar sem það á við. Hlutafélagavæðing fyrirtækja auðveldaði t.d. sölu á þeim. Það var oft erfitt að selja fyrirtæki í einu lagi, en auðveldara þegar það var hlutafélag og hægt að selja hlutina í skömmtum. Þetta auðveldaði eigendaskipti, sérstaklega á stórum fyrirtækjum. Þetta var ágætt.

Hlutafélagaformið getur líka verið ágætt fyrir fyrirtæki sem þurfa að geta brugðist hratt við, eins og sagt er, í fjárfestingum og í fyrirtækjaumhverfinu. Þetta var okkur reyndar sagt í aðdraganda hlutafélagavæðingar Landssímans. Síðan þekkja allir framhaldið þegar ný stjórn fór að braska með hluti þjóðarinnar og töpuðu í einu slíku ævintýri hálfum milljarði á fjárfestingarævintýri í Bandaríkjunum. En þetta var þá sagt til þess einmitt að auðvelda Símanum að höndla á markaði.

Er það þetta sem við sækjumst eftir með Ríkisútvarpið? Að það sé sveigjanlegt að þessu leyti? Að það geti staðið í fjárfestingum eins og fyrirtæki á markaði? Er það það sem við sækjumst eftir? Hvað er það í sveigjanlegu formi hlutafélagsins sem menn sækjast eftir þegar Ríkisútvarpið er annars vegar?

Okkur er sagt við þessa umræðu, og það fullyrðir hæstv. menntamálaráðherra, að það standi ekki til að Ríkisútvarpið færi sig inn á svið þar sem önnur fyrirtæki eru að sýsla. Það beri meira að segja að reisa múra hvað það snertir, að hafa landamærin skýrari. Ég er ekki sammála ráðherranum hvað þetta varðar en þetta voru röksemdir sem fram komu þar. Með öðrum orðum þá er ekki verið að tala um sveigjanleika fyrir fyrirtæki sem markaðsfyrirtæki sem er að fást við fjárfestingar að færa út kvíarnar eða taka markaðsákvarðanir. Hvað er það þá í þessum sveigjanleika sem menn sækjast eftir? Menn verða að færa rök fyrir máli sínu.

Ég spurði talsmann Framsóknarflokksins ítrekað við umræðuna í dag, hv. þm. Hjálmar Árnason, hvað það væri nákvæmlega í sveigjanleikanum sem hann ætti við. Ef það eru ekki fjárfestingar, ef það er ekki sókn inn á ný markaðssvæði eða ný athafnasvæði, hvað er það sem menn þurfa að geta tekið skjótar ákvarðanir um? Eru það ekki mannahöldin? Það skyldi þó aldrei vera í mannahaldinu. Að þeir sem ráða yfir mannahaldinu hjá þessari stofnun geti ráðið og rekið óhindrað án þeirra kvaða sem hvíla á þeim vegna þess að þeir reka opinbera stofnun. Þá erum við að tala um réttarstöðu opinberra starfsmanna. Þá erum við að tala um kvaðir á borð við þær að forstjóri geti ekki sagt starfsmanni upp nema að tilgreina ástæður, nema að veita honum áminningu. Er það þetta sem þarf að fara? Er það þetta í samningum opinberra starfsmanna sem þarf að eyðileggja til að skapa forstjóranum meiri sveigjanleika í starfi til að hann geti farið sínu fram?

Ég hef velt því fyrir mér þegar ég hef hlustað á fólk sem talar fjálglega um að það sé að halda á vit framtíðarinnar í framfarasókn fyrir þessa stofnun. Getur verið að þetta eigi að gera á kostnað starfsfólksins? Að veikja og grafa eigi undan réttindum þess? Ætla Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn að standa sameiginlega að þessari aðför gegn starfsfólkinu? Er það með þeim hætti sem á að skapa sveigjanleika í hinu nýja hlutafélagi? Getur það verið? Er sveigjanleikinn fólginn í því að draga úr öðrum réttindum einnig?

Fram kemur í frumvarpinu að biðlaunaréttur sem er skilgreindur í almennum lögum er skertur. Lífeyrisréttindin rýrna í frumvarpinu. Nýráðnir starfsmenn fá ekki heimild til að fara í A-deild LSR sem þeir hafa núna. Það dregur þannig úr réttindum þeirra. Starfsmenn sem fara til starfa hjá hinu nýja hlutafélagi geta ekki tekið eftirlaun úr B-deild lífeyrissjóðsins þegar þeir hafa aldur til, samhliða starfi, eins og þeir geta hjá Símanum. Þetta er skerðing frá almennum lögum. Þarna er verið að skerða almenna réttarstöðu.

Er það þetta sem menn eru að grobba sig af og stæra sig af, þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins? Eruð þið svona stoltir af þessari aðför gagnvart starfsmönnum að rýra réttarstöðu þeirra? Getur það verið að mönnum finnist það horfa til framfara að setja þessa stofnun undir flokkspólitískt vald, ríkisstjórnarvaldið hverju sinni? Vegna þess að útvarpsráð á að endurspegla stjórnarmeirihlutann hverju sinni. Það er þetta pólitíska útvarpsráð sem á að ráða alvald í stofnunina sem einn ræður og rekur starfsfólk og ræður yfir allri dagskrárgerð.

Finnst mönnum þetta horfa til framfara? Ætlast menn til þess að við tölum ekkert um þetta? Eru menn að tala um að það sé málþóf þegar á þessar röksemdir er bent? Finnst mönnum það líka vera léttvægt þegar samtök sem eru stofnuð til að verja hag Ríkisútvarpsins, Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins, vara við þessu og biðja Alþingi að falla frá þessum áformum? Er það léttvægt? Á ekki að hlusta á slík rök? Eru menn ekki reiðubúnir að horfa á og ræða aðra valkosti í stöðunni?

Ég hef árum saman og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þingmenn í stjórnarandstöðunni úr öðrum flokkum talað fyrir því að stjórnsýslunni í Ríkisútvarpinu verði breytt á ýmsa lund. Það er hægt að gera það án þess að skerða réttindi starfsfólksins. Án þess að fela einum manni alræðisvald yfir öllu mannahaldi og allri dagskrárgerð í stofnuninni sem síðan á að fjármagna með lögbundnum lögþvinguðum skatti. Það er nöturlegt að hlusta á postula frjálshyggjunnar á Alþingi, hina ungu þingmenn Sjálfstæðisflokksins, tala fyrir nefskattinum. Lögþvinguðum nefskatti í stofnun sem verið er að færa frá almenningi en ekki lengra inn í faðm almannavaldsins. Þetta er ekki lýðræðisleg hugsun. Þetta er aldeilis ekki lýðræðisleg hugsun.

Hvaða hugmyndir höfum við til úrbóta? Áður en ég kem að þeim vil ég reyndar minna á annan þátt sem hefur nokkuð borið á góma í umræðunni og það er fjárhagsleg staða Ríkisútvarpsins. Þegar gengið hefur verið á þingmenn stjórnarmeirihlutans og þeir spurðir hvort þeir vilji styrkja hag Ríkisútvarpsins þegar til lengri tíma er litið, við erum ekki að tala þá um skammtíma ávinning af sölu eigna, heldur til lengri tíma litið, þá er svarið að það standi hreinlega ekki til. Við heyrum hins vegar hæstv. menntamálaráðherra tala fyrir því og tekið er undir það af öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins kunni að verða skertar. Fjárhagurinn verði með öðrum orðum rýrður. Það verði minni peningar til ráðstöfunar en nú er. Hins vegar er bent á það á móti að þetta verði rekið á svo hagkvæman hátt, væntanlega þegar búið er að reka þá sem ekki eru þóknanlegir, að það verði meira af þeim sökum til ráðstöfunar. Með öðrum orðum. Framhald verði á bágri og rýrnandi fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins. Hún hefur stórlega rýrnað á undanliðnum áratug að raungildi og það hefur endurspeglast í minna mannahaldi. Ríkisútvarpið hefur sagt upp fjölda starfsmanna til að laga sig að nýjum fjárhagsaðstæðum.

Það er margt sem ég vildi gera að umræðuefni hér en því miður hef ég ekki nema 20 mínútur í þessari seinni umferð og á ekki nema rúmar 5 mínútur eftir. Ég hefði viljað fara út í samanburðinn við önnur lönd. Við BBC sem byggir á tæplega aldargömlum sáttmála sem er endurnýjaður til 5 og 10 ára eftir atvikum, ég man ekki hvert árabilið er nákvæmlega, þar sem byggt er á þverpólitískri sátt um ríkisútvarp Breta.

Við fyrri umræðu hér sem fékk þá einkunnagjöf frá stjórnameirihlutanum að hefði flokkast undir málfþóf fór ég í gegnum þennan sáttmála og þá umræðu sem fram hefur farið í Bretlandi um þessi mál og er mjög gagnleg fyrir umræðuna hér. Það væri gagnlegt fyrir stjórnarmeirihlutann sem ætlar að ana út í þetta fen að kynna sér þetta og líka fyrirkomulagið á Norðurlöndum. Fyrirkomulagið hjá Danmarks Radio sem er ríkisstofnun. Sú stofnun á Norðurlöndum sem hefur haft mestan árangur í sölu á útvarps- og sjónvarpsefni um allan heim. Ríkisstofnun sem gerði samning við ríkið án þess að vera stillt upp við vegg og sagt að því aðeins yrði samningur um dagskrárgerð staðfestur að stofnunin yrði gerð að hlutafélagi. Það fengum við að heyra hér. Það var ekkert slíkt upp á teningnum í Danmörku.

Í Svíþjóð og Noregi er kappkostað að stjórn stofnunarinnar endurspegli ekki stjórnarmeirihlutann. Allt þetta er forsómað hér heldur bara anað áfram. Menn sem kenna sig við frjálshyggju fallast á að setja stofnunina undir pólitískan hæl sem endurspeglar stöðuna í Stjórnarráðinu hverju sinni. Þessi pólitíski stjórnarmeirihluti ræður og getur rekið þann mann sem einn fer með völdin í þeirri stofnun. Ræður starfsfólkið, rekur það að vild og hefur einn yfirvald yfir dagskrárgerðinni.

Hvers konar fornaldarhyggja er þetta eiginlega? Getur verið að það sé þingmeirihluti fyrir þessari ráðstöfun? Því miður þá óttast ég það því dæmin náttúrlega hræða. Við erum búin að sjá mjög gallaða lagasetningu fara í gegn vegna þess að stjórnarmeirihlutinn í þingsalnum virðist ganga svipugöngin og hlíta þeim fyrirskipunum sem koma héðan frá þessum bekk, ráðherrabekknum.

Hvaða úrræði höfum við fram að færa? Ég sakna þess að fá ekki að ræða það við þessa umræðu. Við getum vikið að frumvarpi okkar en síðan ekki söguna meir. Síðan er það látið frjósa í þingsalnum og fær ekki að fara út með frumvarpi ríkisstjórnarinnar til umsagnar. Það er dapurlegt. Við gerum tillögu um veigamiklar breytingar á stjórnsýslukerfi Ríkisútvarpsins. Við færum rekstrarákvarðanir inn í stofnunina. Höggvum þar í því tilliti á hin pólitísku tengsl. Við gætum að því, að þegar um er að ræða stöður sem lúta að dagskrárgerðinni komi að því fleiri en einn maður. Þá komi framkvæmdastjórnin að því máli og fleiri. Það er líka aðkoma starfsmanna. Nokkuð sem Norðurlandafólkið tryggir kirfilega í lagasetningu sinni. Við tryggjum líka aðkomu utan úr þjóðfélaginu á miklu víðari hátt en gert er í þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Við köllum til fulltrúa frá Samtökum listamanna. Frá sveitarfélögunum í landinu. Við viljum horfa til landsins alls. Við horfum til Neytendasamtakanna og starfsmanna Ríkisútvarpsins í dagskrárráði, sem er fyrst og fremst ráðgefandi, hefur ekki völd, en er fyrst og fremst hugsað sem vettvangur, veita utan úr samfélaginu inn í þessa stofnun.

Ég hef orðið var við það að þær tillögur sem við höfum fram að færa fá góðan hljómgrunn með þjóðinni og einnig innan stofnunarinnar. Það á einnig við um hugmyndir okkar um fjármögnunina sem við viljum tengja fasteign. Við höfnum algerlega nefskatti ríkisstjórnarinnar sem hér hefur verið talað fyrir fjálglega af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. (Forseti hringir.) Sigurður Kári Kristjánsson og hæstv. menntamálaráðherra hafa talað fyrir því að settur verði nefskattur til að fjármagna (Forseti hringir.) stofnun sem verið er að færa frá almenningi en ekki til almennings eins og efni hefðu verið til að gera.