133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[18:20]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við 1. umr. um lög um Ríkisútvarpið hafa alvarlegustu ágallarnir á frumvarpinu dýpkað mjög. Það hefur verið dregið fram í dagsljósið hve margir og alvarlegir ágallar eru á frumvarpinu og hve fjarri við erum því að ná einhverri pólitískri sátt um starfsemi Ríkisútvarpsins. Pólitískri sátt sem hlýtur að vera grundvöllur þess að ríkið haldi úti fjölmiðli á ljósvakamarkaði, haldi úti útvarpi og sjónvarpi.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson fjallaði hér um BBC, breska útvarpið, en um það hefur ríkt pólitísk sátt. Í öllum þeim hörðu átökum og öllu því mikla róti sem hefur verið í breskri pólitík síðustu tvo, þrjá áratugina, hefur alltaf ríkt sátt um starfsemi BBC.

Hér gegnir allt öðru máli um Ríkisútvarpið þar sem það er af Sjálfstæðisflokknum gert að pólitísku bitbeini, pólitísku átakamáli og því teflt inn í miðjan eld pólitískra átaka ár eftir ár þvert ofan í grimmúðleg átök um löggjöf um fjölmiðla þar sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar var rekin heim og nánast lögð í pólitíska rúst á þeim tíma — sem sér ekki fyrir endann á enn þar sem átökin um það mál voru svo áköf og hatröm hér í samfélaginu.

Í stað þess að draga af því lærdóm og fara þá leið að ná sátt um nýjan ramma utan um starfsemi Ríkisútvarpsins, að vinna það á breiðum pólitískum grunni, koma hér inn í þingið með mál sem væri búið að leiða til lykta að einhverju leyti áður, ná sátt um rekstrarformið, ná sátt um fjármögnunina, ná sátt um hlutdeildina á auglýsingamarkaði, ná sátt um alla þessa stóru hluti, ná sátt um inntak almannamiðilsins, í stað þess var málinu teflt inn í þingið aftur og aftur og ár eftir ár inn í harkaleg pólitísk átök. Það stefnir allt í nýjan ófrið um Ríkisútvarpið sem verður jafnvel enn harðari og átökin enn meiri en í fyrra og árið þar áður.

Alvarlegustu ágallarnir við þetta frumvarp um Ríkisútvarpið snúa í fyrsta lagi að rekstrarforminu. Það hefur ekki verið sýnt fram á, hvorki af hæstv. menntamálaráðherra, hv. formanni menntamálanefndar, eða formanni þingflokks framsóknarmanna, sem hér hefur talað fyrir hönd framsóknarmanna í umræðunni, að þetta rekstrarform hafi nokkra þá kosti til að bera að það henti utan um almannaþjónustu á borð við Ríkisútvarpið. Enga. Nema þá að það sé auðveldara að ráða og reka fólk. Enga aðra kosti.

Þvert á móti hefur rökunum fjölgað fyrir því að það fyrirkomulag sem nú er um rekstur á Ríkisútvarpinu henti því miklu betur, að gera Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun heldur en að gera það að hlutafélagi. Engin rök hafa komið fram við það, hvorki í ræðuhöldum né í beinum andsvörum eða beinum spurningum um þetta mál. Og því síður nein pólitísk réttlæting á því að svo sé fram stigið nema þetta sé áfangi að þeirri leið að einkavæða og selja Ríkisútvarpið, alla vega af hálfu sjálfstæðismanna. Og Framsóknarflokkurinn hafi fallist á að fara með í leiðangurinn að hálfu leyti, að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. En lengra yrði ekki gengið í bili af þeirra hálfu. Þetta er að mínu mati, af hálfu sjálfstæðismanna, fyrsta skref í átt að sölu enda eru sölumennirnir í Sjálfstæðisflokknum fjöldamargir og hafa verið háværir hér áður í umræðunni þó lítið hafi heyrst frá þeim núna.

Þá tel ég að nefskatturinn sé versta hugsanlega leiðin við fjármögnun Ríkisútvarpsins. Versta leiðin er valin og um það hefur engin umræða farið fram. Fjöldamargar leiðir koma til greina. Það hefur verið bent á að tengja þetta fasteignagjöldum. Það hefur bent á þá leið að setja stofnunina á fjárlög þar sem gerður er samningur til fimm til tíu ára. Það hefur verið bent á að gömlu afnotagjöldin, eins umdeild og þau nú eru, eru líklega mun betri kostur en nefskattur. Ég held að nefskattur eigi eftir að auka enn á ófriðinn um Ríkisútvarpið, minnka þá sátt sem er um það og ala á því að fólki finnist óþarfi að setja í þetta fjármagn með þessum hætti.

Nefskattur er versta leiðin. Það hlýtur að verða tekið til endurskoðunar í nefndinni. Nú fer frumvarpið væntanlega í þriðja sinn úr 1. umr. inn í menntamálanefnd til meðferðar þar, þar sem málið hefur tekið talsverðum breytingum á köflum. Hlaupið hefur verið úr einu víginu í annað hvað varðar rekstrarform á Ríkisútvarpinu eins og frægt er. Því er ekki vonlaust að í vinnu nefndarinnar verði nefskattsleiðin nú tekin til alvarlegrar umræðu enda eru formælendur þeirrar leiðar ákaflega fáir og mjög grunnt á stuðningi þeirra sjálfstæðismanna sem fyrir nefskattinum tala hér í þinginu, t.d. hv. formanns menntamálanefndar hér fyrr í dag. En það var mjög erfitt að henda reiður á því af hverju hann var að mæla fyrir nýjum nefskatti sem fjármögnunarleið til að fjármagna Ríkisútvarpið. Nefskattur er afleit leið, versta hugsanlega leiðin til að fjármagna stofnunina og frá henni á að hverfa.

Þá hef ég gert að umtalsefni við 1. umr. að það á að stíga skref í þá átt að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Við vísum í stofnanir eins og BBC þar sem slíkt er gert með góðum árangri. Það er enn mikilvægara að gera það hér. Við eigum að styðja við og mæta frjálsum fjölmiðlum með sanngirni. Við verðum að gefa þeim svigrúm á markaði til að öðlast rekstrarforsendur. Besta leiðin til að gera það er að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins – sjónvarps á auglýsingamarkaði.

Ég held að það væri ekki vænlegur kostur að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði. Þá væri stofnuninni allt of þröngur stakkur sniðinn. Allt of stór hluti tekna Ríkisútvarpsins hyrfi og því væri erfitt eða útilokað að mæta nema með gífurlegum niðurskurði á rekstri og umfangi. En það er hægt að mæta kröfum um hlutdeild á auglýsingamarkaði með nokkuð skýrum hætti án þess að stofnunin verði fyrir tjóni þannig að hægt sé að mæta því með öðrum hætti. Enda hlýtur endurskilgreining á rekstri útvarpsins og inntaki að þurfa að eiga sér stað samhliða því þannig að Ríkissjónvarpið sé fyrst og fremst að miðla fréttum, fræðslu, innlendu leiknu efni og stuðla að framleiðslu á leiknu íslensku sjónvarpsefni í stað þess að funkera eins og léleg vídeoleiga á köflum, þar sem obbinn í sjónvarpsdagskránni er annars flokks amerískt sjónvarpsefni sem stendur ekki undir neinu nafni. Þannig að inntakið hlýtur að vera undir líka og til gagngerrar endurskoðunar.

Ég spurði hv. formann menntamálanefndar, frjálshyggjumanninn Sigurð Kára Kristjánsson, að því hver væru rökin fyrir nefskattinum og hver væri hin pólitíska réttlæting á að ríkið héldi úti jafnöflugum fjölmiðli, dómerandi yfir íslenskan fjölmiðlamarkað, án þess að takmarka eitthvað á móti umsvif stofnunarinnar á auglýsingamarkaði, til að gefa einkareknu miðlunum eðlilegt og sanngjarnt svigrúm til að öðlast rekstrarforsendur. Hv. formaður menntamálanefndar, mér til undrunar, tók nokkuð undir að takmarka ætti umsvif Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði. Ef ég skildi hann rétt og túlkaði orð hans rétt mundi hann taka það upp í menntamálanefnd eftir 1. umr. um málið þegar það kæmi til meðferðar nefndarinnar að það yrði skoðað í nefndinni að hlutdeild og umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði yrði takmörkuð.

Ég held að það væri eitt skref í þá átt að ná sátt um starfsemi Ríkisútvarpsins. Við þurfum líka að ná sátt við einkareknu ljósvakamiðlana. Þeir starfa á þessum litla og þrönga markaði. Ég tel mjög nauðsynlegt að hér séu reknir öflugir einkamiðlar á ljósvakamarkaði við hliðina á Ríkisútvarpinu. Við verðum að mæta þeim af sanngirni. Besta leiðin til þess er að takmarka umsvif útvarpsins á auglýsingamarkaði. Það held ég að sé langbesta leiðin. Forskotið er mikið sem ríkismiðillinn nýtur við hliðina á einkareknu miðlunum. Afnotagjöldin í dag, sem breytast því miður í nefskatt ef þetta frumvarp nær fram að ganga, eru þvílík meðgjöf að erfitt er fyrir einkarekinn miðil að starfa við hliðina á því og ná samkeppni á þeim forsendum þegar ríkismiðillinn hefur líka ótakmörkuð umsvif á auglýsingamarkaði og getur notað ríkisféð til að styrkja stöðu sína enn frekar í þeirri samkeppni. Bjóða niður auglýsingar, bjóða í efni, hirða efni frá einkareknu miðlunum. Ég tel það gífurlega mikilvægt til að styrkja stöðu íslenskra fjölmiðla að efla stöðu einkareknu miðlanna með þessum hætti. Sérstaklega sker það í augun hvernig Sjálfstæðisflokkurinn gengur fram í að brjóta Ríkisútvarpið undir pólitískan járnhæl flokksins. Það er dapurlegasti kaflinn í frumvarpinu.

Eins og vakin var rækileg athygli á í umræðunni í dag og í gær er lagt til að kjósa skuli árlega á Alþingi í stjórn hins nýja hlutafélags, Ríkisútvarpsins ohf. Með því móti er verið að setja slíkt pólitískt kverkatak á stofnunina að stjórnandi hennar, sem ráðinn er beint af menntamálaráðherra, yrði undir þann pólitíska járnhæl settur að þurfa árlega að sæta því að kosin sé ný stjórn í stað þess að kosið sé til margra ára í stjórnina þannig að það skarist við kjörtímabil o.s.frv. Það eru til margar mjög auðveldar og færar leiðir til að koma í veg fyrir og girða fyrir þá grófu og óeðlilegu pólitísku íhlutun sem hér er lögð til.

Það er grafalvarlegt fyrir lýðræðið þegar lagt er til af sitjandi meiri hluta að pólitísk íhlutun, pólitísk tök meiri hluta hverju sinni á Ríkisútvarpinu sem gegnir grundvallarhlutverki í lýðræðinu á Íslandi, gegnir mjög mikilvægu hlutverki við að miðla fréttum, miðla upplýsingum utan úr samfélaginu til almennings. Þetta er fjölmiðillinn sem við getum gert skýlausa kröfu til um hlutlausan fréttaflutning og umræður um stjórnmálin á hverjum tíma sem við getum ekki gert með sama hætti til einkarekinna miðla eða með allt öðrum hætti. Það þarf að ná sáttmála við frjálsa fjölmiðlun í landinu, það þarf að ná sátt við þjóðina um rekstur Ríkisútvarpsins og þá miklu peninga sem varið er af almannafé til reksturs útvarpsins á hverju ári.

Með þessu máli er verið að rjúfa þá sátt. Verið er að efna til pólitísks ófriðar um Ríkisútvarpið, sama hvar borið er niður í málinu, hvort heldur það er rekstrarformið — hlutafélagaformið á ekki við um rekstur á Ríkisútvarpinu að mínu mati, þá almannaþjónustu sem það innir af hendi, nefskatturinn sem er versta leiðin eða að takmarka hlutdeild Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Að mínu mati er verið að stíga skref í átt að sölu, sölumenn Sjálfstæðisflokksins eru að stíga skref í þá átt að einkavæða Ríkisútvarpið. Það dylst engum sem skoðar.

Það er grátlegt hvernig búið er að brjóta Framsóknarflokkinn á bak aftur í þessu máli, niðurlægja flokkinn og gera hann að því pólitíska rekaldi í málinu sem raunin er. Fyrir tveimur árum fullyrtu talsmenn Framsóknar við umræðuna um frumvarpið þá, þegar lagt var til að Ríkisútvarpið yrði sameignarfélag, að það kæmi aldrei til álita af þeirra hálfu að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi. Það væri að þeirra mati skref hægri mannanna í Sjálfstæðisflokknum í átt til þess að selja Ríkisútvarpið, sem kæmi heldur aldrei til greina að þeirra mati. Ég legg fullan trúnað á að það er enginn vilji innan Framsóknarflokksins til að selja Ríkisútvarpið eða einkavæða það en það er ríkur vilji innan Sjálfstæðisflokksins til að selja Ríkisútvarpið og einkavæða. Frumvarp þriggja áhrifamikilla þingmanna í Sjálfstæðisflokknum, hv. þingmanna Birgis Ármannssonar, Péturs Blöndals og Sigurðar Kára Kristjánssonar, í þá veru færir að sjálfsögðu heim sanninn um það. Ég held að sá málflutningur njóti almenns stuðnings innan Sjálfstæðisflokksins þó að það séu örugglega undantekningar á því líka. Það er verið að stíga skref í þá átt að selja og einkavæða Ríkisútvarpið af hálfu sjálfstæðismanna og Framsóknarflokkurinn er að gefa eftir að hluta.

Þetta mál er allt hið sorglegasta að því leyti til að áfram er verið að tefla Ríkisútvarpinu inn í pólitískan ófrið. Hér er verið að takast á um grundvallarmál. Við erum að takast á um grundvöll lýðræðisins á Íslandi. Ríkisútvarpið gegnir þar miklu og ríku hlutverki. Verið er að tefla því í óvissu. Það er verið að brjóta það enn frekar undir pólitískan hæl Sjálfstæðisflokksins sem ætlar sér að deila þar og drottna og styrkja stöðu sína í framtíðinni til að hafa þar öll tögl og hagldir. Engin boðleg rök hafa komið fram fyrir því af hverju lagt er til að Ríkisútvarpið verði hlutafélag nema að það auðveldi sölu síðar, að það sé skref í átt að sölu. Sölumennirnir í Sjálfstæðisflokknum hafi unnið þar áfangasigur.

Þetta eru alvarlegustu ágallarnir á frumvarpinu sem gera það enn og aftur að því pólitíska bitbeini sem reyndin er. Líklega er 1. umr. um Ríkisútvarpið í dag og í gær að verða með lengri fyrstu umræðum um nokkurt mál um árabil og gefur það sterkar vísbendingar um það ósætti sem er í þinginu um málið og hve langt er frá því að nokkur sátt hafi náðst um Ríkisútvarpið sem hlýtur að vera alger grundvallarforsenda.

Það dylst engum að hægt er að ná sátt um Ríkisútvarpið en Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki hafa haft neinn áhuga á að ná sátt um málið. Því er teflt inn í þingið aftur og aftur inn í eldinn miðjan. Málið versnar frekar en batnar á milli ára og lítið tillit er tekið til athugasemda um alvarlegustu meinsemdirnar á málinu í umræðunni á hverjum vetri. Og þá hljótum við að líta sérstaklega til þess við þessa umræðu, og kalla eftir miklu skýrari svörum frá talsmönnum meiri hlutans á Alþingi, forustumönnum ríkisstjórnarinnar, af hverju nefskattsleiðin er valin til að fjármagna Ríkisútvarpið til framtíðar. Það er sú fjármögnunarleið þar sem erfiðast er að koma með einhver jöfnunaráhrif inn eftir því hvernig efnalega er ástatt hjá fólki. Þetta er almennt óvinsæll skattur og til eru mörg fræg dæmi um hve umdeildur slíkur skattur er. Verði skatturinn settur á með þeim afleiðingum að hann verði óvinsæll og umdeildur verður það til þess að rýra traust almennings á Ríkisútvarpinu og búa í haginn fyrir þá sem vilja selja það og einkavæða. Það skapar þann jarðveg úti í samfélaginu að rekstur þess verði óvinsæll meðal fólks og almenningur finni fyrir rekstrinum með óþægilegum hætti. Það er miklu farsælla að mínu mati að setja stofnunina á fjárlög. Það eru a.m.k. margar aðrar leiðir sem hægt er að skoða til að finna Ríkisútvarpinu heppilega fjármögnunarleið til framtíðar þannig að rekstur þess sé tryggur og öruggur og sátt milli þjóðarinnar og Ríkisútvarpsins um fjármögnun stofnunarinnar.

Ágallarnir á málinu eru því fjölmargir og þeim fer ekki fækkandi á milli þeirra orrusta sem hér eru háðar ár eftir ár um Ríkisútvarpið. Það er leitt hvernig hæstv. menntamálaráðherra kýs að koma með málið inn í þingið aftur og aftur án þess að freista þess að ná víðtækri pólitískri sátt um það. Því skiptir varla miklu máli hvort það taki nokkra mánuði í viðbót að vinna slíkt mál.

Það er hægt að ná sátt um Ríkisútvarpið. Þetta er ekki leiðin til þess, þetta er leið til að skapa enn þá meiri ófrið um rekstur þess. Það er verið að gera það að pólitísku bitbeini. Átakapunktarnir eru svo margir í málinu, hvort heldur það er rekstrarformið, hlutdeildin á auglýsingamarkaði, sölumennskan í Sjálfstæðisflokknum um Ríkisútvarpið, nefskatturinn sem er versta hugsanlega leiðin eða sú fráleita tillaga að ætla að setja þessa almannaþjónustu inn í hlutafélag í stað þess að skoða mjög vandlega og ítarlega þá leið að mynda sjálfseignarstofnun utan um rekstur stofnunarinnar sem hefur reynst svo vel í rekstri á ýmiss konar almannaþjónustu á Íslandi. Það er undrunarefni hvers vegna hæstv. ráðherra og meiri hlutinn hafa ekki lagt það til.