133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:22]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Vegna þess að sættir og sáttatal hefur verið algengt í þessari umræðu einkum í munni hv. formanns menntamálanefndar, vil ég taka undir orð síðasta ræðumanns, þau sem hann beindi að hæstv. menntamálaráðherra.

Leiðin til að skapa sættir í þessu máli og koma þessu máli á nýjan grunn er tiltölulega einföld. Hún er sú, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, að menntamálaráðherra taki út þessa þrjá stafi, ohf. Þegar það Sesam væri sagt úr munni menntamálaráðherrans tel ég að dyr mundu opnast og það skapaðist til þess leið, sköpuðust til þess möguleikar að ná samkomulagi milli allra flokka á þingi. Breið sátt sem menntamálaráðherra gæti verið ánægður með fyrir sitt leyti og sinna manna um næstu framtíð í útvarpsmálum.

Ég segi alveg eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon af minni hálfu, og þarf ekki að setja mikinn fyrirvara við það, að við útilokum ekkert í öðrum efnum. Raunar ætti hæstv. menntamálaráðherra og þeim sem hafa fylgst með þessari umræðu að vera nokkuð ljóst hvaða áherslur við höfum. Að sumu leyti fara þær saman við áherslur sem menn að minnsta kosti í orði í stjórnarflokkunum hafa haft um Ríkisútvarpið. Að öðru leyti miklu síður.

Ef þetta gerðist, annaðhvort í ræðunni sem menntamálaráðherra heldur kannski hér á eftir eða á þeim tíma sem líður á milli 1. og 2. umr. hér á þinginu meðan málið er í nefnd, væri hægt að gera Ríkisútvarpinu og unnendum þess, þjóðinni allri, stjórnmálaflokkunum og stjórnmálunum á Íslandi mikinn greiða með því að flokkarnir tækju, í fyrsta sinn mjög lengi, höndum saman um ákveðna sókn og varðstöðu fyrir almannaútvarpið á Íslandi. Það væri niðurstaða sem mér þætti, að nýhafinni þriðju lotu í þeim bardaga sem staðið hefur um Ríkisútvarpið í þrjú ár, ákaflega æskileg.

Ég hélt hér ræðu eftir að menntamálaráðherra hafði mælt fyrir frumvarpinu. Þótt hún væri heilar 40 mínútur komst ég ekki yfir allt sem ég ætlaði þar að segja. Ég ætlaði þess vegna að verja þeim mínútum sem ég á inni til að ræða nokkuð kannski einu raunverulegu nýjungina í þeim texta sem hér liggur fyrir, sem er þjónustusamningur eða drög að þjónustusamningi sem menntamálaráðherra og útvarpsstjóri hafa gert. Ég tel að sá samningur verðskuldi að vera hér ræddur vegna þess að hann er mikilvægur. Það þarf að skoða hann sérstaklega vel, tildrög hans, í menntamálanefnd þegar við förum yfir frumvarpið.

Það er um þennan þjónustusamning að segja, forseti, að hann á sér nokkra sögu og þá glæsilegasta þegar hann fannst í bréfum sem Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, og menntamálaráðuneytið höfðu sent sín á milli. Þá hafði hann verið týndur um nokkurt skeið og var því haldið fram af hálfu menntamálaráðuneytisins að sú hugmynd væri sofnuð eða dauð. Þegar hann loksins fannst gerði meiri hluti menntamálanefndar það að lokum að tillögu sinni að setja ákvæði um hann inn í frumvarpið og því er nú komið fyrir í lok 3. gr. þess, þar sem segir að menntamálaráðherra og Ríkisútvarpinu ohf. beri að gera sérstakan þjónustusamning um markmið, umfang og nánari kröfur samkvæmt 2. mgr. um útvarpsþjónustu í almannaþágu. 2. mgr. mun það vera.

Það var eðlilegt að óska meiri hluta menntamálanefndar til hamingju með þetta á sínum tíma. Því ákvæðið um þjónustusamninginn var miklu betur komið í frumvarpinu en í bréfum til alþjóðlegrar stofnunar. Þjónustusamningur af þessu tagi getur verið gott og þarft tæki.

Það er að vísu óskýrt enn þá hvaða stöðu sá þjónustusamningur sem á að gera hefur og hér liggja fyrir drög að. Það er t.d. óskýrt við hvern menntamálaráðherra gerir þennan þjónustusamning því hér stendur, Ríkisútvarpið ohf. Drögin eru gerð við útvarpsstjóra. Það kemur ekki fram í drögunum hvort ætlast er til að stjórn, hið nýja útvarpsráð, samþykki þessi drög eða hvort útvarpsstjóri á að gera það aleinn.

Það er að minnsta kosti enginn annar aðili í Ríkisútvarpinu ohf. sem kemur til greina nema útvarpsstjóri og stjórn því ekki er til nein þriðja stofnun þar — sem við höfum íhugað í Samfylkingunni og reyndar líka í Frjálslynda flokknum og að einhverju leyti í VG sem héti eftirlitsráð eða akademía og starfaði t.d. við hlið þessara tveggja stofnana hinna, útvarpsstjórans og útvarpsráðsins. Við höfum prófað það módel að láta þessa akademíu m.a. samþykkja samning af þessu tagi svo það sé klárt að Ríkisútvarpið geri hann af fullri einurð og af fullum þrótti. Það sé sem sé ákveðin samningsstaða sem útvarpsstjóri hefur gagnvart menntamálaráðherranum, sem virðist ekki vera í þeim drögum að þjónustusamningi sem nú hefur verið kynntur við afar hátíðlega athöfn á svokölluðu Markúsartorgi í Ríkisútvarpshúsinu við Efstaleiti.

Ég man eiginlega ekki eftir að haldin hafi verið hátíðlegri og glæsilegri blaðamannafundur í því húsi. Enda sýndi hann vel hversu samhljóma útvarpsstjóri og menntamálaráðherrann sem réð hann eru í þessu máli og hvað útvarpsstjórinn hefur teygt sig langt til að láta að vilja menntamálaráðherra um þetta frumvarp. Útvarpsstjórinn hefur frá því hann tók við sínu embætti varla gert annað en að lýsa því yfir að ekkert sé hægt að gera fyrr en þetta frumvarp komi. Það síðasta sem var haft eftir honum var einmitt það að eftir þessi drög að þjónustusamningi væri bara að bíða eftir frumvarpinu.

Það er undarlega afstaða hjá útvarpsstjóra, sérstaklega vegna þess að hann hefur aldrei skýrt eftir hverju sé verið að bíða eða með hvaða hætti hann geti rækt sín störf betur þó eftir því hafi margoft verið kallað, m.a. í lítilli grein sem ég birti í Morgunblaðinu nú í haust og hann hefur ekki lagst svo lágt að svara. Kannski er hægt að eiga við hann umræður um það fyrir menntamálanefnd en sá galli er á þeirri gjöf Njarðar að sú umræða er ekki opin almenningi. Ég hefði helst viljað að hún færi fram með þeim hætti.

Það er um þjónustusamningsdrögin sjálf að segja að þegar þau komu fram var þeim heldur fagnað af ýmissa hálfu. Þar á meðal var sá sem hér stendur, sem gerði það fyrir hönd síns flokks vegna þess að að minnsta kosti þrennt var ákaflega mikilvægt í þeim drögum. Það var það að tiltekið er að innlent efni skuli aukið á svokölluðum kjörtíma, milli kl. 7 og 11 að kvöldi. Það var það að tiltekið var í krónum um aukningu á efniskaupum af svokölluðum íslenskum framleiðendum. Það var það í þriðja lagi, sem vert er að nefna, að talað var um að auka töluvert textun sjónvarpsefnis. Ég taldi upphaflega að það ætti líka við um táknmálstúlkun en varð síðar fyrir vonbrigðum með það — hefði kannski ekki átt að hrósa þessari klausu jafnmikið og ég gerði — því þar er tiltekið að táknmál skuli að minnsta kosti vera jafnmikið notað og nú er. Eins er það með barnaefni. Það er hið sama og nú er. Þannig að metnaður nær kannski ekki mikið umfram þessa tvo eða þrjá liði.

Á hinn bóginn vöknuðu ýmsar spurningar um form þjónustusamningsins að öðru leyti. Þegar upp í hann eru tekin ýmis ákvæði úr 3. gr. frumvarpsins um útvarpsþjónustu í almannaþágu án þess að skýra þau betur, veit maður ekki alveg hvað það á að þýða. Það vakna að sjálfsögðu spurningar um hvað það eigi að fyrirstilla að taka upp í þjónustusamning af þessu tagi, þar sem menntamálaráðherra semur við útvarpsstjóra, fyrirmæli um ritstjórnarlegt efni á fréttastofum, um snið á fréttaflutningi, um hlutlægni o.s.frv.

Fyrsta spurningin sem vaknar, þegar slíkt er sett í samning milli menntamálaráðherra og útvarpsstjóra, er þessi: Er þá hægt að breyta þeim hlutum í næsta samningi milli menntamálaráðherra og útvarpsstjóra? Er hægt að bæta við kaflann um fréttaþjónustu og ritstjórn á fréttastofum, sem nú er ekki hægt að finna mikið að, að þetta skuli ekki vera með þeim hætti sem það er núna.

Vaninn er sá að ef um eitthvað er samið í samningi af þessu tagi þá er hægt að breyta því í næsta samningi. Er ekki réttara að hafa ákvæði sem þessi, ef þau eru, sem ég trúi, fyrirheit og skuldbinding af hálfu bæði ráðherrans og fréttastjórans, í lögunum?

Önnur spurningin sem vaknar við að sjá þessi ákvæði er: Hver er dómarinn sem fylgist með að þessi ákvæði séu virt í samningnum? Nánast allar greinar samningsins hefjast með orðunum: „Ríkisútvarpið skal“. Á þá að líta svo á að menntamálaráðherra sé sá dómari? Að menntamálaráðherra muni með einhverjum hætti áminna Ríkisútvarpið ef hann telur að ekki hafi verið farið eftir þessum ákvæðum um ritstjórnarlegt sjálfstæði og um hlutlægni í fréttaflutningi?

Því miður, forseti, verður að hafa áhyggjur af þessu. Það er þannig hér á okkar ágæta landi að áhrif stjórnmálaafla, einkum Sjálfstæðisflokksins, á Ríkisútvarpið hafa verið með þeim hætti að það ber að hafa áhyggjur af opnunum, af sprungum, af gjám eins og þessari, í textanum þó við fyrstu sýn virðist allt vera í góðu lagi.

Ég ætla aftur að víkja að kostunum í þessum þjónustusamningi. Þegar farið er að athuga orðalagið betur koma vomur á menn. Þær hafa komið í þessu máli, bæði á þann sem hér stendur og á hagsmunaaðila, m.a. framleiðendafélagið SÍK en í ályktun þess var vitnað áður. Það gerði menntamálaráðherra en hann vitnaði bara til síðustu setningarinnar en ekki til hins eiginlega efnis. En SÍK spyr í þeirri ályktun um skilgreiningu Ríkisútvarpsins á innlendu efni, á leiknu efni, á annars vegar fréttum og hins vegar íþróttum. Það er spurt um greinarmun sem gerður sé á hugtökunum íslenskt dagskrárefni og íslenskt sjónvarpsefni og um það hvað sé sjálfstæður framleiðandi.

Það vill svo til þegar ég fékk þessa ályktun var ég nýbúinn að senda af stað fyrirspurn um nákvæmlega þessi sömu efni. Fyrirspurn sem átti sér rót í því að ég reyndi, bæði í menntamálaráðuneytinu og á Ríkisútvarpinu, að fá upplýsingar um innlent dagskrárefni, hlutfall þess, og um það hverjir væru þessir sjálfstæðu framleiðendur, hver skilgreiningin væri á þeim og hvað þeir hefðu lagt til í dagskrá. Ein af spurningunum sem maður mætir í þessu, þegar maður fer að flokka efni, er t.d. Landsvirkjun. Telst hún vera sjálfstæður framleiðandi í þessari miklu þáttaröð um Kárahnjúkavirkjun sem væntanlega er skráð sem íslenskt efni? Enda er það með réttu skráð sem íslenskt efni í skýrslu Ríkisútvarpsins o.s.frv.

Þess vegna bar ég fram þessa fyrirspurn sem menntamálaráðherra svarar vonandi hér í næstu viku. Í næstu viku gerir hún það ekki en í þarnæstu viku gerir hæstv. menntamálaráðherra það ef til vill eða eitthvað síðar. Þá fáum við gott efni til að ræða í menntamálanefnd því við þurfum á þessum upplýsingum að halda. Orðalagið er nefnilega þannig að það er ekki ljóst hvað ríkisstjórnin „skal gera“ í þessum málum.

Þegar rætt er um að auka innlent efni á kjörtíma, úr 44% frá árinu 2005 í 65% fyrir lok samningstímans, verða menn náttúrlega að vita um hvaða innlenda efni er að ræða. Í þessu innlenda efni milli 19 og 23, í þessum í 44%, munar auðvitað mikið um fréttirnar, sem byrja kl. 19, og um Kastljósið, sem kemur þar á eftir og er einhver stærsti liður í innlendu efni í Ríkisútvarpinu og allt gott um það að segja, og um seinni fréttir, sem þarna koma líka inn í. Þá er nú búið að telja margt. Auðvitað vill maður vita hvað liggur þarna undir? Hvernig á að uppfylla þessi ákvæði?

Á sama hátt hefur ekki legið ljóst fyrir hverjir eru taldir sjálfstæðir framleiðendur og hvað til er af þeim. Tölur sem hafa komið frá Ríkisútvarpinu um þetta hvort tveggja hafa verið misvísandi, þannig að ég noti frekar kurteislegt orð. Ég skil þá vel í framleiðendafélaginu SÍK og aðra þá sem láta sig þetta mál varða að þráspyrja Ríkisútvarpið og menntamálaráðherra að þessu.

Ef verið er að reisa potemkintjöld í þessum þjónustusamningsdrögum, ef sú er niðurstaðan, þá er það ekki fallegt verk. Því þá er verið að blekkja menn til stuðnings við þá rekstrarformsbreytingu frumvarpsins sem hér er um að ræða. Ef þetta þýðir raunverulega eitthvað — textunin er aukning og kostar peninga, ef það á í raun og veru að auka innlent efni á kjörtíma, ef það á að kaupa meira af sjálfstæðum framleiðendum, þá þarf til þess fé. En í þjónustusamningsdrögunum er alltaf tiltekið að Ríkisútvarpið „skuli“ og „skuli“ og „skuli“, en menntamálaráðherra á ekki að „skulu“ neitt.

Það fylgir ekkert fé þessum drögum að þjónustusamningi og því hefur ekki verið svarað hvort það verði eða ekki. Þannig að ef útvega á fé til þess arna verður ekki betur séð en eitthvað gerist af þessu þrennu:

1. Að það þurfi að skera niður eða segja upp, nema hvort tveggja sé, annars staðar í Ríkisútvarpinu. Það væri gott að fá upplýsingar um það. Hvar er það og hvernig á það að fara fram?

2. Að það eigi að afla þessa efnis með auglýsingum og kostun og þar með sé verið að auka sókn Ríkisútvarpsins á þeim markaði, sem ekki hefur komið fram að sé helsta markmið menntamálaráðherra eða annarra stuðningsmanna frumvarpsins.

3. Að það eigi að afla þessa fjár með því að herja á útvarps- eða hljóðvarpshlutann af Ríkisútvarpinu, t.d. Rás 1. Það er rétt að Rás 1 kostar kannski mest af þessum þremur pörtum vegna þess að þar koma ekki inn hinar miklu tekjur af sjónvarpsauglýsingum. Þess vegna er freistandi að taka út ýmsa liði á Rás 2 til að útvega fé til að standa sig í loforðunum gagnvart menntamálaráðherra, þeim loforðum sem orðuð eru: „Ríkisútvarpið skal“.

Gott væri að fá spurningar um þetta. Ég vil líka, af því að einungis 30 sekúndur eru eftir af tíma mínum, hvetja menntamálaráðherra til að svara grunnspurningum sem hafa hljómað hér í umræðunni frá upphafi: Hvað græðir Ríkisútvarpið á því að vera hlutafélag? Af hverju getur menntamálaráðherra ekki náð samkomulagi við okkur hin hér, bæði innan sals og utan, um það að Ríkisútvarpið verði raunverulega sjálfstætt og þurfi ekki að sæta sífelldri íhlutun og sífelldri yfirstjórn og kúgun frá flokksræði á Íslandi, og aðallega frá einum flokki undanfarin 10 til 15 ár?

Ég vil ekki frá svörin: hagkvæmni, almenn skilvirkni, almennt svigrúm. Heldur hvað er það sem Ríkisútvarpið á að fá út úr þessu vegna þess að mér sýnist að það sé ekki neitt. Ég vil að lokum segja um þennan þjónustusamning sem ég tók hér til umræðu í 20 mínútur: Hvað er það í honum af því jákvæða sem þar er nefnt, sem þarf (Forseti hringir.) hlutafélag til að efna?