133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:43]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Í lok ræðu sinnar beindi hv. þm. Mörður Árnason því til mín að reyna að svara þeim spurningum sem fram hafa verið settar og ber hæst í umræðunni sem hefur staðið á annan sólarhring um þá mikilvægu stofnun Ríkisútvarpið. Ég mun gera mér far um að reyna að svara þeim spurningum eftir bestu getu en ég get sagt hv. þingmanni og öðrum að það er ekki alltaf víst að þeim líki svörin.

Ein af fyrstu spurningunum sem menn hafa sett fram í umræðunni er: Af hverju hafa menn ekki reynt að ná sáttum? Fyrir það fyrsta er rétt að draga fram að við erum að ræða um frumvarp um Ríkisútvarpið í þriðja skiptið, í raun fyrstu frumvörpin með heildstæðum breytingum á Ríkisútvarpinu í ríflega 75 ára sögu þess. Það er ekki þannig að menn hlaupi í að breyta þessari merku stofnun en hins vegar verða menn að horfast í augu við veruleikann, við samkeppni á fjölmiðlamarkaði og alþjóðlegar leiðbeiningar, allt að því kröfur, sem Evrópuráðið setur fram, sem undirstrikar að ríkisútvörp eru mikilvæg upp á menningarlega fjölbreytni.

En eftir að hafa hlustað á umræðu um Ríkisútvarpið í 44 klukkustundir, áður en við hófum þessa lotu, er ekki hægt að segja annað en að það sé nokkurn veginn útilokað að ná fullkominni sátt við stjórnarandstöðuna í þessu máli. Við höfum gert okkur far um að nálgast hana eins og hægt er og eftir bestu getu. Við leggjum fram frumvarpið í breyttri mynd með tilliti til athugasemda, fjölmargra góðra athugasemda og ábendinga sem stjórnarandstaðan setti fram á síðasta ári, t.d. varðandi upplýsingalögin, sem við höfum tekið inn og Ríkisútvarpið heyrir undir. Ýmis önnur atriði hef ég jafnframt nefnt í fyrri ræðu minni.

Ég bendi á að við höfum fengið að heyra þrjár mismunandi skoðanir varðandi það hvert Ríkisútvarpið eigi að fara, af hálfu stjórnarandstöðunnar. Það er ekki þannig að hún tali hér einum rómi eða einni röddu, það er ekki þannig.

Hvað sagði hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson um Ríkisútvarpið? Hann gæti hugsanlega sætt sig við þessa breytingu ef fjármagnið væri örugglega tryggt. Ég kem inn á það síðar, fjármagnið verður tryggt. En hann segir að verði fjármagnið tryggt þá megi sætta sig við breytingarnar. Þá er hægt að gefa færi á hlutafélagavæðingu.

Hv. þm. Mörður Árnason sagði í umræðum um Ríkisútvarpið, mig minnir að það hafi verið í vor, að hugsanlega væri hægt að athuga hlutafélagaformið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það var sem sagt hægt að ljá máls á hlutafélagsforminu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, m.a. að uppfylla upplýsingalögin, sem ég hef komið til móts við með þessu frumvarpi.

Síðan koma hv. þm. Ögmundur Jónasson og vinstri grænir. Það er ljóst að þeir vilja ekki breyta neinu sem heitir ríkisstofnun. Það á allt að vera ríkisstofnun. Svo einföld er sú fílósófía sem sett er fram og sú stefna sem sett er fram af hálfu Vinstri grænna.

Þetta er það sem ég greini af þessari umræðu. Það er ekki samhljómur á meðal stjórnarandstöðunnar varðandi Ríkisútvarpið.

Ég ætla að fara yfir nokkur atriði sem hæst hefur borið í umræðunni, m.a. þá lensku stjórnarandstöðunnar að telja frumvarpið vera undanfara sölu. Það er sama hve oft því er mótmælt úr þessum ræðustól, hversu oft það er fullyrt af flutningsmanni frumvarpsins og helstu talsmönnum stjórnarflokkanna. Það er ekki hlustað þegar kemur að þessu atriði, frekar farið í að sá fræjum tortryggni og efast um það sem sagt er. (Gripið fram í.) Ég spyr: Í stefnu hvaða stjórnmálaflokks er gert ráð fyrir að selja Ríkisútvarpið? Það kemur hvergi fram. Ekki í stefnu Sjálfstæðisflokksins og ekki í stefnu Framsóknarflokksins. (MÁ: Rás 2.) Varðandi Rás 2 þá kem ég að henni síðar.

Það ber að þakka að hv. þm. Mörður Árnason fór yfir þjónustusamninginn sem ég tel afar mikilvægt plagg til að stuðla að því að við uppfyllum þær kröfur sem við gerum til Ríkisútvarpsins varðandi aukna innlenda dagskrárgerð til að efla menninguna. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa einmitt bryddað upp á þjónustusamningnum. Hvað kemur fram í þjónustusamningnum sem tryggir m.a. veru Rásar 2? Þar segir að Ríkisútvarpið skuli a.m.k. vera með eina sjónvarpsstöð — og hvað? Er það ein útvarpsstöð eins og sagt er í frumvarpinu? Nei þar er talað um tvær. Í þjónustusamningnum er tryggt að Rás 2 haldi áfram enda hef ég margoft ítrekað að Rás 2, og ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um það, gegnir menningarpólitísku hlutverki að því leyti að þar er spiluð mikilvæg íslensk tónlist sem alla jafna er ekki spiluð á öðrum stöðvum. Þar er mikilvæg miðlun íslenskrar menningar, nútímamenningar, íslenskrar nútímatónlistar, meðan Rás 1 er það akkeri Ríkisútvarpsins sem uppfyllir að mínu mati, sem er náttúrlega persónulegt mat líka, hvað best menningarlegur skyldur sínar. Rás 1 hefur sinnt þeim skyldum afbragðsvel í gegnum árin.

Það að við ætlum okkur að selja Ríkisútvarpið er fásinna. Mér þykir reyndar vænt um að sumir hv. þingmenn, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson, treysti því sem ég hef sagt í þessu efni meðan aðrir tala eins og eitthvað sé málum blandið. Svo er ekki. Þingmenn samstarfsflokks okkar í ríkisstjórn hafa margoft ítrekað hið sama og ber að taka það alvarlega. Maður veltir því oft fyrir sér hvort það séu ekki bara ákveðnar kreddur, að halda svona fram og allt að því vantrú á þingræðinu.

Það er alveg ljóst að núverandi meiri hluti á þinginu ætlar sér ekki að selja eða stuðla að því að selja Ríkisútvarpið. Þar fyrir utan skiptir rekstrarformsbreyting engu máli ef við ætlum að leggja niður Ríkisútvarpið eða selja það. Af hverju ekki? Af því að það dugir að fá einfaldan meiri hluta á þingi, ekki aukinn meiri hluta heldur einfaldan meiri hluta sem getur í sama frumvarpi lagt til formbreytingu og sölu. Það er einfaldlega útúrsnúningur að halda því fram að þetta sé undanfari sölu, lykilþáttur í því að selja Ríkisútvarpið. Það er rangt. Vilji einhvern tímann þannig til í framtíðinni að samstaða myndist um að selja Ríkisútvarpið þá skiptir engu máli hvort það er hlutafélag, sjálfseignarstofnun eða ríkisstofnun.

Varðandi aðra þætti sem menn hafa komið inn á þá hefur t.d. hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hefur farið á nokkuð athyglisverðan hátt yfir það hvort Ríkisútvarpið eigi að vera á auglýsingamarkaði. Það má velta því fyrir sér af hverju Ríkisútvarpið eigi að vera á auglýsingamarkaði. Ákveðnir hagsmunaaðilar hafa fært fyrir því góð og gild rök að það sé mikilvægt þjónustutæki, almannaþjónusta, að hafa Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði. Það hafa t.d. samtök auglýsenda gert. Ýmsir á landsbyggðinni hafa lagt áherslu á að það sé mikilvægt að Ríkisútvarpið sé á þeim markaði, þangað berist blöðin seint og því sé mikilvægt að hafa Ríkisútvarpið sem miðli upplýsingum, sem auglýsingar eru í sjálfu sér einnig. Það er sjónarmið út af fyrir sig.

Það er líka sjónarmið út af fyrir sig að menn voru ekki reiðubúnir að hækka útvarpsgjaldið um sem næmi þeim hluta sem auglýsingatekjurnar eru í dag af tekjum Ríkisútvarpsins. Menn voru ekki reiðubúnir til þess. En það er þar með ekki algilt til framtíðar að Ríkisútvarpið verði ávallt á auglýsingamarkaði. Menn verða að meta það þegar þar að kemur. En í dag sé ég ekki ástæðu til að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði.

Ríkisútvörp eru rekin í ýmsu formi í Evrópu. Hér er söguleg hefð og sagan skiptir máli í þessu samhengi. Hér er hefð fyrir því að Ríkisútvarpið sé á auglýsingamarkaði. Svo hefur verið allt frá upphafi. Því er ekki þannig háttað þannig hjá NRK, DR eða sænska sjónvarpinu. Í Þýskalandi, hjá ARD og ZDF eru takmarkaðir auglýsingatímar. Mig minnir að þeir séu á milli sex og átta. Þetta er ekki á dagskrá í dag en engu að síður fannst mér rétt að minnast á þetta þar sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom nokkrum sinnum inn á þetta atriði.

Í þessu máli er gagnrýnin annars vegar sú varðandi Ríkisútvarpið og þetta frumvarp að við styrkjum Ríkisútvarpið allt of mikið, að það sé ógn við samkeppni og fjölbreytni á markaði. Ég tel svo ekki vera. Breytingarnar á Ríkisútvarpinu eru gerðar með ákveðin markmið í hug. Hver eru þau markmið? Þau eru að það sinni almannaþjónustu, öryggishlutverki, sem er í fyrsta skipti sett inn í lagabálk, og menningarhlutverkið skiptir einnig miklu máli. Ef Ríkisútvarpið sinnir þessu ekki þá er enginn tilgangur með ríkisútvarpi, þá fyrst er enginn tilgangur með ríkisútvarpi.

Hinar raddirnar sem heyrast gjarnan í þessum þingsal segja að við veikjum Ríkisútvarpið með þessum breytingum af því að þær séu allar svo óljósar. Þá er ég komin að forminu, sem þingmenn hafa komið inn á en það er ljóst að ekki er samstaða meðal stjórnarandstöðunnar, eins og ég kom inn á í upphafi máls, um hvort fara skuli þessa leið. (MÁ: Hvaða leið?) Frumvarpið sem við erum að ræða um, ég vona að hv. þingmaður átti sig á því, er um Ríkisútvarpið sem opinbert hlutafélag.

Ég kom inn á það í framsöguræðu minni að það hefur verið deilt um hvort rekstrarform Ríkisútvarpsins sé rétt og menn hafa talið að á því þyrfti að gera skipulagsbreytingar. Síðan er þetta spurning um leiðir. Ég er sannfærð um að leiðin sem erum að fara sé hin rétta. Af hverju segi ég það? Menn verða bara að hlusta þó að menn kunni ekki við það en hlutafélagaformið er þekkt form. Það er ekki ástæðulaust að menn leita í þetta form, að 95% eða 96% af fyrirtækjum sem hér starfa eru undir hlutafélagsforminu. Af hverju er það, ef menn vilja ekki hlutafélagaformið? Af hverju kalla menn eftir lögum um opinber hlutafélög, ef menn vilja síðan ekki nota lög um opinber hlutafélög? Til hvers er það? (Gripið fram í.) Menn segja annars vegar: Við viljum fá lög um opinber hlutafélög. Nú þegar hafa verið samþykkt um þau skýr lög. Þessu kölluðu t.d. þingmenn Samfylkingar hástöfum eftir meðan vinstri grænum hefur ekki verið sérstaklega umhugað um hlutafélög. Þeirra stefna er skýr í þessu efni.

Ýmsar stofnanir eða fyrirtæki hafa verið tilgreind, t.d. menntastofnanir, sem betra væri að reka undir sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagi, sem er óljóst fyrirkomulag. Það er rétt að draga það fram að hér var minnst á Háskólann í Reykjavík. Hann var sjálfseignarstofnun. En hvað gerðist við sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, sem stjórnarandstaðan var á móti að sameina? Hvað gerðist við þá sameiningu? Leitaði nýr sameinaður háskóli, sem var að sækja fram á við eftir nýjum tækifærum, í sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagið, sem hann þekkti? Það er ekki hægt að halda því fram að menn hafi ekki þekkt það. Þeir þekktu sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagið. Leitaði skólinn í það fyrirkomulag? Nei, hann gerði það ekki. Hann fór inn í hlutafélagaformið af því að það er þekkt rekstrarfyrirkomulag. Þess vegna fór sá góði skóli í það form.

Hvað gera þeir sem telja að þessi hlutafélagavæðing sé undanfari sölu? Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa hamast gegn því formi í flestum þingræðum. En hvað gerðu þessir flokkar þegar þeir voru sjálfir við stjórn í Reykjavíkurborg? Þeir breyttu Félagsbústöðum í hlutafélag. Þeir nýttu sér hlutafélagaformið. Mér skilst að slagorð Félagsbústaða í Reykjavík, sem eru í fullu fjöri og gegna örugglega hlutverki sínu með sóma, sé: „þjónustufyrirtæki á húsnæðismarkaði“. Það er nákvæmlega það sem Ríkisútvarpið verður, það verður þjónustufyrirtæki á fjarskiptamarkaði, með ákveðið skilgreint hlutverk.

Drögin að þjónustusamningnum ramma þetta allt inn. Þjónustusamningurinn er ekki þannig að hann sé fundinn upp í menntamálaráðuneytinu. Við höfum farið og leitað í reynslu og gagnabanka vinaþjóða okkar, Breta og þeirra sem hafa komið að svipuðum málum í Danmörku og Svíþjóð. Svipaðir þjónustusamningar hafa verið gerðir í þeim löndum við ríkisútvörp í þeim löndum og við leituðum m.a. þangað.

Það hefur verið farið nokkuð inn á fjármögnunina og menn eru að reyna að segja að allt sé svo óljóst, að það eigi að segja upp fjölda fólks af því allt sé svo óljóst varðandi fjármögnun. Það er ekkert óljóst með fjármögnun, alls ekki. Hv. þingmaður og formaður menntamálanefndar fór ágætlega yfir það, m.a. það bréf sem við fjármálaráðherra sendum til hv. menntamálanefndar. Það var staðfest fyrir hönd ráðuneytanna að Ríkisútvarpið yrði sett inn í nýtt umhverfi með jákvætt eiginfjárhlutfall. Jákvætt eiginfjárhlutfall upp 15%.

Af hverju er ekki tekið mark á því? Þetta er til í gögnum. En þá verða menn að hafa í huga, ef menn þekkja lögin, að það þarf að búa til stofnefnahagsreikning. Það er einfaldlega þannig. Menn þurfa að búa til stofnefnahagsreikning. Sá reikningur þarf að vera eins réttur og mögulegt er og þá rétt fyrir stofnun fyrirtækisins. Það eru matsnefnd að störfum, m.a. með Ríkisendurskoðanda innan borðs, sem hefur það hlutverk að skila því m.a. inn í nýtt umhverfi miðað við bestu fáanlegar upplýsingar rétt fyrir stofnun félagsins. Það er ekki verið að stofna það á morgun. Við ætlum að gera það um áramótin miðað við gildistökuákvæði þessara laga. Ég vil undirstrika að félaginu verður tryggt í það minnsta 12–15% eiginfjárhlutfall. Við það verður staðið.

Verðum við ekki að treysta því að stjórnendur standi við það? Ég fagna því sérstaklega sem hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna Samfylkingarinnar, að þeir treysti því sem forstöðumaður eða útvarpsstjóri gerir í þessu tilviki. Hann hafi óskorað vald. Þetta hefur margoft komið fram, hv. þm. Ögmundur Jónasson, í ágætum ræðum margra þingmanna Samfylkingarinnar að þeir treysti því og að þeir vilji hafa ábyrgðina skýra og mikla á herðum forstöðumanns Ríkisútvarpsins.

En þar er hins vegar enn og aftur mikill munur á skoðun stjórnarandstöðuflokkanna. Vinstri grænir vilja þetta ekki. Vinstri grænir vilja ekki hafa einn ábyrgan aðila. Það hefur margoft komið fram. Meðan hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa undirstrikað, bæði núna og í vor, að þeir telji rétt að vald útvarpsstjóra verði mikið og ríkt og að hann sæti ábyrgð, þá vilja vinstri grænir fara allt aðra leiðir í þessu efni.

Ég tel líka það vera athyglisvert að það er verið að nota orðfæri eins og „það er svo mikil óvissa“. „Það er bara verið að lúta að vilja ráðamanna innan Ríkisútvarpsins.“ Því við þekkjum það frá fyrri tíð, ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson, að oft hefur verið hávaði í kringum Ríkisútvarpið. Það hefur oft verið hávaði og sá hávaði hefur verið dreginn hingað inn í ræðustól þingsins. Undirskriftalistar, oft mikil mótmæli meðal starfsmanna, stundum með réttu, stundum ekki að mínu mati. En þau hafa oft verið dregin hingað inn. Þessi háværu mótmæli eru ekki núna. Þau eru ekki núna af því það er að sögn þingmanna stjórnarandstöðunnar verið að láta að vilja, eins og einn hv. þingmaður komst að orði, láta að vilja stjórnarherranna. Það þarf að eyða óvissu. Þess vegna verður bara að samþykkja eitthvað. Mér finnst þetta vera vanmat. Mér finnst þetta vera vanmat á sjálfstæðri skoðun og skoðanamyndun vel menntaðs fólks sem starfar hjá Ríkisútvarpinu.

Eins og það sé ekki fært um að móta sér skoðun á frumvarpi alveg eins og hv. þingmenn hér í þessum þingsal? Að sjálfsögðu hefur það sjálfstæða og mótaða skoðun gagnvart þessu. (Gripið fram í.) Það hefur margoft komið fram að það styður rekstrarformsbreytingar á Ríkisútvarpinu. Það hefur komið fram. Ekki nóg með það því þótt mér þyki ekki alltaf jákvætt að vitna í skoðanakannanir og að það sé hættulegt að móta sínar skoðanir eftir skoðanakönnunum, þá er það engu að síður þannig að það er rangt sem hefur komið hér fram, m.a. í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að meiri hluti þjóðarinnar sé á móti breytingu Ríkisútvarpsins í hlutafélag. Það kom skýrt fram í skoðanakönnun að það eru 60% með því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag en 40% á móti.

Það er sagt að það eigi að hlusta á ákveðin samtök. En það má ekki hlusta á önnur samtök sem hafa ályktað með breytingunni. Stjórnarandstaðan vill að eingöngu sé hlustað á þær raddir sem hafa gagnrýnt, eins og Hollvinasamtökin. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að Hollvinasamtökin hafa ályktað gegn breytingunni. Það hafa nokkrir aðilar talað gegn henni aðrir en þingmenn hérna í stjórnarandstöðunni.

En það hafa líka aðrir komið fram og sagt að það sé mikilvægt að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag af því menn eru ekki að mála skrattann á vegginn. Menn eru komnir til nútímans og segja: Hlutafélagaformið hentar í þessu tilfelli, í síbreytilegu umhverfi fjölmiðlanna. Og með því að niðurnjörva hlutverkið skýrt og afmarkað, eins og verið er að gera í þessu frumvarpi, er verið að draga fram hlutverkið í gegnum þjónustusamninginn og þar með erum við að uppfylla það sem við viljum sjá. (Gripið fram í.)

Til að mynda í vor lýsti Bandalag íslenskra listamanna, BÍL, því yfir og hvatti til að þetta mál yrði afgreitt í vor, SÍK sömuleiðis og hér var einnig minnst á Gallup-könnun. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, vitnaði í leiðara í Morgunblaðinu frá 7. desember síðastliðnum. Og af því hv. þm. Ögmundur Jónasson er að spyrja hverjir hafi lýst yfir stuðningi við hlutafélagaformið þá vil ég vitna í annan leiðara Morgunblaðsins frá 2. október, en sá sá leiðari dregur skýrt og skorinort fram að það skiptir máli, það sé ekki bara eitthvað út í loftið, að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Af hverju? Ekki út af einhverjum kreddum, eins og hv. þingmenn úr stjórnarandstöðunni vilja meina, bara hlutafélagavæða til þess að hlutafélagavæða. Hlutafélagavæðing hefur tilgang. Tilgangurinn er alveg skýr að mínu mati í þessu máli. Það er að styrkja Ríkisútvarpið í því hlutverki sínu að uppfylla þær kröfur sem við gerum til þess.

Ég er sannfærð um að þetta sé leiðin til að gera það. Ég vil sjá aukna innlenda dagskrárgerð. Ég vil sjá aukið íslenskt efni. Ég vil sjá aukna textun. Ég vil sjá fleiri norrænar myndir. Ég vil sjá fleiri kvikmyndir frá öðrum þjóðum en enskumælandi þjóðum. Inn á þetta er allt saman komið í þjónustusamningnum. Það er vonandi að við, ég og hv. þm. Mörður Árnason og fleiri, getum tekið ítarlega umræðu einmitt um þann samning. Því sá samningur, og ég er sannfærð um það, mun stuðla því að við munum sjá aukið framleitt íslenskt efni. Við þurfum á því að halda. Það er alveg rétt og ég get tekið undir þá gagnrýni sem hefur verið sett fram á undanförnu missirum, að það vanti aukið framleitt íslenskt efni frá sjálfstæðum framleiðendum.

Hvað erum við að koma inn á í samningnum? Við vitum að fjármagnið til þeirra dagskrárliða sem fara til sjálfstæðra framleiðenda hefur farið lækkandi, til að mynda þegar stórir íþróttaviðburðir eiga sér stað, eins og Ólympíuleikarnir og fleiri stórir íþróttaviðburðir. En með þessum samningi er tryggt að það verði aldrei lægra en ákveðnar fjárhæðir og þær fjárhæðir eru töluvert hærri en verið er að setja í þetta í dag. Byrjar 2008 með 150 millj. Síðan aukið í 200 millj. og síðan í 250 millj.

Það er rétt sem hv. þingmaður kom inn á áðan, að auðvitað er íslensk dagskrá að líka að hluta til fréttir, Kastljós og þeir þættir sem eru þarna inni. En með því að skerpa á hlut íslenskrar dagskrár og hækka hlutfallið úr 44% upp í 66% á þessum besta tíma í sjónvarpi frá kl. 7 til 11, samhliða ákvæðinu um aukið fjármagn til innlendrar dagskrárgerðar og sjálfstæðra framleiðenda, þá aukum við þrýstinginn til að koma með framleitt íslenskt efni inn í þann tíma. Ég er því sannfærð um að með öllum þeim breytingum erum við að færa Ríkisútvarpið til nútímans um leið og við gerum auknar kröfur til þess varðandi menningarhlutverk.

Það er líka rétt sem hefur komið fram varðandi nefskattinn og útvarpsgjaldið að skattur er aldrei vinsælt tæki. Þetta er ekki endilega gallalaus leið, síður en svo. Ég ætlaði aldrei að tala fyrir því að útvarpsgjaldið sé gallalaus leið. En hún er þó betri en það fyrirkomulag sem við búum við núna, þ.e. afnotagjaldið sem er bundið við viðtæki. Afnotagjaldið er í rauninni lýsandi fyrir það form sem við búum við í dag og höfum búið við síðastliðin 75–76 ár varðandi Ríkisútvarpið. Útvarpsgjaldið mun gera það að verkum að það er hægt að koma til móts við nýja tækni. Það er ekki háð einu viðtæki eins og sjónvarpið. Þetta er ekki háð því hvort við tökum útsendingar Ríkisútvarpsins í gegnum netið eða í framtíðinni í gegnum síma. Það má í rauninni segja að þetta gjald komi til móts við nýja tíma í miðlun sjónvarps- og útvarpsefnis.

Hæstv. forseti. Ég sé að tími minn er senn á enda í þessari umræðu. Ég hef reynt að fara yfir helstu atriðin sem menn hafa verið að koma inn á, meinta sölu, auglýsingar, fjármögnunina, formið, útvarpsgjaldið. En ég er sannfærð um að þessi breyting á Ríkisútvarpinu mun stuðla að eflingu þess. Mun stuðla að auknum tækifærum hjá forstöðumanni og forstöðufólki sem ég treysti. Það er ekki þannig að það sé eitt „dírektív“ og að ekki sé haft samráð við samningu þessa frumvarps. Þetta er unnið í samvinnu. Það eru nútímastjórnunarhættir. Ef menn vilja hugsa til þeirra.

Ég er jafnframt sannfærð um að ef frekari töf verður á afgreiðslu þessa frumvarps þá jafngildir það líka töf og seinkun á eflingu innlendrar dagskrárgerðar. (Gripið fram í: Hótun?) Það er engin hótun í þessu, hér er tækifæri og ég er sannfærð um að þetta er rétta leiðin til að efla og styrkja innlenda dagskrárgerð. Þetta er leiðin og þess vegna erum við að ræða þetta og þess vegna er ég að stuðla að því að það verði breyting á Ríkisútvarpinu til framtíðar, til að stuðla að menningarlegri fjölbreytni.