133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:13]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ein leiðrétting á því sem kom fram hjá hæstv. ráðherra. Samtök starfsmanna Ríkisútvarpsins hafa mótmælt fyrirhuguðum breytingum ríkisstjórnarinnar á rekstrarformi stofnunarinnar. Sama gildir um Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins sem leggjast alfarið gegn þessu frumvarpi.

Það hefur verið mjög víðtæk sátt í þjóðfélaginu um Ríkisútvarpið. Það er helst að á frjálshyggjuvæng stjórnmálanna hafi óánægju gætt svo mjög að menn hafi jafnvel viljað neita að greiða til Ríkisútvarpsins. En að öðru leyti hefur verið tiltölulega mikil sátt.

Nú er ríkisstjórnin að rjúfa þessa sátt. Enn er frjálshyggjukanturinn óánægður. Hann vill helst ekkert ríkisútvarp hafa. Við höfum heyrt slíkar raddir hér á Alþingi. En að auki er nú verið að auka óánægjuna á félagshyggjuvæng stjórnmálanna og jafnvel inni á miðjunni. Menn eins og Þorsteinn Pálsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi ritstjóri, hafa gagnrýnt þessar breytingar mjög harðlega á nákvæmlega þessari forsendu. Að það sé rangt að lögþvinga fólk til að borga skatt til stofnunar sem ekki lýtur almennum stjórnsýslulögum og almennum lögum sem eiga að tryggja rétt borgaranna.

Það var vísað í samþykktir frá Bandalagi íslenskra listamanna frá því í vor. Sú samþykkt gekk út á að eyða óvissu um Ríkisútvarpið. Ekki að Ríkisútvarpinu yrði breytt í hlutafélag. Ég mótmæli því að samþykktir samtaka af þessu tagi séu rangtúlkaðar, eins og hér hefur verið gert. Ég mótmæli líka og ítreka mótmæli mín gegn pólitískri misnotkun útvarpsstjóra og Ríkisútvarpsins á skoðanakönnun sem var gerð síðastliðið haust og ég hef gert grein fyrir í rituðu máli.