133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna.

205. mál
[14:17]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir tveimur til þremur árum flutti ég ásamt nokkrum þingmönnum Samfylkingarinnar tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti kynjanna. Tillagan fól í sér að ríkisstjórninni yrði falið að láta undirbúa framkvæmdaáætlanir til sex ára með það að markmiði að ná fram fullu launajafnrétti kynjanna í samræmi við ákvæði 14. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Framkvæmdaáætlanirnar áttu að vera tvær, annars vegar fyrir opinbera vinnumarkaðinn og hins vegar fyrir almenna vinnumarkaðinn. Þær átti að vinna í samráði við aðila vinnumarkaðarins og Samband ísl. sveitarfélaga og í þeim settar fram tímaáætlanir um aðgerðir. Það átti einnig að vera heimilt að beita ákvæðum 22. gr. jafnréttislaga um jákvæða mismunun að undangenginni rannsókn á launamun kynjanna og öðrum þáttum launakjara.

Efnislega var þessi tillaga samþykkt héðan frá Alþingi þannig að hún var felld inn í framkvæmdaáætlun um jafnréttismál til fjögurra ára sem var samþykkt á Alþingi fyrir tveimur og hálfu ári síðan. Efnislega tók því þingið undir það að þessi framkvæmdaáætlun yrði gerð. Nú eru liðin tvö og hálft ár. Ég spurði þáverandi félagsmálaráðherra Árna Magnússon fyrir um það bil ári um hvað liði framkvæmd þessarar tillögu og hæstv. fyrrverandi félagsmálaráðherra upplýsti þá að hann hefði ýtt af stað vandaðri og góðri könnun um launamyndun og kynbundinn launamun sem væri endurtekning á viðurkenndri könnun sem Félagsvísindastofnun vann árið 1995. Jafnframt upplýsti ráðherrann að fyrir lægi að nýtt launakerfi sem byggði á nýjum stofnanasamningum mundi taka gildi 1. maí 2006. Þegar þetta tvennt lægi fyrir, þessi endurtekna könnun Félagsvísindastofnunar og stofnanasamningar — þ.e. þetta tvennt mundi leggja grunn að þessari framkvæmdaáætlun sem ráðherra boðaði að yrði hrint í framkvæmd og kæmi til framkvæmda af fullum krafti á þessu ári.

Í þessari tillögu til þingsályktunar sem ég vitnaði til og ég flutti ásamt öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar var vitnað til þess hvað launamunur kynjanna er gífurlega mikill hér á landi. Bæði var það í þessari könnun Félagsvísindastofnunar og eins í könnun sem var gerð á vegum Sambands íslenskra bankamanna. Þar kom fram — ég hef ekki tíma til að nefna það —gífurlega mikill launamunur og auðvitað er nauðsynlegt að taka á þessu skipulega eins og við höfum lagt til og fram kom í þessari framkvæmdaáætlun. Það eru 45 ár á þessu ári síðan fyrst voru sett lög um launajafnrétti kynjanna sem átti að ná fram á næstu sex árum. En eins og við þekkjum þá var það ekki gert vegna þess að atvinnurekendur hafa fundið aðrar leiðir og hið opinbera líka til að fara fram hjá lögunum með alls konar duldum greiðslum og fríðindum. (Forseti hringir.) Því spyr ég hæstv. félagsmálaráðherra í fyrirspurn í tveim töluliðum um hvað líði gerð þessarar framkvæmdaáætlunar.