133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna.

205. mál
[14:27]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í svari hæstv. ráðherra kom fram að stöðnun ríkir í þessum málum. Launamunur kynjanna er áfram gífurlegur. Áfram líðast mannréttindabrot í íslensku samfélagi. Launamunur kynjanna, ólík laun, lægri laun til kvenna fyrir sambærileg störf, er óþolandi smánarblettur á íslensku samfélagi. Það ríkir alger stöðnun í málaflokknum og það er ekkert að gerast. Það kallar að sjálfsögðu á ný tæki, ný úrræði og róttækari aðgerðir til að vinna bug á þessum mannréttindabrotum af því að þetta er ekkert annað. Það er óþolandi að þurfa að búa við það að konur fái ekki sömu laun og karlar og því fer meira að segja víðs fjarri. Úti á hinum almenna vinnumarkaði er þetta dýpri og alvarlegri vandi en nokkurn tíma fyrr og ef eitthvað er þá fer hann versnandi. Það er staðreynd sem við búum við og þess vegna verðum við að grípa til róttækari og harðari aðgerða til að vinna bug á þessu vandamáli.